Leita í fréttum mbl.is

Nú má hlægja

Það er svo gott að hlægja, ekki síst fyrir svefninn. Hvatinn að þessum skrifum er saga sem ég las á facebook hjá einni góðri konu. Ég trúði því alveg að viðkomandi hefði lent í þeim atburði sem hún var að lýsa. Svo reyndist ekki vera. Ég fékk að hnupla sögunni og setja hana hjá mér. Margir mínir vinir trúðu því einnig að ég hefði getað lent í svona atburði. Þá er best að láta söguna bara flakka.

Sko einu sinni var ég á einhverju heilsufæði sem samanstóð af alls konar baunum. Aukaverkanir voru þær að vindgangurinn var rosalegur og hefði nærri geta komið mér til tunglsins. Lyktin var einnig í samræmi við það og er lesendum látið eftir að ímynda sér framhaldið. En allt um það. Á laugardagsmorgni þurfti ég að bregða mér í Bónus. Karlinn keyrði mig en nennti ekki inn þar sem ég ætlaði ekki að versla mikið. En röðin við kassann var rosalega löng og ég þurfti að bíða, lengi, lengi og svo varð mér svo mál að leysa vind. En auðvitað gerir maður ekki slíkt og þvílíkt í röð í Bónus. Ég hélt því fast í mér og var orðin gjörsamlega viðþolslaus þegar loks var komið að mér við kassann. Hrúgaði vörunum í poka, nánast henti peningum í kassadömuna. Hljóp svo út eins hratt og ég komst. Hentist inn í bíl hjá karlinum mínum og prumpaði og prumpaði eins og enginn væri morgundagurinn. Gaf svo frá mér fegins andvarp og sagði hátt: AHHHHH ÞETTA VAR GOTT um leið og ég snéri mér að karlinum til að útskýra þrautagöngu mína inni í búðinni. 

Gott fólk. Ég hélt að það myndi líða yfir mig þegar ég leit á hann og sá að ég var í vitlausum bíl. Maðurinn sem sat við stýrið var alls ekki maðurinn minn heldur einhver allt annar karl sem greinilega var að kafna úr skítafýlu því hann hamaðist eins og óður við að skrúfa rúðuna niður, sín megin. 

Ég hélt ég myndi deyja. Tautaði einhver afsökunarorð og tróðst út úr bílnum. Aumingja maðurinn sagði ekki orð. Var ábyggilega í andnauð og greinilega skíthræddur við þennan prumpustamp. Pokanum gleymdi ég auðvitað í bílum og ætla sko EKKI að leita að honum. 

Svo mörg voru þau orð. Önnur saga svipuð átti sér stað. Kona nokkur skaust í búð til að versla. Hún ætlaði að vera eldsnögg, sem hún var. Rauk inn, verslaði, rauk út aftur og settist inn í bílinn sinn. Henni gengur eitthvað illa að koma lyklinum í svissinn og skilur ekkert í þessu. Þá heyrist allt í einu úr aftursætinu: "Ætlar þú að láta mömmu og pabba borga peninga til að fá okkur til baka þegar þú ert búin að  ræna okkur?" Konugarminum bregður illa við og lítur í aftursætið. Þar sitja tvö börn, ekki hennar eigin, enda voru þau heima. Hún tautar eitthvað, rýkur út úr bílnum. Finnur sinn bíl og ekur reykspólandi, á tveimur dekkjum, í burtu í þeirri von að aldrei þurfi hún að sjá þessi börn framar.

Árin líða. Nærri fimmtán árum síðar kemur heimasætan á bænum með ungan mann í heimsókn. "Mamma, mig langar að kynna þig fyrir honum Guðjóni." Ungi maðurinn stígur fram, heilsar og fer að brosa. "Þú er konan sem ætlaði að ræna mér og systur minni fyrir mörgum árum af bílastæði. Ég hef oft hugsað til þín síðan." Segið svo að heimurinn sé ekki smár. 


Við hin

Ég er að hugsa um að segja ykkur sögu úr raunveruleikanum. Jón A og Jón B keyptu sér hús á sama tíma. Jón A hafði aðgang að aðila úr fjármálageiranum, fékk ráðleggingar frá óháðum aðila. Hann tók því gengistryggt lán til 15 ára til að borga húsið sitt. Jón B hafði ekki þennan aðgang. Hann fór í bankann sinn og spurði ráða. Á þeim bæ var honum sagt að ekkert vit væri að taka gengistryggt lán til 15 ára svo hann tók verðtryggt lán, til 40 ára. Þetta var árið 2005. Árið 2008 varð hrun á Íslandi. Líklega hefur einhver heyrt minnst á það.

Jónarnir okkar báðir lentu í erfiðri súpu. Jón A sá lánið sitt rjúka upp úr öllu valdi, tók andköf og átti svefnlausar nætur. Jón B lenti í sömu súpu. Jón A var hins vegar heppari en nafninn því hans lán var gengistryggt og kannski meira að segja ólölegt. Hann getur því átt von á endurgreiðslu, niðurfellingu og ýmsu öðru. Þeim nóttum hefur því fljögað að nýju þar sem hann nýtur hvíldar. Því er ekki þannig háttað um aumingjan hann Jón B.

Verðtryggð lán eru eins og óhreinu börnin hennar Evu. Það vill enginn kannast við þau.  Samt eru þetta lánin sem flest heimili landsins bera. Þau hafa þann stóra ókost að þau lækka ALDREI eftir verðlagi, gengi eða verðbólgustigi, eins og gerist með gengistryggðu lánin. Höfustóll verðtryggðra lána hækkaði og hækkaði í verðbólguskotinu og hann verður áfram hár. Höfuðstóll gengistryggðu lánanna mun lækka þegar gengið lækkar og vaxtakjörin eru öðruvísi. 

Af hverju talar enginn um það sem brennur á flestum? Af hverju tekur enginn á þeim stóra vanda sem þessi verðtryggðu lán eru? Bara sett í nefnd til að svæfa málið? Er það af því að verkefnið er svo yfirþyrmandi að enginn treystir sér til að byrja á því eða er það af því að viljann vantar?

Landsbyggðin líður þegar fyrir ótrúlegt verð á eldsneyti. Við höfum ekki möguleika á því að sinna erindum okkar nema á bíl, þó við gætum tekið þarfasta þjóninn í meiri og aukna notkun, þarf slíkt nokkuð langan aðdraganda. Verð á rafmagni hefur hækkað gífurlega. Ég var að taka saman tölur fyrir eitt hús fyrir skömmu. Árið 2009 kotaði rafmagnið þar kr 74 þúsund rúm. Árið 2010 var það 243 þúsund rúm. Tekið skal fram að þetta hús er með rafmagnskyndingu, ekki hitaveitu. Kalda vatnið hjá Orkuveitu Reykjavíkur hefur einnig hækkað umtalsvert. Verð á nauðsynjavörum hefur einnig hækkað mikið. Að ekki sé talað um lánin. Það eina sem ekki hefur hækkað er kaupið. Og svo segja menn, við erum á uppleið. Við erum sannarlega á uppleið, með verðið. 

Ég er ein af þeim mörgu Íslendingum sem hef gerst sek um einn hlut. Ég hef verið að borga og borga, alla mína ævi og einfaldlega viljað standa í skilum. Ég á ekki nýjan bíl, hef ekki keypt mér nýtt hús eða húsgögn eða flatskjá eða eða eða eða. Ég er alin upp við að standa við mín loforð og það er í raun það eina sem ég hef gerst sek um. Lánin mín urðu að skrímsli í verðbólgunni, ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í því, heldur í þriðja sinn. Ég held áfram að reyna að borga og borga og borga, en í ljósi staðreynda, þá er greiðslugeta mín orðin of lítil. Á meðan afskrifaðar hafa verið hundruðir milljarða fyrir ýmsa á ég bara að borga og borga og borga, ekkert er hægt að fella niður hjá mér. Ég sukkaði ekki nóg. Er þetta réttlæti? Við hin sem bara höfum gert okkur sek um að vilja standa okkar plikt, eigum við alltaf að borga brúsann? Er endalaust hægt að níðast á minni máttar?

Mig langar ekki að lifa í samræmi við mínar lægri hvatir, þótt ég eigi það til að lenda þar á stundum Fyrir nokkru sendi ég góðri konu póst Þar setti ég inn eftirfarandi setningar, af því að ég vil trúa því að réttlætið nái fram að ganga og mig langar að ná mér upp úr neikvæðninni.

Ég trúi því að til sé fólk sem vill fegurra mannlíf. Ég trúi því að til sé fólk sem vill að heilindi ríki. Ég trúi því að ef við tölum og framkvæmum frá hjartanu mun gott af hljótast. Ég trúi því einnig að trú á gömul og góð kristin gildi sé enn til í samfélaginu og verði okkur öllum til hagsbóta. Síðast en ekki síst, trúi ég því, ef við öll vinnum saman, af heilindum, muni réttlætið sigra að lokum. Að við sem höfum staðið okkar plikt, verið samviskusamir verkamenn í víngarðinum, munum uppskera ríkulega, en það þarf að gerast fljótt, áður en búið er að lýsa okkur öll gjaldþrota.  Blush


Hefðum átt að hlusta á karlinn

Þótt að ég hefi nú víst aldrei kosið Framsóknarflokkinn og það angrar mig svo sem ekkert þá hef ég um nokkra hríð verið hrifin af málflutningi Sigmundar Davíðs um endurreisnina eftir að bólan sprakk.

Ég tel nokkuð einsýnt að ef við hefðum farið niðurfærsluleið í einhverri myndi, strax, þá værum við almennt mikið betur stödd en reyndin er í dag. Og það sem meira er, almenningi hefði fundist að eitthvað væri verið að gera til að bæta haginn.

Í stað reiði og vonbrigða væri kannski komið bullandi uppbyggingarstarf. Fólk hefði fundið að tekið væri tillit til stöðu þeirra, hvort sem um væri að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Þá væru kannski ekki þúsundir Íslendinga enn í stríði við bankanna því að enn hefur einungis verið tekið á erlendu lánunum sem í mörgum tilfellum voru neyslulán, tekin til að kaupa bíl eða eitthvað slíkt.

Hinn stóri óleysti vandi eru íslensku lánin. Þau verðtryggðu sem urðu að skrímslum og fólk getur ekki borgað. Þar stendur allt fast og verra en óbreytt. Ef strax hefði verið tekin sneið af lánunum, væri annað hljóð í strokknum. Ef neytendur hefðu notið afskriftanna, alla vega að einhverju leiti, sem bankarnir hlutu þegar þeir tóku yfir skuldasöfn gömlu bankanna, þá væri allt önnur staða hjá flestum. Það er auðvitað ekki í lagi að nýr banki geti fengið skuldir Jóns Jónssonar með 50% afföllum hjá gamla bankanum en auminginn hann Jón borgar fullan skammt. Þetta er kannski löglegt, en alls ekki siðlegt. 

 


mbl.is Glötuð tækifæri í endurreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt

það var einu sinni kona sem datt á bólakaf í stóran drullupoll. Allir nærstaddir hlógu. Konan stóð upp og sagði að þetta hefði verið með vilja gert. Að leggjast flatur í drullu væri eitt besta fegrunarmeðal sem til væri. Það væri svo gott fyrir húðina. Slíkur var sannfæringarkrafturinn að áður en við var litið var fjöldi manns farin að baða sig upp úr drullupollum, hvar sem til þeirra náðist. Það var ekki fyrr en ein saklaus sál nefndi að baða sig upp úr drullu hefði ekkert annað í för með sér en auka þvott, sem í sjálfu sér er gott fyrir húðina, að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.

það var einu sinni keisari sem réði til sín klæðskera sem áttu að sauma á hann ný föt. Þótt ekkert væri efnið var sannfæringarkrafturinn slíkur að þeim tókst að telja keisara og hirðinni allri trú um að um fegursta silki væri að ræða.  Keisarinn ákvað að klæðast hinum nýju fötum við hátíðlegt tækifæri. Það var ekki fyrr en saklaust barn nefndi að hann væri klæðalaus að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.

Það voru einu sinni fjármálamenn sem ákváðu að verða ríkir. Þeir uxu og döfnuðu, eins og púki á fjósbita. Veldi þeirra var mikið, eða svo héldu allir og þjóðin var afar stolt af þeim. Margir urðu til að vara við að ekki væri allt þetta veldi byggt á bjargi, fremur væri það byggt á sandi. Sannfæringarkraftur fjármálamannanna var slíkur að fólk tók svona gagnrýni ekki vel. Það væru bara öfundssjúkir aðilar sem svona létu. Það var ekki fyrr en allt fór í norður og niðurfallið, með miklu brauki og bramli að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt. 

Það var einu sinni land sem bjó yfir besta vatni í heimi. Þjóðin í landinu var ekki meðvituð um þá auðlind sína og hafði kannski ekki trú á hún væri merkileg. Þrátt fyrir að reynt væri að selja vatnið til landa þar sem skortur var á slíkum gæðum, tókst ekki sem skyldi. Þar vantaði sannfæringarkrafinn til að losa álögin af fólki. Ótrúlegt.

Það var einu sinni þjóð sem ræktaði ómenguðust afurðir í heimi. Náttúran var hrein, ekki þurfti að úða eiturefnum á allt sem óx og vatnið var í háum gæðum. Þjóðin reyndi að selja kjöt til útlanda en hafði ekki árangur sem erfiði að neinu viti, var kannski með minnimáttarkennd. Þar vantaði sannfæringarkraftinn til að koma gæðavöru á markað og álögin enn virk. Ótrúlegt. 

Það var einu sinni að fólk sem lenti í hremmingum.  Það varð að stokka allt upp, skoða og meta lífið og gæði þess upp á nýtt. Svo liðu árin. Einn dag kom maður fram í fjölmiðli landsins og greindi frá því að nú væri rosalega sniðugt að fara að rækta erfðabreytt matvæli. Það væri bara allt í lagi þótt ekki væri búið að rannsaka það mikið hvaða afleiðingar það hefði fyrir fólk og dýr að borða afurðirnar. Þetta væri stærsta skref sem mannkynið hefði stigið í árþúsundir. Þótt alls ekki væri heldur fyrirséð hvaða áhrif svona aðskotaplöntur hefðu á móður jörð. Málið væri að erfðabreytt korn gæfi svo mikið meira af sér, menn myndu græða svo mikið meira á því að rækta þessar plöntur. Sagan minnir mjög á söguna um fjármálamennina. Spurning hvort fólkið sé enn í dróma og muni gera sömu mistök aftur. Lætur það einhvern með mikinn sannfæringarkarft segja sér hvað er í lagi og hvað ekki. Hverju eigi að trúa og hverju ekki. Vonandi hafa menn lært af reynslunni og beita heilbrigðri skynsemi til að meta hvað er rétt en gleypa ekki hráar yfirlýsingar þeirra sem vilja selja. Annað væri Ótrúlegt. 


Spólað um á Kódjak munstri

Vitur manneskja sagði eitt sinn að ekki ætti að skrifa pistla eða neitt sem kæmi fyrir sjónir almennings, út frá sínum lægri hvötum. En stundum brýtur nauðsyn lög og í dag ætla ég að skrifa út frá mínum lægri hvötum.

Einu sinni var sagt að slétt dekk undir bílum væru með Kódjak munstur, þ.e. ekkert munstur. Nú eru komin tvö ár, rúmlega, síðan Guð blessi Ísland, ræðan var flutt í sjónvarpinu. Og hvað svo? Já hvað svo? Lítið hefur breyst að því er virðist. Okkur er þó sagt að svo sé, fyrirtækið Ísland sé á rétta úr kútnum. Það getur vel verið bókhaldslega séð buddan mín er ekki sammála því. 

Á síðasta ári, meðan áfallið var enn í fersku minni ól ég þá von að við, Íslendingar, myndum læra af þessu öllu. Henda fyrringunni, huga að okkur sjálfum, ræktun lands og lýðs. Sjá að fleira er í lífinu heldur en brask og eyðsla.

Fyrir jólin 2009 fannst mér áberandi minna af auglýsingum í fjölmiðlum.  Það er sannarlega ekki svo lengur. Þegar hafa auglýsingatimar ljósvakamiðlanna lengst að nýju. Ferðir seljast til útlanda sem aldrei fyrr og fyrir jólin síðustu var aftur farið að auglýsa jólagjafirnar hennar og hans upp á mörg hundruð þúsund.

Eftri að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út gladdist ég. Renndi yfir hana þá og síðar og hugsaði, hér eru leiðbeiningar fyrir okkur til að læra af. Gerum aldrei aftur sömu mistökin og hér er greint frá. En mér hefur sýnilega ekki orðið að ósk minni. Skýrslunni er veifað sem refsivendi mun frekar en leiðbeinandi riti. Ég er farin að halda að Íslendingar almennt vilji bara spóla áfram á Kódkjak munstrinu. 

Þegar haldið var upp á eins árs afmæli skýrslunnar góðu var Sigrún Davíðsdóttir með ágætan pistil í Speglinum, fréttaskýringarþætti RÚV. Þar nefndi hún meðal annars að Seðlabankinn ætlaði að fara að láta vinna skýrslu. Af hverju eru þeir að láta vinna skýrslu? Þeir hafa haldgóða, vel unna og ígrundaða skýrslu til að fara eftir. Hins vegar hafa þeir ekkert nýtt sér hana eða leiðbeiningarnar sem þar komu fram, að því er viðrist. Þeir hafa heldur ekki markað  neina peningastefnu sem ég hef heyrt um. Af hverju ekki? Vilja þeir slá ryki í augu almennings með því að láta vinna eina skýrsluna enn í stað þess að taka til í eigin ranni? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Og hvað með afkomu og greiðslugetu fólks? Vitað er að sumir eiga sand af seðlum, það sést á ýmsu. Einnig er vitað að sumir eiga minna en ekkert. Sá hópur býr ekki við mannréttindi því mismununin er sannarlega enn virk. Það virðist nefnilega vera svo að margir þeir sem bröskuðu og þöndust út, hrundu svo saman sem stungin blaðra, séu komnir aftur í gang og sumir hverjir á nákvæmlega sama  stað og þeir voru fyrir tveimur árum.

Ef það er okkar val að læra ekkert af mistökunum, þá höldum við áfram að spóla um á Kódkjak munstri. Maður spyr sig þá hvort nokkuð sé undarlegt að stjórnvöld geri það líka og að fátækir verði enn fátækari og ríku enn ríkari.

Aftur getur runnið upp sá tími, sem foreldar okkar, afar og ömmur börðust gegn að eldra fólk og öryrkjar hafi varla til hnífs og skeiðar því að fyrringin er svo mikil að hver spólar bara um í sínu hjólfari og er skít sama um hina. Kannski ég ætti að fara að öngla saman fyrir útförinni, svo öruggt sé að ekki þurfi að hola manni niður á kostnað ríkisins, þegar þar að kemur. 


Kerfið í kerfi

Af hverju erum við svona mikið kerfisfólk? Hér búa ríflega þrjúhunduð þúsund manneskjur sem einkar lagið virðist vera að gera einföld mál flókin. Þrátt fyrir alla vinavæðingu fámennisins þá eru þeir sem minna mega sín alltaf að lenda í brasi með "kerfið" Einföld mistök í útfyllingu á eyðublöðum verður að stórmáli þótt allir samþykki að um mistök séu að ræða. Bara eins og maðurinn sem sótti um fæðingarorlof. Upplýsingarnar voru eitthvað loðnar, hann gerði sitt besta en fyllti rangt út.

Á leið hans um þennan dimma skóg kom einnig í ljós að endurskoðandi fyrirtækis þess sem hann vann hjá, hafði gert einhver mistök. Atvinnurekandinn sendi yfirlýsingu, ásamt endurskoðandanum að um mistök væri að ræða. En nei, þá fær viðkomandi bara ekkert fæðingarorlof og ef hann er ekki sáttur, getur hann bara kært. Kerfið sagði nei, fór í kerfi og við það situr. Er minnimáttarkenndin svo mikil að við þurfum að sýna mátt okkar og megin á þennan hátt? Helst flögrar það að mér.


Kærar þakkir

Ágætu lesendur!

Inn á þessa síðu hefur ótrúlegur fjöldi fólks kíkt, síðustu daga.  Hér hef ég einkum skrifað það sem leggið hefur á hjarta varðandi kosningar til Stjórnlagaþings. Ég vil því nota þessa síðu og þetta tækifæri til að þakka fyrir. Bæði fyrir lesturinn hér inni og eins vil ég þakka ykkur sem fóruð á kjörstað. Ég hef brennandi áhuga á því að vinna að endurbótum á stjórnarskránni. Hvort ég fæ tækifæri til þess kemur í ljós á næstu dögum.

Ég hef einnig þá trú að þessi tilraun, að kjósa í persónukjöri, hafi verið afar mikilvæg fyrir okkur. Því miður varð þátttakan ekki sem skyldi en við erum þó reynslunni ríkari. Mér finnst einnig athyglisvert hversu fáir eyddu miklu fé í auglýsingar. Ég fékk einungis einn "kjóstu mig" miða í póstkassann hjá mér. Það finnst mér gott. 

Enn og aftur endurtek ég þakkir mínar, ekki síst til ykkar sem kusuð mig. 


Sætin skipta máli

Smá misskilnings hefur gætt meðal kjósenda sem sumir hverjir halda að það skipti ekki máli í hvaða sæti þeir setja þá sem þeir vilja kjósa, allir fái sama vægi. Þetta er ekki rétt. Sá sem þú vilt helst að komist inn, þarf að vera efstur á listanum þínum. Það skiptir máli. Hins vegar til að nota atkvæðið þitt sem best er ekki verra að skrifa niður fleiri númer. Sá sem er efstur er kannski þegar öruggur inn, þegar kemur að þínum seðli í talningunni, þá færist atkvæðið þitt á næsta númer fyrir neðan og síðan koll af kolli. Verið gæti líka að sá sem er efstur hjá þér, eigi enga von, þá færist atkvæðið þitt líka á þann næsta.

Gæta verður að því að skrifa í hverja línu. Ef ein línan er auð eru þau númer þar á eftir ógild. Ef fólk er í vafa er best að setja bara eitt númer og bendi ég í því sambandi á mitt, 4195. Það er nokkuð gott. 

Hvernig sem allt veltist er nauðsynlegt að fólk mæti á kjörstað og kjósi. 


Hver er Birna Guðrún Konráðsdóttir?

Fullt nafn mitt er Birna Guðrún og ég er Konráðsdóttir. Skírð í höfuðið á móðurforeldrum mínum, Birni Bjarnasyni og Guðrúnu Lilju Þjóðbjörnsdóttur. Hann var alin upp á Rangárvöllunum en hún í Borgarfirði. Foreldar mínir eru Margrét Björnsdóttir völundur og húsmóðir og Konráð Jóhann Andrésson stjórnarformaður og stofnandi Loftorku í Borgarnesi. Við systkinin erum fimm og ég er elst. Í Borgarnesi ólumst við upp í faðmi fjölskyldu og vina en þá var bærinn í raun bara þorp. Menn héldu enn kindur, hross og hænsni. 

Eftir landspróf í Borgarnesi fór ég í Menntaskólann á Akureyri. Ástin og letin urðu þess valdandi að ég lauk ekki stúdentsprófi en maki minn til ríflega þrjátíu ára er Brynjar Halldór Sæmundsson. Saman eigum við fjögur börn og fimm barnabörn. Letin hefur sem betur fer nokkuð runnið af mér en ástin blómstrar enn. 

Eftir að hafa útvegað þjóðfélaginu nokkra úrvals, mannvænlega þegna settist ég aftur á skólabekk. Fyrst var farið í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Þaðan lá leiðin í Frumgreinadeild Háskólans á Bifröst. Tók mér síðan frí frá námi í nokkur ár en flutti síðan til Kanada þar sem ég lauk diploma í sjúkranuddi árið 1997.  Hef ég starfað við fagið síðan, fram að síðustu áramótum er ég lokaði nuddstofunni. Önnur störf voru orðin svo fyrirferðarmikil að nauðsyn var að breyta til. 

Ég er alin upp í Guðsótta og góðum siðum, eins og þar stendur. Sem barni voru mér kenndar bænir og látin vinna þau störf er til féllu á heimilinu. Öll verk voru jafn rétthá þótt móður minni gengi ekki vel að láta mig vera röska við uppvaskið þá gafst hún ekki upp, sem betur fer. Við systkinin vorum hvött til að taka þátt í félagsmálum og í Borgarnesi bernsku minnar var úr nógu að velja. Það var einnig okkar lán að móðirin var heimavinnandi, sífellt til staðar til að taka á móti ungviðinu og ræða málefni dagsins. 

Við hjónin keyptum okkur jörð í Ystu Tungu Stafholtstungna árið 1999. Þar höfum við síðan blómstrað, eins og blómi í eggi. Haldið nokkrar kindur, hross og hund og liðið vel. Tungnamenn tóku vel á móti okkur, þannig að okkur hefur ætíð fundist við vera innfædd hér. Börnunum fannst ótækt að flytja allt draslið á haugana þegar við fluttum, en bærinn hét áður Haugar. Okkur til happs var til sögn um eldra nafn og breyttum við bæjarnafninu strax árið 1999 í Borgir. Sumum til ama, öðrum til gleði. 

Ég hef víða komið við í leik og starfi. Á meðan búið var í Borgarnesi var ég m.a. framkvæmdastjóri í verslun sem hagleiksfólk í héraði stóð að, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Borgfirðings og kennari án réttinda við Grunnskólann í Borgarnesi. Eftir að námi í sjúkranuddi lauk, starfaði ég við það en þörfin til að skrifa blundaði ætíð undir. Ég réðst til starfa á héraðsfréttablaðinu Skessuhorni og vann þar um skeið en er nú lausráðinn blaðamaður.

Félagsmálin hafa alltaf verið órjúfanlegur hluti af lífinu, ekki síst eftir að sveitalífið tók við. Þó hef ég ekki verið í pólitík og ekki gefið mig út fyrir það eða verið í neinum stjórnmálaflokki. Í gamla daga tók ég þó þátt í starfsemi Kvennalistans án þess að vera þar á lista. Í dag er ég formaður í Veiðifélagi Norðurár og Gljúfurár. Einnig stjórnarmaður í Veiðifélagi Borgarfjarðar. Ég sit í sóknarnefnd Stafholtskirkju sem formaður og einnig í fjallskilanefnd, ásamt því að vera kirkjuþingsmaður og varamaður í kirkjuráði. Þess á milli reyni ég að skrifa fyrir Skessuhornið, Morgunblaðið, Bændablaðið og aðra þá miðla er vilja njóta starfskrafta minna. En fyrst og fremst er ég landsbyggðarmanneskja sem vill hvergi annars staðar búa. 

Ég hef búið í höfuðborg lýðveldisins um nokkurra ára skeið, á Norðurlandi og í Borgarfirði.  Fyrir mig hefur valið aldrei verið erfitt. Landsbyggðin lokkar og laðar. Henni vil ég helga starfskrafta mína, til heilla fyrir land og lýð. Ég hef brennandi áhuga á að taka þátt í að búa til betri veröld fyrir þær kynslóðir sem ganga munu um Íslands grundir um alla framtíð. Því býð ég mig fram til Stjórnlagaþings. 


Af hverju ætti ég eiginlega að kjósa?

Þetta er sú spurning sem margir hafa spurt mig að undanförnu. Svar mitt við því er í nokkrum liðum.

Það tók okkur langan tíma að öðlast kosningarétt að nýju. Í langan tíma réðu Íslendingar engu um það hverjir færu hér með völd. Hvað þeir gerðu eða hvernig umhverfi okkur var boðið upp á. Við urðum bara að kyngja því sem aðrir þröngvuðu upp á okkur. Það var mikill sigur að öðlast þennan dýrmæta rétt að fá að segja skoðun sína með atkvæði sínu. Við eigum því að kjósa.

Nú er verið að prufukeyra persónukosningar. Það væri slæmt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, ef þátttaka yrði svo lítil að enginn reynsla kæmi á þessa framkvæmd. Þegar við sem landsbyggðina byggjum segjum svo síðar að frekar en að landið verði eitt kjördæmi eða kjördæmin stækkuð enn frekar, viljum við persónukosningar, þá munu stjórnvöld nota dræma þátttöku nú til að blása það af. Mætum því á kjörstað.

Reyndar er ég örlítið smeik við persónukjör, almennt, nema reglur séu strangar um auglýsingar. Persónukjör getur nefnilega boðið upp á þær aðstæður að sá sem hefur mest fé, handa á milli, komi sér best á framfæri. Það væri mjög óréttlát gagnvart öðrum. Með ákvæðum um hámarks upphæð í auglýsingar væri hins vegar hægt að reyna að setja fyrir þann leka. Í dag er hægt að auglýsa sig án mikils tilkostnaðar. Það tekur frekar tíma en fé. 

Margir frambjóðendur tala um að landið eigi að vera eitt kjördæmi. Eins og það er sett upp hjá flestum hugnast mér sú hugmynd ekki. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvernig landsbyggðin kæmi út úr því. Við fengjum engan mann kjörinn, það er ekki flókið. 

Landsmenn góðir. Notum þennan dýrmæta rétt sem við höfum. Mætum á kjörstað, þótt fólk skili auðu er það betra en að sitja heima. Þetta er verðmætasti réttur hverrar sjálfstæðar þjóðar. Hann á að nota. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband