Leita í fréttum mbl.is

Breyting á stjórnarskránni núna

Hvort þetta er endilega rétti tíminn til að breyta stjórnarskránni skal ég ekki um segja og því síður að ég hafi einhverja töfraformúlu á því hvenær æskilegt er að endurskoðun fari fram. Margir telja að besti tíminn sé einmitt núna vegna hrunsins og þess ástands sem hefur ríkt í þjóðfélaginu. Að mínu viti þarf það ekki að vera svo. Ástandið gæti meira að segja truflað sýn fólks þannig að skammtímahagsmunir verði yfirgnæfandi og það væri mjög slæmt ef slíkt ætti sér stað.

Hins vegar er búið að eyða töluverðu fjármagni í allan þennan undirbúning. Það væri afar heimskulegt að láta þá peninga fara í súginn með því að hætta við núna. Sú hagsýni sem mér var innrætt í foreldrahúsum segir mér að betra sé að halda áfram en hætta við, þó ekki væri nema vegna peningana.

Breytingar eiga ekki að verða breytinganna vegna. Það verður að vera ástæða fyrir þeim og þær að leiða til einhvers betra. Sumu vil ég ekki breyta, annað er vert að endurskoða, eins og sjá má í öðrum pistlum. Stjórnarskráin á að vera gangorð og á auðskildu máli. Ekki plagg upp á fimm þúsund blaðsíður, sem enginn skilur nema lögfróðir aðilar. Hún þarf að vera hryggjarstykki löggjafarinnar, handhæg öllum og eins tímalaus og auðið er.

 


Framsala á valdi

Margir hafa áhyggjur af undirbúningsvinnu stjórnvalda vegna inngöngu í ESB eða Evrópusambandið. Það er alveg skiljanlegt, sérstaklega er að sjá að slík innganga myndi ekki gera landsbyggðinni og landbúnaðarframleiðslu neinn greiða. Verst er að þótt allir telji sig vera víðsýna og gera það sem best er fyrir komandi kynslóðir, eða við trúum því að svo sé, þá er erfitt að vera spámaður. Auðveldast er að vera vitur eftir á.

Árið 1262 undirrituðu Íslendingar samning við Noregskonung um framsölu á valdi til hans.  Sú undirritun átti sér nokkra forsögu. Reikna má með að landinn hafi verið orðinn langþreyttur á eilífum erjum, eignarupptöku, stríðum og manndrápum. Yfirgangi valdastéttar og fégráðugra manna sem sölsuðu til sín eignir og völd. Öldin á undan, Sturlungaöldin, bauð sannarlega upp á allt þetta. Einnig var þjóðfélagið í raun að liðast í sundur þar sem enginn einn valdhafi hélt þjóðinni saman. Kannski var því von að menn gripu til þessa ráðs. 

Margt er sammerkt þessu í nútímanum. Við höfum búið við langvarandi styrjaldir þótt á annan veg sé. Engir hausar hafa flogið í eiginlegri merkingu, en menn hafa verið að sölsa til sín eignir og völd. Segja má að skiljanlegt sé að einhverjir horfi annað í von um betri tíð með blóm í haga. 

En rétt eins og forðum er hægt að spyrja. Hversu vel mun það reynast að framselja valdið til annarra? Hversu vel mun það koma okkur, eyþjóð langt norður í höfum, að treysta öðrum fyrir okkar málum. Einhverjum sem ekki hefur búið og lifað hér og reynt það á eigin skinni? Ég held að best fari á því að við sjáum um okkur sjálf. Til að tryggja að svo verði er nauðsynlegt að setja varnagla í næstu stjórnarskrá þess eðlis að framsala valds sé óheimil nema það sé borið undir þjóðaratkvæði og jafnvel að aukin meirihluti þjóðarinnar þurfi að samþykkja. Á þann hátt væri sem best tryggt að engar fljótfærnislegar ákvarðanir yrðu teknar. 

Við höfum reynsluna, söguna til að læra af. Gerum ekki sömu mistökin og áttu sér stað 1262 og voru staðfest með einveldisyfirlýsingunni í Kópavogi 1662. Sagan er til að læra af henni. 


Stöndum vörð um þjóðkirkjuna og höfum jafnframt trúfrelsi

Ég er kristin og vil því hafa þjóðkirkju og standa vörð um hana. Staðreynd máls er sú, sem líta ber á, að við höfum verið kristin í þúsund ár og búið við kristin gildi. Allt okkar samfélag byggir á því, uppbygging, siðir og venjur. Mér er til efs að við gætum breytt þeirri byggingu þótt einhver vildi. 

Hins vegar finnst mér jafn sjálfsagt að fólk fái að vera í hverju því trúfélagi sem það kýs eða engu ef svo ber undir. Það er hluti af mannréttindum hvers einstaklings. Ég vil því að félagsgjöldin eða sóknargjöldin, eins og þau heita, renni til hvers trúfélags, eins og það er í dag, en einnig að félagsgjöld þeirra sem eru utan trúfélaga, renni til Háskóla Íslands, eins og gert var ráð fyrir í stjórnarskránni en er ekki lengur. 

Það er nokkuð sláandi að hlusta á rök þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju en hafa ekki kynnt sér málin. Þjóðkirkja og ríkiskirkja er alls ekki það sama. Ríkiskirkja er stofnun sem alfarið lítur vilja ríkisins á hverjum tíma og þarf e.t.v. að dansa eftir höfði misviturra stjórnmálamanna. Við höfum mörg dæmi um slíkt úti í hinum stóra heimi. Þjóðkirkja er sú trúarstofnun sem meirihluti þjóðar tilheyrir og hefur valið að tilheyra. Þannig er það á Íslandi og það er styrkur þjóðkirkjunnar.


Ákvæði um náttúruna, flóru og fánu

Að mínu mati þarf að setja í stjórnarskrá ákvæði um náttúruna, flóru og fánu. Umgengni og umgengnisrétt við hana og hvernig við ætlum að skila henni til komandi kynslóða. Það er ekki réttlætanlegt að við vöðum yfir móður jörð á skítugum skónum.

Hér eins og annarsstaðar þurfum við að hugsa áður en við framkvæmum. Þá er ég ekki einungis að hugsa um einhverjar stórframkvæmdir heldur alveg eins umgengni okkar, almennings. Við þurfum að huga á hálendinu, votlendinu, dýralífi og hvernig við göngum um. Við þurfum að huga að því að fólk fái að skoða landið sitt á skynsamlegan hátt. Það er sjálfsagt, að mínu mati, að almenningur fái að fara sem víðast, skoða sem mest, en það þarf að hafa skynsemina við stýrið, þar sem annarsstaðar.

Flestir ganga vel um, virða allar reglur og skemma ekkert. Njóta bara og upplifa. Þeir, hinir sömu, eru auðfúsugestir. Það er hins vegar alltaf þetta litla hlutfall, hinir svörtu sauðir, sem eyðileggja fyrir meirihlutanum. Það er ekki síst þeirra vegna sem þarf að setja reglurnar. 

 


Í upphafi skyldi endinn skoða

það er gaman að því hversu margir andans menn og konur eru meðal frambjóenda til Stjórnlagaþings. Greinum af ýmsum toga er skutlað fram á völlinn, sem ekkert sé. Nokkuð er ljóst að mörgum liggur mikið á hjarta og þurfa að deila því með okkur hinum. Það er af hinu góða. Ég hef jafnframt verið nokkuð hugsi yfir ýmsu því sem ég hef lesið. Þar hef ég dottið um ýmis sjónarmið sem hafa víkkað sjóndeildarhring minn. Því fagna ég. Hins vegar verð ég að segja að það hefur líka orðið þess valdandi að mér finnst enn meira áríðandi en fyrr að breyta ekki breytinganna vegna. Að í upphafi skyldi maður endinn skoða. Þeir sem kjörnir verða til stjórnlagaþings verða að reyna að vera víðsýnir í skoðannamyndun sinni og ákvarðanatöku. Gleyma sér ekki alveg í núinu og gera sér grein fyrir því, sem kostur er, hvaða afleiðingar einstakar breytingar kunna að hafa í bráð og lengd. Annars er verr af stað farið en heima setið.

Hlunnindi, auðlindir, eignarréttur

Í tengslum við komandi Stjórnlagaþing hefur orðið auðlindir oft borið á góma. Áður en lengra er haldið í þeirri umræðu er nauðsynlegt að skilgreina orðið auðlind og hvað fellur undir þá skilgreiningu. Jafnframt að velta því fyrir sér hvað séu hlunnindi. Er heita laugin í túnfæti bóndans hlunnindi eða auðlind? Er laxveiðiáin hlunnindi eða auðlind?

Gjarnan hefur Íslendingum þótt lítið merkilegt að eiga nóg af hreinu, köldu vatni og margir umgengist það sem óþrjótandi auðlind. En er það svo? Þegar hitastig heimsins rís og mengunarvöldum fjölgar gæti  sú staða komið upp og er víða komin, að dýrmætasta auðlindin sé ómengað vatn. Vatn sem rennur um eignarlönd, hver á það? Af þessum fátæklegu dæmum sést að nauðsynlegt er að skilgreina þessi hugtök. 

Nauðsynlegt er að eignarrétturinn sé friðhelgur. Hann er undirstaða velferðar og þess samfélags sem við nú lifum í og mun að líkindum verða áfram.  Því er einnig nauðsyn að skilgreina hugtakið þjóðareign og hver getur verið handhafi hennar. Að því loknu er hægt að ákvarða hvaða auðlindir falla undir þjóðareign og hverjar ekki. 


Það vel skal vanda er lengi á að standa

Stjórnarskrá hvers ríkis er hryggjarstykki löggjafarinnar og þarf því að vera auðskilin og gagnorð en um leið leiðbeinandi fyrir alla, almenning jafnt sem löggjafa. Réttindi lands og lýðs þurfa að vera tryggð á óyggjandi hátt.

Er endurskoða skal stjórnarskrá er brýnt að til þess verkefnis séu kallaðir fulltrúar úr öllum landshlutum, starfsstéttum og þjóðfélagshópum, sé þess nokkur kostur. Stundarhagsmunir og aðstæður mega ekki stýra gjörðum manna í þeirri vinnu.

Stjórnarskrá þarf að tryggja öllum mönnum félagslegt öryggi, frelsi til orða og athafna og jafnrétti á öllum sviðum. Það er margt í núverandi stjórnarskrá sem staðist hefur tímans tönn en einnig ýmislegt sem þörf er á að endurskoða. Nauðsynlegt er að vera þess meðvitaður að missa sig ekki í að breyta, breytinganna vegna.


Settu súrefnisgrímuna fyrst á þig

Þetta er okkur alltaf sagt þegar farið er yfir öryggisatriði í flugvélum og á víða við. Því er nauðsynlegt að huga að sjálfum sér þegar þrengir að til þess að vera umkominn að hjálpa öðrum. Foreldar sem eru í erfiðleikum vegna ástandsins þurfa að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig til að geta hlúð að börnum sínum á eftir. Sá sem vinnur í heilbrigðisþjónustunni verður að gera hið sama. Viðkomandi verður væntanlega til lítils gagns ef hann gengur um án súrefnisgrímunnar í súrefnislausu umhverfi. Þó að mörgum finnsti gamli talshátturinn "hver er sjálfum sér næstur" vera merki um hroka og sjálfumgleði þá er það samt staðreynd að ef ekki er hlúð að eigin sálarkyrnu gerir maður fátt fyrir aðra. Látum súrefnisgrímuna fyrst á okkur þá verður eftirleikurinn auðveldari.

Ofurkonan á útopnu

Þótt krónan sé á floti og allt á floti alls staðar þarf hin íslenska ofurkona enn að standa sig. Ég er ein af þeim. Allt þarf að vera í lagi. Heimilið spikk og span, frúin flott dressuð, vel máluð, í mörgum vinnum og stærri félagsmálapakka. Auðvitað getur þetta verið ögn erfitt og oft snýst ofurkonan í hringi og veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Á dögunum var ofurkonan að fara á fund í veiðifélaginu. Hún var einnig að gera slátur, hakka kjöt og úrbeina skrokka. Tíminn flaug hratt. Shitt nú varð hún að rjúka til að gera sig klára fyrir fundinn. Enginn tími til að fara í sturtu, bara hrúga slatta af froðu í hárið, þvo af sér mesta slorið og fara í önnur föt. Meðan ofurkonan er að reyna að setja á sig einhverja augnmálningu kallar náttúran svo hún verður að setjast á postulínið. Rétt síðar, meðan athöfnin er enn í fullum gangi heyrir hún gengið upp tröppurnar. Gefur sér að það sé einhver heimamaðurinn svo hún kallar. "Komdu bara inn, ég sit á kamrinum."

Eitthvert uml heyrist við dyrnar sem opnast. Salernið er inn af forstofunni. Ofurkonan rífur upp buxnagarmana í snatri og vindur sér fram með annað augað málað, hitt fölleitt og baugarnir enn sýnilegir þeim megin. Rétt skolar af puttunum, það má aldrei gleyma hreinlætinu. Olnbogarnir út úr gömlu lopapeysunni, buxurnar nærri uppi og slummur af mör fastar í snjáðu joggingbuxunum. Hana rekur í rokastans þegar fram í forstofuna kemur.

"Ég ætlaði bara að sækja um stöðu organistans hér í sókninni," stamar aumingja maðurinn sem stendur frami í forstofunni og fitlar við stórt brún umslag í vandræðagangi sínum, "en kannski ég komi bara síðar, eða sleppi því að sækja um." það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera ofurkona.


Sérstaðan skiptir máli

Talandi um sérstöðu þá virðist okkar sérstaða vera sú í dag að enginn vill vera memm. Minnir nokkuð á línu úr laginu "Traustur vinur" Þegar af könnunni ölið er, fljótt þá vinurinn fer. Fyrir afar skömmu nutum við trausts alls staðar, að því er virtist, nú eigum við enga peninga og .......

Í þjóðarsál Íslendinga og kannski fleirum leynist sú þörf að finna blóraböggla fyrir gerðum. Í öllu því sem gengið hefur á í þjóðfélaginu leitar fólk að blórabögglum. Það eru seðlabankastjórar, ríkisstjórn og margir fleiri. Ég hef nokkuð hugsað um þetta, eins og líklega flestir landsmenn. Hvern á að hengja og er nauðsynlegt að hengja einhvern? Allir vita að langan tíma tekur að setja sig inn í mál. Værum við eitthvað bættari með að reka einhvern núna? Myndi ekki allt fara á byrjendareit og við í enn verri málum? Ég bara velti þessu svona fyrir mér.

Talandi um blóraböggla. Enginn vill auðvitað lenda í því hlutverki og hver sem betur getur reynir að hvítþvo sig af einhverju sem hann hefur gert. Fyrir skömmu var ég stödd á Tórínó á Ítalíu á Slow Food sýningu. Eitt kvöldið kveikti ég á BBC inni á herbergi og viti menn, var þar ekki verið að sýna frá mótmælafundi á Austurvelli á Íslandi. Þar var meðal ræðumanna Jón Baldvin. En ég man ekki betur en fyrir nokkrum árum hafi þessi hinn ágæti maður komið heim til landsins, veifandi EES samningi og sagt: Hér fengum við mikið fyrir ekkert. Þessi samningur var kannski það sem fyrst og fremst opnaði allar gáttir, fyrir þá sem vildu leika sér.

Á umræddri Slow Food ráðstefnu sá ég enn og aftur hvað Íslendingar eru gífurlega ríkir. Það að eiga nóg af bragðgóðu, hreinu vatni er ríkidæmi. Að eiga hrein búfárkyn, sem varla finnast annars staðar og geta framleitt vörur úr þeim er auðlegð. Enn og aftur sá ég sem sagt að við þurfum að hætta að skammast okkar fyrir það sem við eigum í landbúnaðargeiranum. Hér liggjum við á auðæfum, eins og ormar á gulli. Engin þörf er á að reyna að vera í fjöldaframleiðslu, enda getum við það ekki. Okkar vörur eiga að vera eins og gott konfekt og eru það því þær fást ekki á öðrum byggðum bólum. Sérstaðan er gífurlega mikils virði og við ættum í þessum umhverfi sem við lifum í núna að horfa inn á við. Sjá hvað við eigum mikið af auðlindum í framleiðslunni okkar. Auðlindir sem hvergi er hægt að fá annars staðar í heiminum. Íslenskt já takk!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband