Leita í fréttum mbl.is

Nú blæs Kári

Það gerist stundum að ég þarf að skunda til höfuðborgar lýðveldisins. Sem betur fer hef ég hraðskreiðari farkost en tvo jafnfljóta og get því sinnt nokkrum erindum í sömu ferð. Í dag var ein slík ferð og Kári var í essinu sínu. Í versluninni Fjarðarkaup var ekki mikið að gera þegar mig bar þar að fljótlega eftir hádegi, en þeim mun meira að skemmta sér yfir.

Þegar ég var búin að koma bílnum mínum vel fyrir á bílastæði var ég að hugsa að það sæist varla í hann fyrir laufi sem Kári hafði verið að leika sér að. Í sömu andrá horfi ég á bílana í kring til að athuga hvort svipað sé ástatt um þá. Tek þá eftir konu sem er að streða á móti vindinum. Hún hafði lagt töluvert í burtu frá verslunarhúsinu, sem í raun var nokkuð merkilegt. Hún var í kápu og með regnhlíf. Já regnhlíf á Íslandi í hífandi roki og rigningu. Fljótlega sá Kári gamli að þarna væri skemmtilegt fórnarlamb. 

Allt byrjaði á því að í einni hviðunni sérist regnhlífið við, hún varð sem sagt öfug. Nokkuð sem Íslendingar hafa séð áður. Konan stoppaði til að reyna að lappa eitthvað upp á hlífina sína, kannski loka henni. Þá tók ekki betra við, því Kári var alls ekki hættur. Hann fer að lyfta upp kápunni. Fyrst lyftist annað hornið á framan, fer niður, svo hitt. Þá tekur hann eftir því að kápan er með klauf á aftan. Gaman, gaman, hugsar Kári, belgir sig allan og lyftir kápunni vel upp á aftan, nærri upp á haus. Konan er enn að baxa við regnhlífina sína og því ekki alveg viðbúin þessari árás. Hún sleppir takinu á regnhlífinni, með annarri hendi og reynir að koma kápunni niður.  Það gengur í augnablik rétt á meðan Kári dregur andann, því næsta hviða er mun öflugri en sú fyrri. Kápan aftur upp, lengra en fyrr og úbbs, pilsið líka. Konan er komin í mesta basl. Með ósjálfráðum hreyfingum fálmar hún aftur fyrir sig til að koma flíkunum niður. Þá sleppir hún regnhlífinni sem Kári tekur fegins hendi.

Nú er konunni allri lokið. Blaut, úfin og hrakin rýkur hún í átt að skjólinu, verslunarhúsinu. Þar nær hún loks í var. Daman sem steig út úr bílnum sínum í skóm með háum hælum, hárið vandlega greitt, vendilega snyrt og í kjól og kápu, mætir nú vot, eins og reyttur hænurass í vindi, með blaut laufblöð klesst á andlitinu og með allt upp um sig, í búðina. Já það er greinilegt. Fyrsta haustlægðin er mætt og Kári gamli í essinu sínu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband