Sunnudagur, 29. janúar 2012
Svo mildum við þorra-með blóti
Árlegt þorrablót Tungnamanna var haldið í Þinghamri, félagsheimili heimamanna, í kvöld. Þátttaka var góð að venju. Passlega þröngt var í salnum eins og vant er, menn voru með plastpoka, kassa, kælibox og önnur ílát, undir guðaveigarnar. Hákarl, brennivín og kristall í boði í forrétt. Allt samkvæmt ritúalinu.
Til tíðinda bar helst að þorrablótsnefndin hóf fyrst af öllum innreiðina að girnilegu hlaðborðinu. Nokkuð sem fyrr hefur ekki tíðkaðst í Tungunum. Minnti helst á afmæli þar sem afmælisbarnið byrjar. Er biðröð lauk, strunsuðu menn í sæti sín með hraukaða diska af súrmat, svipakjömmum, rófustöppu og öðru góðmeti. Fyrsta vers í að blíðka hinn grimmlynda þorra.
Annállinn var góður. Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns fór á kostum og það sem hann mælti heyrðist alveg inn í horn. Veislustjórinn hefur án efa verið góður einnig, minna heyrðist í honum. Á milli spaugsyrða var sungið undir dyggum undirleik Þorvaldar í Brekkukoti. Þar var ekki í kot vísað. Söngvatn er nauðsynlegt með slíkum æfingum og var það óspart teygað. Enda fátt betra í vegferðinni að blíðkun þorra.
Að horfa á fólk á dansgólfi er skemmtan, út af fyrir sig. Hinn kloflangi dansherra sem dregur á eftir sér klofstutta dömu sína, er óborganlegur. Hann glennir sig í risaskrefi á meðan hún hleypur sjö, til að hafa við. Svo er það hinn geysi-glaði. Sveiflar öllum skönkum, tekur ekkert eftir því að hann hittir fyrir mann og annan. Ef einhver væri með hárkollu á gólfinu er næsta víst að hún hrykki af er hún mætti skanka á förnum vegi. Sá umfangsmikli er einnig fyrirferðarmikill á gólfinu. Hann þarf og vill sitt rými. Er nokkuð saman þótt ein og ein tá líði fyrir. Allt gjört til að milda hinn skapmikla þorra.
Enda bregður svo við. Eftir æfingar strangar við át, drykkju og dill, er komin blíða. Hægt er að tendra ljós á kveikjara utan dyra. Vill einhver halda því fram að þorrablót geri ekki gagn? Hvort sem þorri man tilraunir Tungnamanna til að hylla hann þá er víst að árlega streyma menn úr uppsveitum Borgarfjarðar til að skemmta sér og öðrum á hátið kenndri við þorra. Góður siður. Takk fyrir kvöldið.
Laugardagur, 28. janúar 2012
Venjulegar fjölskyldur
Einn af ráðamönnum þjóðarinnar mun hafa haft á orði að engar "venjulegar" fjölskyldur hefðu komið illa út úr hruninu. Þessi ummæli eru athyglisverð og kalla auðvitað á skilgreiningu á orðinu venjulegur. Hvernig er venjuleg fjölskylda samsett? Er það vístitölufjölskylda, tveir fullorðnir og tvö börn, eitt barn og einn fullorðinn, hundur eða köttur og fullorðinn, eða skiptir stærðin og/eða samsetning engu máli?
Samkvæmt orðabók þýðir orðið venjulegur, vanalegur, almennur, hversdagslegur. Orðið almennur er það sem hnotið er um. Þessi orð mætti þá túlka svo að engar almennar fjölskyldur hefðu orðið illa fyrir barðinu á títtnefndu hruni.
Mörgum finnst eftirstóttarvert að vera venjulegur og heyrist oft að viðkomandi sé bara venjulegur. Sú persóna er greinilega heppnari en hinir, hrunið hefur ekkert hitt hana fyrir.
Öðrum finnst mest spennandi að vera óvenjulegur. Þeir einstaklingar eiga alla samúð. Þeir bera uppi afleiðingar hrunsins, samkvæmt ofansögðu.
Í ljósi alls sem sagt hefur verið eftir HRUN læðist að sá grunur að fáar venjulegar fjölskyldur búi á Íslandi. Að sönnu var vitað að þjóðin væri fremur óvenjuleg en að það væri svona almennt, kemur á óvart.
Laugardagur, 28. janúar 2012
Af hverju?
Eitt sinn sagði frómur maður, héraðshöfðingi, að honum findist flokkspólitík þvælast fyrir framfaramálum í héraði. Þar gerði hún einungis ógagn. Yrði til þess að menn ynnu ekki saman að vexti og viðgangi síns heimaranns.
Í núinu þarf að stuðla að vexti og viðgangi Íslands. Vert er að velta fyrir sér hvort flokkspólitík sé að þvælast fyrir þeim uppgangi sem nauðsynlegur er. Myndu þeir 63 fulltrúar sem kjósendur völdu á Alþingi vinna betur og öðruvísi saman ef eingin flokkspólitík væri í spilinu? Væri ekki hægt að leggja henni alla vega á meðan rétt er úr kútnum?
Ef hlustað er á umræður í þinginu virðist oft að fólk sé sammála en flokkspólitíkin þvælist fyrir. Ekki er hægt að styðja gott mál af því að frummælandi er úr öðrum flokki. Ef staðan er heimfærð á fyrirtæki er þetta næstum eins og að segja að fjármálastjórinn og bókarinn geti ekki verið sammála því annar er í rauðri skyrtu en hinn blárri.
Í raunveruleikanum tala menn sig niður á lausnir. Ef virkilegur áhugi er fyrir því að vinna vel, horfa vítt yfir sviðið, taka inn alla möguleika sem mannlegur hugur getur látið sér detta í hug, þá finnst lausn. Litur skyrtunnar skiptir þá engu máli.
Laugardagur, 28. janúar 2012
Úr vöndu að ráða
Umræða hefur verið um mannkosti þeirra einstaklinga er sitja á Alþingi. Þá vaknar spurningin um hver valdi fólkið sem þar situr? Jú, það voru kjósendur. Þeir höfðu val. Eru þeir þá sekir um að hafa valið gjörónýtt fólk? Eru þá kjósendur ekki í stakk búnir til að velja? þetta er ekki alveg svona einfalt. Til að hafa val verður að vera eitthvert úrval til að velja úr.
Skorað er á einstakling að stíga á stokk, bjóða sig fram til ábyrgðarstöðu. Eða þá að hann ákveður sjálfur að hann vilji gefa sig til starfans. Oft fer fram forval áður en endalegur listi er ákveðinn. Aftur koma kjósendur við sögu. Eru þeir þá sekir um að hafa valið vitlaust? Enn er svarið ekki einfalt. Til að vekja á sér athygli þarf oft mikið að peningum. Sá næst besti, eða þriðji besti hefur kannski betra aðgengi að fjármagni en sá besti. Í upplýsinga- og auglýsingasamfélaginu skiptir það lykilmáli. Stundum vita kjósendur ekki af þeim besta því hann er ekki eins loðinn um lófana og sá er aftar er. Ekki gott.
Í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur verið, þá mega kjósendur ekki gera sig seka um að nota sitt gullfiskaminni þegar kemur að næstu kosningum. Ef almenningur er óánægður, verður hann að muna það, þegar kosið verður næst. Ekki hugsa, "ÉG kýs bara það sem ég er vön/vanur, það er ekkert skárra í boði."
Það er hins vegar grátlegt að erfitt virðist að kjósa fólk eftir mannkostum. Það er kosið eftir flokkslínum. Það er líka grátlegt að þrátt fyrir að allir segist vilja landinu vel, þá stendur flokkspólitík í veginum fyrir því að fólk vinni saman. Það er auðvitað ekkert vit.
Fimmtudagur, 26. janúar 2012
Að hrífa mann og annan
Þegar búið er að skrifa tvo pistla um það sem er dapurt og miður hefur farið er nauðsynlegt að breyta til að hressa sig. Pára ögn um það sem gleður sálarkyrnuna.
Tónlst hrífur marga, það er gömul saga og ný. Fólk fer á tónleika til að upplifa. Gleðjast, hrærast, tárast og allt þar á milli. Njóta. Að hlusta á seiðandi tóna frá Selló getur gefið angurværa stemningu. Fjörugur gítarleikur getur lyft upp andanum á gleðisvið. Sumir setja á fjöruga rokktónlist þegar húsið er þrifið til að fá orku og kraftinn sem til þarf. Það er gott að hrífast. Tónlist getur einnig kallað fram hina myrkari kima. Sú tilfinning er miður góð en þó er sótt í það.
Orð geta einnig hrifið. Að hlusta á andans fólk, er oft uppbyggandi. Farið er ríkari af slíkum fundi. Áheyrandi gengur út í sitt líf fullur af eldmóði, trúir á mannkynið og sjálfan sig. Það er uppbygging í gangi. Í dag er hennar þörf. Góður prédikari hefur gífurleg áhrif á þann sem hlustar, takist vel til. Að skunda í kirkju og hlusta á góða prédikun getur gefið innblástur, upphafið andann til mikil gagns.
Hjá allflestum fara samskipti dagsin fram með orðum. Í verslun, í símann, við eldhúborðið, hvar sem er. Öll höfum við áhrif á okkar samferðamenn. Góð, miðlungs eða slæm, misjafnt hverju sinni. Virðing er lykilatriði í þeim samskiptum. Allir eru virði, skipta máli. Einar Benediktsson skáld segir svo í Einræðum Starkaðar: "Eitt bros - getur dimmu í dagsljós breytt,sem dorpi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast, við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka."
Allir vilja láta koma fram við sig af virðingu. Ef grannt er skoðað kannast flestir við að laðast meira að þeirri persónu sem er notaleg, sýnir virðingu fyrir einstaklingnum og skoðunum hans. Margir gleyma hins vegar að koma þannig fram sjálfir. Njótum lífsins og höfum gagnkvæma aðgát í nærveru sálar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. janúar 2012
Stórhríð og óvissustig
Fyrirsögnin í Morgunblaðinu kallaði fram hugmynd um sannleika hennar í víðasta skilningi. Í sumum landshlutum er stórhríð og óvissustig vegna veðurs en í öllum landshlutum geisar stórhríð og óvissustigið er sannarlega til staðar. Heilu sveitunum er haldið í gíslingu vegna stórhríðar og óvissustigs, af manna völdum.
Skortur á mennsku er umhugsunarefni í allri merkingu orðsins. Skortur á skilningi og tilliti. Óvissustig ríkir. Forgangsröðun er athygliverð. Að græða aur virðist meira virði en mennskan. Margir eru á þeirri braut, að elta Mammon. Kannski ekki eins einmanna og ráðamenn þjóðarinnar voru sýndir á vegferð sinni í áramótaskaupinu. En þeir sem þvælast fyrir eru jafnvel keyrðir niður, rétt eins og þar.
Við og þeir ræður víða ríkjum. Höfuðborgarbúinn skilur ekki aðsöðu eða aðstöðuleysi landsbyggðarmannsins og öfugt. Ríkisvaldið skilur ekki barning íbúanna. Atvinnurekendur skilja ekki launþega. Vinstrimenn skilja ekki hægrimenn. Við og þeir.
Það ríkir sannarlega óvissustig og einnig stórhríð í hugum þeirra sem eru að reyna að hafa til hnífs og skeiðar. Óvissan um afkomu, um eignir, æru og stolt. Menn þreyja þorrann, með þeim leiðindum sem honum fylgja oft. Hann tekur enda. Menn eygðu og eygja von í vorinu. Mun það einnig gerast hjá þorra landsmanna? Mörgum finnst að þeir hafi þreytt þorrann nógu lengi, að mál sé að linni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 25. janúar 2012
Ótti sem stjórntæki
Fæstir eru/voru svo efnaðir að þeir getir byggt eða keypt húsnæði án þess að fá til þess fjárhagsaðstoð. Því voru bankar settir á fót. Bankar voru milligönguaðilar. Þeir sem áttu peninga, lögðu þá inn í sameiginlegan sjóð. Þeir sem þurftu peninga til framkvæmda eða annars gátu fengið þá að láni. Sá sem átti peninginn fékk umbun fyrir að leyfa öðrum að nota hann. Sá sem fékk að láni greiddi fyrir. Þetta voru kallaðir vextir. Báðir aðilar þokkalega sáttir
En mikið vill meira. Þeir vextir sem peningaeigandinn fékk urðu fljótlega mun minni en lánþeginn þurfti að reiða fram fyrir afnotin. Þá fóru hlutirnir að riðlas og hið mannlega eðli kom í ljós, margur verður af aurum api. Milligönguaðilinn tók meira og meira í sinn hlut. Það kostaði meira að fá peninga að láni heldur en að lána þá. Græðgin fór að stýra för, eða hvað?
Frá upphafi gerðu menn samning um afnotin af fjámagninu. Báðir aðilar rituðu nöfn sín á blað því til staðfestingar að um samning væri að ræða, lánþegi og bankinn f.h. peningaeigandans. Ef annar braut gegn samningnum var hann, eðli málsins samkvæmt, ekki lengur í gildi. Enda felur orðið "samningur" það í sér að einhverjir sameinast um eitthvað, sameiginlega gjörð.
Viti menn. Svo gerist eitthvað. Allt í einu lítur út fyrir að samningur við fjámálastofnun sé orðinn einhliða. Þótt báðir hafi ritað nöfn sín til samþykkis, þá virðist ekki vera jafnræði. Annar getur sagt við hinn: "Ef þú gerir ekki...... þá mun ég.........." Hér er eitthvað skakkt. Eins og áður er getið þá heitir gjörningur ekki samningur nema tveir eða fleiri séu aðilar að málinu. Lánþeginn getur því allt eins sagt við fjármagnseigandann. Nú vil ég rifta samnngnum við þig. Þetta er ekki það sem við sömdum um. Ég borga það sem ég fékk að láni en ég get ekki séð að þú getir neytt mig til að borga meira en það. Ef samingur er í alvöru samningur þá ættu þessar reglur að gilda, í báðar áttir.
Það er hins vegar búið að snúa á almenning. Í núinu er óttinn við að missa, eða eitthvað annað óskilgreint, orðinn að stjórntæki, gerður að þeirri grýlu sem þarf til að stýra. Fjármálastofnanir ala á ótta sem lamar og rífur niður, gerir mótstöðuaflið minna. Því er hægt að ráðskast með fólk. Þetta er gömul saga og ný. Við lestur á mannkynssögunni sést þetta víða. Ráðamenn hafa löngum nýtt þetta vopn. Í upplýstum samfélögum 21. aldar á þetta ekki að vera hægt en við látum það samt viðgangast.
Hvað gerist ef almenningur veitir mótspyrnu? Hvað gerist óttinn er skoraður á hólm? Er ekki einmitt verið að skora hann á hólm í Arabaheiminum? Almenningur þar neitar að láta hann stýra sínu lífi og samfélaginu lengur. Spyrja má í okkar dæmi hvort við séum á sama stað eða kannski ekki komin á sama stað. Óttinn ræður og við þurfum að bjóða honum birginn.
Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða. Þeir þenja sig frekar við eldhúsborðið en á Austurvelli. Þó má brýna svo að bíti, stendur einhversstaðar. Horfum yfir sviðið. Það eru til fullt af peningum á Íslandi. Þeir eru hins vegar í vasa fárra. Millistéttin er að hverfa því bilið vex og vex á milli þeirra sem lítið hafa og hinna. Íslendingar geta breytt, máttur fólkisins er mikill.
Forfeðurnir fóru frá Noregi fyrir rúmum þúsund árum annað hvort vegna þess að þeir höfðu ekki áhuga á láta kúga sig eða af því að þeir réðu ekki við vandann. Nú eru Íslendingar umvörpum að fara til baka, til Noregs. Stýrir þvi viljaleysi, getuleysi, ótti eða uppgjöf? Líklega allt þetta. Óttinn sem stjórntæki hefur einkum verið nýttur á fáfróðan almenning, bæði fyrr og nú, í svokölluðum vanþróaðri ríkjum. Greinilega er slíkt einnig framkvæmanlegt í dag. Ef fólk almennt lætur þetta ekki yfir sig ganga, virkar ótti ekki sem stjórntæki. Við höfum val.
Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Þetta með traustið
Mikið hefur verið rætt um að fólk treysti ekki lengur. Treysti ekki Alþingi, ekki stjórnmálamönnum, ekki stjórnendum almennt. Kannski eru það réttmætar vangaveltur. Lítum ögn til baka. Á Íslandi varð hrun. Við áttum útblásna banka sem duttu með andlitið á kaf í drullupoll. Ríkið tók þá yfir, seldi suma aftur, í orði kveðnu. Hverjir eiga hvað, er ekki alveg vitað.
Ef rétt hefði verið haldið á málum hefðu allir sem einhverja ábyrgð báru í peningastofnun, átt fá pokann sinn. Þá hefðum við e.t.v. haft raust á bönkunum. Fengið á tilfinninguna að yfirmönnum samfélagsins væri í mun að endurreisa tiltrú á bankakerfið. Svo einfalt er það. Á meðan var lag var ekkert gert til að hreinsa til. Það voru þeir sem valdið hafa, stjórnmálamenn, sem pissuðu í skóinn sinn. Þeir brugðust okkur. Þar af leiðandi er þeim ekki heldur treystandi og þeir virðast ekki skilja að við eigum í býsna miklu basli.
Fullt af fólki hefur ekkert gert annað af sér en að borga, borga og borga með það að mottói að standa í skilum. Því hefur verið stillt upp fyrir framan aftökusveitina. Allur meirihluti fólks vil standa sína plikt, vill greiða til baka það sem það fékk lánað. Það vill líka semja þegar útlit er fyrir vandræði og minni greiðslugetu. En slíkt virðist ekki vera í boði á sumum bæjum. Valið virðist vera, borga eða tapa, jafnvel því sem alla ævi hefur verið stritað fyrir að eignast. Er það réttlæti?
Laugardagur, 15. október 2011
Gullmolar úr hversdeginum
Kveikjan að þessum skrifum eru orð vinar míns sem lenti í smá uppákomu. Hann keypti síu í bílinn sinn sem til kom var vitlaust afgreidd þannig að hann gat ekki klárað það sem hann ætlaði að gera, þ.e. að skipta um síu. Eins og hann sagði sjálfur hefði verið auðvelt að fara í fýlu, býsnast yfir vitlausri afgreiðslu, vitlausum afgreiðslumanni og allt það, en það hefði ekki bætt honum síuleysið svo hann sleppti því. Mér finnst þetta frábær afstaða. Hún á svo víða við og í svona ergelsi er það einn sem líður mest, maður sjálfur. Enn eitt dæmið um hvað æðrluleysisbænin er sönn. Að breyta því sem ég fæ breytt, sætta mig við hitt og hafa vit til að greina á milli.
Ég á fimm barnabörn. Hvert þeirra um sig gerir mig afar stolta. Um daginn var ég að rabba við sex ára stubb í símann sem nýlega er byrjaður í skóla í fyrsta sinn. Vert er að taka fram að hann er mikill tölvukarl og finnst fátt eins skemmtilegt og fara í tölvu til að leika sér. Við vorum að ræða skólavistina og hvernig hún væri. "Amma það er ekki nógu skemmtilegt í þessum skóla. Tölvurnar eru alltaf bilaðar." Síðan verður smá þögn og þá kemur þessi guðdómlega viðbót. "Amma, ert þú ekki í kvenfélagi sem alltaf er að gefa gjafir? Segðu konunum í kvenfélaginu þínu að skólann vanti nýjar tölvur." Yndislegt.
Ég var stödd í smá samkvæmi. Þar var meðal annarra einn stubbalingur, kannski svona fjögurra ára. Hann fer að segja mér að afi sinn sé dáinn. Ég spurði hvort afinn hefði verið veikur. "Nei, sagði stubburinn, "hann var bara að labba út á götu, datt og dó." "Og hvernig var hann heppinn,?" spurði ég og fékk til baka þennan guðdómlega, ferlega ertu vitlaus svip, sem börn ein geta sett upp. "Nú það hefði einhver getað keyrt yfir hann og meitt hann og hann hefði þá kannski dáið. Hann var svo heppinn að enginn gerði það."
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. október 2011
Nú blæs Kári
Það gerist stundum að ég þarf að skunda til höfuðborgar lýðveldisins. Sem betur fer hef ég hraðskreiðari farkost en tvo jafnfljóta og get því sinnt nokkrum erindum í sömu ferð. Í dag var ein slík ferð og Kári var í essinu sínu. Í versluninni Fjarðarkaup var ekki mikið að gera þegar mig bar þar að fljótlega eftir hádegi, en þeim mun meira að skemmta sér yfir.
Þegar ég var búin að koma bílnum mínum vel fyrir á bílastæði var ég að hugsa að það sæist varla í hann fyrir laufi sem Kári hafði verið að leika sér að. Í sömu andrá horfi ég á bílana í kring til að athuga hvort svipað sé ástatt um þá. Tek þá eftir konu sem er að streða á móti vindinum. Hún hafði lagt töluvert í burtu frá verslunarhúsinu, sem í raun var nokkuð merkilegt. Hún var í kápu og með regnhlíf. Já regnhlíf á Íslandi í hífandi roki og rigningu. Fljótlega sá Kári gamli að þarna væri skemmtilegt fórnarlamb.
Allt byrjaði á því að í einni hviðunni sérist regnhlífið við, hún varð sem sagt öfug. Nokkuð sem Íslendingar hafa séð áður. Konan stoppaði til að reyna að lappa eitthvað upp á hlífina sína, kannski loka henni. Þá tók ekki betra við, því Kári var alls ekki hættur. Hann fer að lyfta upp kápunni. Fyrst lyftist annað hornið á framan, fer niður, svo hitt. Þá tekur hann eftir því að kápan er með klauf á aftan. Gaman, gaman, hugsar Kári, belgir sig allan og lyftir kápunni vel upp á aftan, nærri upp á haus. Konan er enn að baxa við regnhlífina sína og því ekki alveg viðbúin þessari árás. Hún sleppir takinu á regnhlífinni, með annarri hendi og reynir að koma kápunni niður. Það gengur í augnablik rétt á meðan Kári dregur andann, því næsta hviða er mun öflugri en sú fyrri. Kápan aftur upp, lengra en fyrr og úbbs, pilsið líka. Konan er komin í mesta basl. Með ósjálfráðum hreyfingum fálmar hún aftur fyrir sig til að koma flíkunum niður. Þá sleppir hún regnhlífinni sem Kári tekur fegins hendi.
Nú er konunni allri lokið. Blaut, úfin og hrakin rýkur hún í átt að skjólinu, verslunarhúsinu. Þar nær hún loks í var. Daman sem steig út úr bílnum sínum í skóm með háum hælum, hárið vandlega greitt, vendilega snyrt og í kjól og kápu, mætir nú vot, eins og reyttur hænurass í vindi, með blaut laufblöð klesst á andlitinu og með allt upp um sig, í búðina. Já það er greinilegt. Fyrsta haustlægðin er mætt og Kári gamli í essinu sínu.
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru