Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Laugardagur, 15. október 2011
Gullmolar úr hversdeginum
Kveikjan að þessum skrifum eru orð vinar míns sem lenti í smá uppákomu. Hann keypti síu í bílinn sinn sem til kom var vitlaust afgreidd þannig að hann gat ekki klárað það sem hann ætlaði að gera, þ.e. að skipta um síu. Eins og hann sagði sjálfur hefði verið auðvelt að fara í fýlu, býsnast yfir vitlausri afgreiðslu, vitlausum afgreiðslumanni og allt það, en það hefði ekki bætt honum síuleysið svo hann sleppti því. Mér finnst þetta frábær afstaða. Hún á svo víða við og í svona ergelsi er það einn sem líður mest, maður sjálfur. Enn eitt dæmið um hvað æðrluleysisbænin er sönn. Að breyta því sem ég fæ breytt, sætta mig við hitt og hafa vit til að greina á milli.
Ég á fimm barnabörn. Hvert þeirra um sig gerir mig afar stolta. Um daginn var ég að rabba við sex ára stubb í símann sem nýlega er byrjaður í skóla í fyrsta sinn. Vert er að taka fram að hann er mikill tölvukarl og finnst fátt eins skemmtilegt og fara í tölvu til að leika sér. Við vorum að ræða skólavistina og hvernig hún væri. "Amma það er ekki nógu skemmtilegt í þessum skóla. Tölvurnar eru alltaf bilaðar." Síðan verður smá þögn og þá kemur þessi guðdómlega viðbót. "Amma, ert þú ekki í kvenfélagi sem alltaf er að gefa gjafir? Segðu konunum í kvenfélaginu þínu að skólann vanti nýjar tölvur." Yndislegt.
Ég var stödd í smá samkvæmi. Þar var meðal annarra einn stubbalingur, kannski svona fjögurra ára. Hann fer að segja mér að afi sinn sé dáinn. Ég spurði hvort afinn hefði verið veikur. "Nei, sagði stubburinn, "hann var bara að labba út á götu, datt og dó." "Og hvernig var hann heppinn,?" spurði ég og fékk til baka þennan guðdómlega, ferlega ertu vitlaus svip, sem börn ein geta sett upp. "Nú það hefði einhver getað keyrt yfir hann og meitt hann og hann hefði þá kannski dáið. Hann var svo heppinn að enginn gerði það."
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. október 2011
Nú blæs Kári
Það gerist stundum að ég þarf að skunda til höfuðborgar lýðveldisins. Sem betur fer hef ég hraðskreiðari farkost en tvo jafnfljóta og get því sinnt nokkrum erindum í sömu ferð. Í dag var ein slík ferð og Kári var í essinu sínu. Í versluninni Fjarðarkaup var ekki mikið að gera þegar mig bar þar að fljótlega eftir hádegi, en þeim mun meira að skemmta sér yfir.
Þegar ég var búin að koma bílnum mínum vel fyrir á bílastæði var ég að hugsa að það sæist varla í hann fyrir laufi sem Kári hafði verið að leika sér að. Í sömu andrá horfi ég á bílana í kring til að athuga hvort svipað sé ástatt um þá. Tek þá eftir konu sem er að streða á móti vindinum. Hún hafði lagt töluvert í burtu frá verslunarhúsinu, sem í raun var nokkuð merkilegt. Hún var í kápu og með regnhlíf. Já regnhlíf á Íslandi í hífandi roki og rigningu. Fljótlega sá Kári gamli að þarna væri skemmtilegt fórnarlamb.
Allt byrjaði á því að í einni hviðunni sérist regnhlífið við, hún varð sem sagt öfug. Nokkuð sem Íslendingar hafa séð áður. Konan stoppaði til að reyna að lappa eitthvað upp á hlífina sína, kannski loka henni. Þá tók ekki betra við, því Kári var alls ekki hættur. Hann fer að lyfta upp kápunni. Fyrst lyftist annað hornið á framan, fer niður, svo hitt. Þá tekur hann eftir því að kápan er með klauf á aftan. Gaman, gaman, hugsar Kári, belgir sig allan og lyftir kápunni vel upp á aftan, nærri upp á haus. Konan er enn að baxa við regnhlífina sína og því ekki alveg viðbúin þessari árás. Hún sleppir takinu á regnhlífinni, með annarri hendi og reynir að koma kápunni niður. Það gengur í augnablik rétt á meðan Kári dregur andann, því næsta hviða er mun öflugri en sú fyrri. Kápan aftur upp, lengra en fyrr og úbbs, pilsið líka. Konan er komin í mesta basl. Með ósjálfráðum hreyfingum fálmar hún aftur fyrir sig til að koma flíkunum niður. Þá sleppir hún regnhlífinni sem Kári tekur fegins hendi.
Nú er konunni allri lokið. Blaut, úfin og hrakin rýkur hún í átt að skjólinu, verslunarhúsinu. Þar nær hún loks í var. Daman sem steig út úr bílnum sínum í skóm með háum hælum, hárið vandlega greitt, vendilega snyrt og í kjól og kápu, mætir nú vot, eins og reyttur hænurass í vindi, með blaut laufblöð klesst á andlitinu og með allt upp um sig, í búðina. Já það er greinilegt. Fyrsta haustlægðin er mætt og Kári gamli í essinu sínu.
Fimmtudagur, 13. október 2011
Nú má hlægja
Það er svo gott að hlægja, ekki síst fyrir svefninn. Hvatinn að þessum skrifum er saga sem ég las á facebook hjá einni góðri konu. Ég trúði því alveg að viðkomandi hefði lent í þeim atburði sem hún var að lýsa. Svo reyndist ekki vera. Ég fékk að hnupla sögunni og setja hana hjá mér. Margir mínir vinir trúðu því einnig að ég hefði getað lent í svona atburði. Þá er best að láta söguna bara flakka.
Sko einu sinni var ég á einhverju heilsufæði sem samanstóð af alls konar baunum. Aukaverkanir voru þær að vindgangurinn var rosalegur og hefði nærri geta komið mér til tunglsins. Lyktin var einnig í samræmi við það og er lesendum látið eftir að ímynda sér framhaldið. En allt um það. Á laugardagsmorgni þurfti ég að bregða mér í Bónus. Karlinn keyrði mig en nennti ekki inn þar sem ég ætlaði ekki að versla mikið. En röðin við kassann var rosalega löng og ég þurfti að bíða, lengi, lengi og svo varð mér svo mál að leysa vind. En auðvitað gerir maður ekki slíkt og þvílíkt í röð í Bónus. Ég hélt því fast í mér og var orðin gjörsamlega viðþolslaus þegar loks var komið að mér við kassann. Hrúgaði vörunum í poka, nánast henti peningum í kassadömuna. Hljóp svo út eins hratt og ég komst. Hentist inn í bíl hjá karlinum mínum og prumpaði og prumpaði eins og enginn væri morgundagurinn. Gaf svo frá mér fegins andvarp og sagði hátt: AHHHHH ÞETTA VAR GOTT um leið og ég snéri mér að karlinum til að útskýra þrautagöngu mína inni í búðinni.
Gott fólk. Ég hélt að það myndi líða yfir mig þegar ég leit á hann og sá að ég var í vitlausum bíl. Maðurinn sem sat við stýrið var alls ekki maðurinn minn heldur einhver allt annar karl sem greinilega var að kafna úr skítafýlu því hann hamaðist eins og óður við að skrúfa rúðuna niður, sín megin.
Ég hélt ég myndi deyja. Tautaði einhver afsökunarorð og tróðst út úr bílnum. Aumingja maðurinn sagði ekki orð. Var ábyggilega í andnauð og greinilega skíthræddur við þennan prumpustamp. Pokanum gleymdi ég auðvitað í bílum og ætla sko EKKI að leita að honum.
Svo mörg voru þau orð. Önnur saga svipuð átti sér stað. Kona nokkur skaust í búð til að versla. Hún ætlaði að vera eldsnögg, sem hún var. Rauk inn, verslaði, rauk út aftur og settist inn í bílinn sinn. Henni gengur eitthvað illa að koma lyklinum í svissinn og skilur ekkert í þessu. Þá heyrist allt í einu úr aftursætinu: "Ætlar þú að láta mömmu og pabba borga peninga til að fá okkur til baka þegar þú ert búin að ræna okkur?" Konugarminum bregður illa við og lítur í aftursætið. Þar sitja tvö börn, ekki hennar eigin, enda voru þau heima. Hún tautar eitthvað, rýkur út úr bílnum. Finnur sinn bíl og ekur reykspólandi, á tveimur dekkjum, í burtu í þeirri von að aldrei þurfi hún að sjá þessi börn framar.
Árin líða. Nærri fimmtán árum síðar kemur heimasætan á bænum með ungan mann í heimsókn. "Mamma, mig langar að kynna þig fyrir honum Guðjóni." Ungi maðurinn stígur fram, heilsar og fer að brosa. "Þú er konan sem ætlaði að ræna mér og systur minni fyrir mörgum árum af bílastæði. Ég hef oft hugsað til þín síðan." Segið svo að heimurinn sé ekki smár.
Fimmtudagur, 13. október 2011
Við hin
Ég er að hugsa um að segja ykkur sögu úr raunveruleikanum. Jón A og Jón B keyptu sér hús á sama tíma. Jón A hafði aðgang að aðila úr fjármálageiranum, fékk ráðleggingar frá óháðum aðila. Hann tók því gengistryggt lán til 15 ára til að borga húsið sitt. Jón B hafði ekki þennan aðgang. Hann fór í bankann sinn og spurði ráða. Á þeim bæ var honum sagt að ekkert vit væri að taka gengistryggt lán til 15 ára svo hann tók verðtryggt lán, til 40 ára. Þetta var árið 2005. Árið 2008 varð hrun á Íslandi. Líklega hefur einhver heyrt minnst á það.
Jónarnir okkar báðir lentu í erfiðri súpu. Jón A sá lánið sitt rjúka upp úr öllu valdi, tók andköf og átti svefnlausar nætur. Jón B lenti í sömu súpu. Jón A var hins vegar heppari en nafninn því hans lán var gengistryggt og kannski meira að segja ólölegt. Hann getur því átt von á endurgreiðslu, niðurfellingu og ýmsu öðru. Þeim nóttum hefur því fljögað að nýju þar sem hann nýtur hvíldar. Því er ekki þannig háttað um aumingjan hann Jón B.
Verðtryggð lán eru eins og óhreinu börnin hennar Evu. Það vill enginn kannast við þau. Samt eru þetta lánin sem flest heimili landsins bera. Þau hafa þann stóra ókost að þau lækka ALDREI eftir verðlagi, gengi eða verðbólgustigi, eins og gerist með gengistryggðu lánin. Höfustóll verðtryggðra lána hækkaði og hækkaði í verðbólguskotinu og hann verður áfram hár. Höfuðstóll gengistryggðu lánanna mun lækka þegar gengið lækkar og vaxtakjörin eru öðruvísi.
Af hverju talar enginn um það sem brennur á flestum? Af hverju tekur enginn á þeim stóra vanda sem þessi verðtryggðu lán eru? Bara sett í nefnd til að svæfa málið? Er það af því að verkefnið er svo yfirþyrmandi að enginn treystir sér til að byrja á því eða er það af því að viljann vantar?
Landsbyggðin líður þegar fyrir ótrúlegt verð á eldsneyti. Við höfum ekki möguleika á því að sinna erindum okkar nema á bíl, þó við gætum tekið þarfasta þjóninn í meiri og aukna notkun, þarf slíkt nokkuð langan aðdraganda. Verð á rafmagni hefur hækkað gífurlega. Ég var að taka saman tölur fyrir eitt hús fyrir skömmu. Árið 2009 kotaði rafmagnið þar kr 74 þúsund rúm. Árið 2010 var það 243 þúsund rúm. Tekið skal fram að þetta hús er með rafmagnskyndingu, ekki hitaveitu. Kalda vatnið hjá Orkuveitu Reykjavíkur hefur einnig hækkað umtalsvert. Verð á nauðsynjavörum hefur einnig hækkað mikið. Að ekki sé talað um lánin. Það eina sem ekki hefur hækkað er kaupið. Og svo segja menn, við erum á uppleið. Við erum sannarlega á uppleið, með verðið.
Ég er ein af þeim mörgu Íslendingum sem hef gerst sek um einn hlut. Ég hef verið að borga og borga, alla mína ævi og einfaldlega viljað standa í skilum. Ég á ekki nýjan bíl, hef ekki keypt mér nýtt hús eða húsgögn eða flatskjá eða eða eða eða. Ég er alin upp við að standa við mín loforð og það er í raun það eina sem ég hef gerst sek um. Lánin mín urðu að skrímsli í verðbólgunni, ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í því, heldur í þriðja sinn. Ég held áfram að reyna að borga og borga og borga, en í ljósi staðreynda, þá er greiðslugeta mín orðin of lítil. Á meðan afskrifaðar hafa verið hundruðir milljarða fyrir ýmsa á ég bara að borga og borga og borga, ekkert er hægt að fella niður hjá mér. Ég sukkaði ekki nóg. Er þetta réttlæti? Við hin sem bara höfum gert okkur sek um að vilja standa okkar plikt, eigum við alltaf að borga brúsann? Er endalaust hægt að níðast á minni máttar?
Mig langar ekki að lifa í samræmi við mínar lægri hvatir, þótt ég eigi það til að lenda þar á stundum Fyrir nokkru sendi ég góðri konu póst Þar setti ég inn eftirfarandi setningar, af því að ég vil trúa því að réttlætið nái fram að ganga og mig langar að ná mér upp úr neikvæðninni.
Ég trúi því að til sé fólk sem vill fegurra mannlíf. Ég trúi því að til sé fólk sem vill að heilindi ríki. Ég trúi því að ef við tölum og framkvæmum frá hjartanu mun gott af hljótast. Ég trúi því einnig að trú á gömul og góð kristin gildi sé enn til í samfélaginu og verði okkur öllum til hagsbóta. Síðast en ekki síst, trúi ég því, ef við öll vinnum saman, af heilindum, muni réttlætið sigra að lokum. Að við sem höfum staðið okkar plikt, verið samviskusamir verkamenn í víngarðinum, munum uppskera ríkulega, en það þarf að gerast fljótt, áður en búið er að lýsa okkur öll gjaldþrota.
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru