Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 22. nóvember 2010
Ákvæði um náttúruna, flóru og fánu
Að mínu mati þarf að setja í stjórnarskrá ákvæði um náttúruna, flóru og fánu. Umgengni og umgengnisrétt við hana og hvernig við ætlum að skila henni til komandi kynslóða. Það er ekki réttlætanlegt að við vöðum yfir móður jörð á skítugum skónum.
Hér eins og annarsstaðar þurfum við að hugsa áður en við framkvæmum. Þá er ég ekki einungis að hugsa um einhverjar stórframkvæmdir heldur alveg eins umgengni okkar, almennings. Við þurfum að huga á hálendinu, votlendinu, dýralífi og hvernig við göngum um. Við þurfum að huga að því að fólk fái að skoða landið sitt á skynsamlegan hátt. Það er sjálfsagt, að mínu mati, að almenningur fái að fara sem víðast, skoða sem mest, en það þarf að hafa skynsemina við stýrið, þar sem annarsstaðar.
Flestir ganga vel um, virða allar reglur og skemma ekkert. Njóta bara og upplifa. Þeir, hinir sömu, eru auðfúsugestir. Það er hins vegar alltaf þetta litla hlutfall, hinir svörtu sauðir, sem eyðileggja fyrir meirihlutanum. Það er ekki síst þeirra vegna sem þarf að setja reglurnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. nóvember 2010
Í upphafi skyldi endinn skoða
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. nóvember 2008
Settu súrefnisgrímuna fyrst á þig
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Sérstaðan skiptir máli
Talandi um sérstöðu þá virðist okkar sérstaða vera sú í dag að enginn vill vera memm. Minnir nokkuð á línu úr laginu "Traustur vinur" Þegar af könnunni ölið er, fljótt þá vinurinn fer. Fyrir afar skömmu nutum við trausts alls staðar, að því er virtist, nú eigum við enga peninga og .......
Í þjóðarsál Íslendinga og kannski fleirum leynist sú þörf að finna blóraböggla fyrir gerðum. Í öllu því sem gengið hefur á í þjóðfélaginu leitar fólk að blórabögglum. Það eru seðlabankastjórar, ríkisstjórn og margir fleiri. Ég hef nokkuð hugsað um þetta, eins og líklega flestir landsmenn. Hvern á að hengja og er nauðsynlegt að hengja einhvern? Allir vita að langan tíma tekur að setja sig inn í mál. Værum við eitthvað bættari með að reka einhvern núna? Myndi ekki allt fara á byrjendareit og við í enn verri málum? Ég bara velti þessu svona fyrir mér.
Talandi um blóraböggla. Enginn vill auðvitað lenda í því hlutverki og hver sem betur getur reynir að hvítþvo sig af einhverju sem hann hefur gert. Fyrir skömmu var ég stödd á Tórínó á Ítalíu á Slow Food sýningu. Eitt kvöldið kveikti ég á BBC inni á herbergi og viti menn, var þar ekki verið að sýna frá mótmælafundi á Austurvelli á Íslandi. Þar var meðal ræðumanna Jón Baldvin. En ég man ekki betur en fyrir nokkrum árum hafi þessi hinn ágæti maður komið heim til landsins, veifandi EES samningi og sagt: Hér fengum við mikið fyrir ekkert. Þessi samningur var kannski það sem fyrst og fremst opnaði allar gáttir, fyrir þá sem vildu leika sér.
Á umræddri Slow Food ráðstefnu sá ég enn og aftur hvað Íslendingar eru gífurlega ríkir. Það að eiga nóg af bragðgóðu, hreinu vatni er ríkidæmi. Að eiga hrein búfárkyn, sem varla finnast annars staðar og geta framleitt vörur úr þeim er auðlegð. Enn og aftur sá ég sem sagt að við þurfum að hætta að skammast okkar fyrir það sem við eigum í landbúnaðargeiranum. Hér liggjum við á auðæfum, eins og ormar á gulli. Engin þörf er á að reyna að vera í fjöldaframleiðslu, enda getum við það ekki. Okkar vörur eiga að vera eins og gott konfekt og eru það því þær fást ekki á öðrum byggðum bólum. Sérstaðan er gífurlega mikils virði og við ættum í þessum umhverfi sem við lifum í núna að horfa inn á við. Sjá hvað við eigum mikið af auðlindum í framleiðslunni okkar. Auðlindir sem hvergi er hægt að fá annars staðar í heiminum. Íslenskt já takk!!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Kýrhausinn og margbreytileiki hans
Í kýrhausnum leynist margt skemmtilegt. Meðal annars hefur komið út úr honum að hin margtuggna tugga um að tvær þjóðir lifðu í þessu landi, er e.t.v. rétt. Önnur býr á höfuðborgarsvæðinu og hin í dreifbýlinu. Margur dreifbýlisbúinn trúði ekki sínum veðurbörðu eyrum þegar umræðan um sláturgerð og safna vetrarforða fór á flug. Allir sem vettlingi gátu valdið og hinir líka vildu gera slátur og safna kjöti í kistur sínar. Margir höfðu aldrei gert slíkt fyrr eða ekki í afar mörg ár. Vambir seldust sem aldrei fyrr og margur missti af því að kaupa góssið sem seinn var til. Rétt eins og á fjármálamörkuðunum. Á landsbyggðinni fannst ýmsum þessi umræða ögn skondin enda við oft sein að fatta. Flestar konur til sveita hafa gert slátur í ómunatíð. Tekið svið, hakkað kjöt, gert bjúgu, úrbeinað að besta hyggjuviti hvern lambsskrokkinn á fætur öðrum. Búið til rúllupylsur og komið jólahangiketinu í reyk. Haustverkin hafa meðal annars falist í þessu. Líklega gerði sveitamaðurinn sér litla grein fyrir því að í útrásinni væri þetta ekki til siðs, enda náði hún minna í dreifbýlið.
Sumarið var gjöfult og tíðin góð. Sumarhúsaeigendur urðu sólbrúnir. Bændur náðu góðum heyjum, lax gekk í árnar sem aldrei fyrr. Á stað var laxamergðin þvílík að hægt var að ganga bakka á milli á laxabökum. Túristarnir heldur færri en stundum en mun fleiri báðu um leyfi til að tína ber. Fleiri sáust í skógarlundum við sveppatínslu.
Helstu áhyggjuefni manna í sveitinni þetta haustið, sem flest önnur, er hvernig móðir náttúra muni meðhöndla land og lýð. Hvernig fé kemur af fjalli, hvort það heimtist, hver býður besta verðið fyrir dilkinn, verður mjólkurinnleggið á sama verði og verið hefur. Þess á milli tölum við um hvort eigi að kjósa nú eða síðar. Hvort menn hafi nú staðið sig eða ekki og hvernig þetta verði eiginlega með gengið. Ætla menn aldrei að koma því í lag, eða hvað? Minnisstæð er umræða eftir fall síðasta bankans í fjárhúsum á bæ einum. Þar var samankomin fjöldi manns, nýlega komin af fjalli, að leita að rollum. Ögn var reynt að stýra umræðunni að fjármálamarkaðinum sem er og var í upplausn. Það er að segja þeim markaði sem telur krónur og aura eða bréf sem eitt sinn voru einhvers virði. Því var snarlega snúið upp í annan fjármálamarkað, nýlega afstaðna Sauðamessu í héraðinu. Enda var þar lausafjárstaðan góð, fjárhirslur tryggar og engin rýrnun á fé. Mikið væri ljúft ef staðan væri víðar þannig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. nóvember 2008
Kæri þú
Kæri þú! Getur þú sagt mér hvað gerðist í þjóðfélaginu fyrir skömmu? Hér í sveitinni gerðum við ekki neitt sem verðskuldar það ástand sem nú ríkir. Við vorum ekki í útrás eða innrás. Við tökum náttúrunni eins og hún er. Stundum blíð og stundum stríð. Hér var bara einn að byggja höll og það var aðkomubankamaður.
Kæri þú! Getur þú sagt mér af hverju verðtryggða lánið mitt er orðið svona gífurlega hátt? Ég hef alla mína tíð borgað og borgað og borgað, af lánunum mínum. Aldrei lent í því að eignir mínar væru auglýstar á uppboði eða verið í óyfirstíganlegum fjárhagserfiðleikum, fyrr en kannski nú. Er það sanngjarnt að ég, sem aldrei hef átt mikið, ekki heldur endilega of lítið, skuli nú líða fyrir vaxtaverki einhverra sem áður gengu í of stuttum buxum, af því þeir uxu svo mikið. En draga nú skálmarnar í skítnum.
Kæri þú!Getur þú sagt mér af hverju þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að létta undir með þeim sem voru svo óheppnir að skulda eitthvað eru bara hjóm? Úrræðin sem minn banki bauð mér þegar talað var um frystingu lána var ekki einu sinni ljóskubrandari. Það var bara boðið að geyma greiðslurnar í þrjá mánuði og borga svo alla summuna í byrjun febrúar. Allt með fullri verðtryggingu og vöxtum. Það var ekki langvinnt frost.
Kæri þú! Getur þú kannski sagt mér hver getur gefið mér viðhlítandi svör og það sem fyrst. Ég er nefnilega með barn í menntaskóla og þarf að vita hvort ég get borgað fæðið og heimavistargjaldið, eða hvort barnið mitt þarf að hætta námi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
325 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru