Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Hvað má borða og hvað ekki

Fyrir ríflega tuttugu árum greindist kunningi minn með of háa blóðfitu. Viðkomandi var enn á léttasta skeiði svo við vandanum átti að bregðast með breyttu mataræði. Það var gert. Öll nýmjólk tekin úr fæðunni, smjör, rjómi, innmatur, eggjarauður, hert fita, majones, rækjur urðu fátíðar.......... og fleira og fleira. Húsmóðirin á bænum sá bara um þetta og viti menn, allt fór til betri vegar. Blóðfitan lækkaði og allir voru sáttir.

 Fátt segir af þessu um skeið. Svo aulast húsmóðirin til að fara í nám á heilbrigðissviði, einhverjum árum síðar. Þar var meðal annars kennd næringarfræði. Á þeirri vegferð kemur í ljós að ákveðin bætiefni séu betri en önnur fyrir þá sem eru með of háa blóðfitu og ekki síst þá sem eru í áhættu að fita safnist inn á slagæðar og þær harðni af þeim orsökum. En þetta bætiefni er einmitt algengast í þeim matvælum sem ekki má borða, hafi einhver of háa blóðfitu. Þetta var nokkuð merkilegt. 

Árin líða áfram. Ríflega tíu árum eftir fyrsta úrskurð um of háa blóðfitu eru sumar af þeim fæðutegundum sem í upphafi bannaðar allt í einu orðnar leyfilegar og jafnvel nauðsynlegar til eðlilegs viðhalds og þroska. Og það sem meira er. Nú er talið að ekkert sé öruggt um samhengi milli þess að borða kólesterol og þess að hafa of mikið af því. Frábært.

Á tímabili og er kannski enn var fita það óhollasta sem nokkur maður gat látið ofan í sig.  Enginn átti/mátti borða fitu. Hvorki í fiski, kjöti eða mjólkurafurðum. Feitur fiskur átti undir högg að sækja og hið sama gilti um kjöt. Ekki var lengur flott í bændastétt að eiga þyngsta dilkinn. Það þýddi einfaldlega að viðkomandi skrokkur var fitubolla sem yrði verðfelldur. Kjúklinga- og svínakjöt varð vinsælla því það er ekki eins fituríkt. Það var bara gott mál, fjölbreytni mátti alveg aukast. En út úr öllu þessu fituleysistali kemur það að nú vantar fólk fitu. Líkaminn vinnur ekki sem skyldi, án hennar. Það þarf að taka inn Omega fitusýrur, hörfræsolíu, aðra olíu og enn aðra olíu...... og og og.

Fáir taka orðið lýsi sem innihélt hér áður fyrr, áður en það varð of hreinsað mikið, nauðsynleg fituvitamín. Og svo er D-vítamínskortur orðin staðreynd. Bæði af því að við tökum það ekki inn í fæðunni, eins og var, með feitum fiski og lýsi og einnig hinu að allri bera á sig orðið svo mikið af sólarvörn, af illri nauðsyn, svo að sólin nær e.t.v. ekki að hjálpa húðinni við að vinna þetta lífsnauðsynlega vítamín. 

Í öllu fitutalinu var hins vegar lítið talað um annað hvítt efni, sem er líklega óhollast af öllu, hvíti sykurinn. Á meðan allir kepptust við að losa fituna úr öllu sem hægt var, bættist jafnmikið eða meira af sykri við. Árangurinn lét ekki á sér standa. Íslendingar eru að verða feitasta þjóð í heimi. 

Það er líka merkilegt að fólk vill frekar kaupa gos sem kostar ja líklega um 150-200 krónur líterinn heldur en mjólk sem kostar töluvert minna. Af þessu tvennu er mjólkin líklega hollari fyrir flesta. Hún má hins vegar ekkert kosta. 

Í dag er eitt óhollt á morgun er það hið besta sem hægt er láta ofan í sig. Næring í duftformi er orðin algeng. En til hvers vorum við þá útbúin með tennur, munnvatn, magasýrur, gall og fleiri meltingarvökva? Upp á ensku er stundum sagt, if you don't use it, you lose it. Ef við erum bara í söfum, dufti og mauki, hvað verður þá um tennur, meltingarvökva og þarma?

Það er ekki nema von að fólk sé ráðvillt. Sífellt verið að breyta því sem má og ekki má. Öfgarnir eru einnig miklir. Það er hoppað á milli enda með lítilli viðkomu í miðjunni. Annað hvort er eitthvað al-slæmt og rétt síðar al-gott.Ætli þetta sé hollt eða óhollt í dag?

Fyrir flesta er meðalhófið best. Notum eigið hyggjuvit. Það dugar yfirleitt best. 


Höfundur

Birna Guðrún Konráðsdóttir
Birna Guðrún Konráðsdóttir

Sjúkranuddari að mennt. Hef starfað sem blaðamaður, bæði fast- og lausráðinn. Lauk BA-gráðu við Háskólann á Akureyri í vor, 2015, og mun stunda meistaranám við sama skóla næstu misserin 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

244 dagar til jóla

Eldri færslur

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 762

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband