Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Kjósum rétt!

Á morgun gengur íslenska þjóðin til kosninga því hún ætlar að velja sér nýjan forseta. Ég er enn að velta fyrir mér hver verður fyrir valinu hjá mér, kostirnir eru margir, góðir. 

En það sem mér þykir leiðinlegt að heyra af og lesa um er að fólk sé að hugsa um að kjósa einhvern til þess að koma í veg fyrir að annar nái kjöri. Persónulega þykir mér það afar rangt. Að mínu mati á hver og einn að kjósa rétt, samkvæmt eigin sannfæringu en ekki af því að einhver annar segir eða gerir eitthvað. 

Kosningarétturinn er einn dýrmætasti réttur sem við eigum og því má ekki misnota hann. Það er ekki sjálfgefið að hafa rétt til að velja. Svo kjósum rétt, samkvæmt eigin skoðun og samvisku. 


Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?

Í flestum Vestrænum ríkjum er lýðræði stjórnarfyrirkomulagið. Það eru haldnar kosningar og sá sem flest atkvæði hlýtur, er sigurvegari. Það er allt gott og blessað. 

Svo kemur að því að taka ákvarðanir, þær sem e.t.v. mestu máli skipta í raun. Þar hefur því miður orðið reyndin sú að lýðræðið virkar ekki nógu vel. Minnihlutinn kúgar æði oft meirihlutann. 

Nokkur dæmi sem eru sláandi frá liðnum vikum. Umræðan um íslenskar vörur. Þeir sem ég hef talað við eru allir á því að við eigum að standa vörð um okkar eigin vörur og framleiðsu. Auðvitað ræður buddan því miður oft því sem við kaupum inn, svo stundum er ekki nóg að vilja kaupa íslenskt, en það breytir ekki þeirri staðreynd að Íslendingar vilja allflestir kaupa innlenda framleiðslu. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Mjólkin hækkaði um daginn. Allflestir hafa skilning á því að bændur þurfa líka að fá laun. Allflestir vilja líka vera þess umkomnir að kaupa innlendar landbúnaðarvörur. Ég myndi telja að aukin meirihluti vildi það. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Og af hverju mátti mjólkin ekki hækka? Fáir segja neitt ef vatnið, sem við getum fengið frítt úr krananum, hækkar um einhverjar krónur, við kaupum það samt. Er ekki eitthvað öfugsnúið við það? 

Þjóðkirkjan er annað dæmi. Hjá mjög mörgum er hún hluti af stóru stundum lífsins, bæði gleði og sorg. Oft er leitað til presta þegar einhver hefur misst ástvin eða þegar fjölskyldumeðlimur lendir í alvarlegu slysi. Einnig vilja margir láta skíra börnin sín og gifta sig í kirkju. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Ég held að svarið geti legið í því að fólk nennir ekki að taka slaginn eða eiga í þrasi við náungann. Öll umræðan minnir þó töluvert á þegar krakkar bera við að ALLIR segi eitthvað. Sem oft fyrr heyrist mest í fámennum, háværum hópi. Sem þýðir að enn og aftur er minnihlutinn að kúga meirihlutann og það er sannarlega ekki samkvæmt leikreglum lýðræðisins. Eigum við að hafa þetta svona áfram eða er tími til kominn fyrir meirihlutann að láta svona almennt í sér heyra? Ég held það, þess vegna varð þessi pistill til.  


Minnisvarði Landsbankans

Fyrir nokkru barst sú fregn að Landsbankinn eða forráðamenn hans hygðust byggja stórt og mikið hús, eiginlega glerhýsi, sagði sagan og ekki lýgur Gróa gamla á Leiti. Á sama tíma og raunar mikið fyrr og lengur er talað um vanda Landsspítalans, húsnæðisskort hans og í reynd skort á öllum sviðum. 

Almenningur brást fremur ókvæða við þessum fyrirætlunum Landsbankans, enda eins og nafnið ber með sér, banki landsins svo fólki finnst sér koma málið við. Nú er e.t.v. úr vöndu að ráða, eða hvað? Landsbankinn myndi reisa sér verðugan minnisvarða ef hann ákveddi að hætta við að byggja sér höll til dýrðar Mammoni en myndi venda sínu kvæði í kross og byggja fremur til dýrðar Demeter, gyðu heilbrigðis og þar með hentugt hús fyrir Landsspítalann. Þá myndi allir vilja Lilju kveðið hafa, lofa forráðamenn bankans í hástert fyrir framúrskarandi ákvörðun og ótrúlega skynsemi. 


Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta

Það er ekki boðlegt á 21. öld að heilt byggðarlag á Íslandi sé án vegasamgangna. Í sögum er sagt frá afskekktum byggðum landsins þar sem ekki var hægt að komast. Menn reyndu þó, þótt fararskjótar væru kannski þarfasti þjónninn eða tveir jafnfljótir.

Þegar það hentar okkur notum við höfðatölu sem skrautfjöður. Það á ekki við hér.  Það er greinilegt að röng spil hafa verið valin úr stokknum eða vitlaust gefið þegar kemur að ákvarðanatöku um vegamál. Spurningin er ekki einungis um það að íbúarnir komist í burtu, fólk verður líka að komast á staðinn, vitja eigna sinna og geta ferðast. 

Hvað ef slys hendir eða kona lendir í barnsnauð? Landsbyggðarfólk þarf að standa saman og brjótast undan þessu misrétti. Það eiga ekki að vera réttindi fárra að komast leiðar sinnar, alla jafna. Samgöngur hvort sem um er að ræða vegi, síma eða nettengingar eiga vera sjálfsagður hluti af grunnþjónustunni, jafnt skipt á alla landsmenn


mbl.is Krefjast aðgerða strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hrífa mann og annan

Þegar búið er að skrifa tvo pistla um það sem er dapurt og miður hefur farið er nauðsynlegt að breyta til að hressa sig. Pára ögn um það sem gleður sálarkyrnuna.

Tónlst hrífur marga, það er gömul saga og ný. Fólk fer á tónleika til að upplifa. Gleðjast, hrærast, tárast og allt þar á milli. Njóta. Að hlusta á seiðandi tóna frá Selló getur gefið angurværa stemningu. Fjörugur gítarleikur getur lyft upp andanum á gleðisvið. Sumir setja á fjöruga rokktónlist þegar húsið er þrifið til að fá orku og kraftinn sem til þarf. Það er gott að hrífast. Tónlist getur einnig kallað fram hina myrkari kima. Sú tilfinning er miður góð en þó er sótt í það.

Orð geta einnig hrifið. Að hlusta á andans fólk, er oft uppbyggandi. Farið er ríkari af slíkum fundi. Áheyrandi gengur út í sitt líf fullur af eldmóði, trúir á mannkynið og sjálfan sig. Það er uppbygging í gangi. Í dag er hennar þörf. Góður prédikari hefur gífurleg áhrif á þann sem hlustar, takist vel til. Að skunda í kirkju og hlusta á góða prédikun getur gefið innblástur, upphafið andann til mikil gagns. 

Hjá allflestum fara samskipti dagsin fram með orðum. Í verslun, í símann, við eldhúborðið, hvar sem er. Öll höfum við áhrif á okkar samferðamenn. Góð, miðlungs eða slæm, misjafnt hverju sinni. Virðing er lykilatriði í þeim samskiptum. Allir eru virði, skipta máli. Einar Benediktsson skáld segir svo í Einræðum Starkaðar: "Eitt bros - getur dimmu í dagsljós breytt,sem dorpi breytir veig heillar skálar. Þel getur snúist við atorð eitt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast, við biturt andsvar, gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka."

Allir vilja láta koma fram við sig af virðingu. Ef grannt er skoðað kannast flestir við að laðast meira að þeirri persónu sem er notaleg, sýnir virðingu fyrir einstaklingnum og skoðunum hans. Margir gleyma hins vegar að koma þannig fram sjálfir. Njótum lífsins og höfum gagnkvæma aðgát í nærveru sálar.  


 


Stórhríð og óvissustig

Fyrirsögnin í Morgunblaðinu kallaði fram hugmynd um sannleika hennar í víðasta skilningi. Í sumum landshlutum er stórhríð og óvissustig vegna veðurs en í öllum landshlutum geisar stórhríð og óvissustigið er sannarlega til staðar. Heilu sveitunum er haldið í gíslingu vegna stórhríðar og óvissustigs, af manna völdum.

Skortur á mennsku er umhugsunarefni í allri merkingu orðsins. Skortur á skilningi og tilliti. Óvissustig ríkir.  Forgangsröðun er athygliverð. Að græða aur virðist meira virði en mennskan. Margir eru á þeirri braut, að elta Mammon. Kannski ekki eins einmanna og ráðamenn þjóðarinnar voru sýndir á vegferð sinni í áramótaskaupinu. En þeir sem þvælast fyrir eru jafnvel keyrðir niður, rétt eins og þar. 

Við og þeir ræður víða ríkjum. Höfuðborgarbúinn skilur ekki aðsöðu eða aðstöðuleysi landsbyggðarmannsins og öfugt. Ríkisvaldið skilur ekki barning íbúanna. Atvinnurekendur skilja ekki launþega. Vinstrimenn skilja ekki hægrimenn. Við og þeir.

Það ríkir sannarlega óvissustig og einnig stórhríð í hugum þeirra sem eru að reyna að hafa til hnífs og skeiðar. Óvissan um afkomu, um eignir, æru og stolt. Menn þreyja þorrann, með þeim leiðindum sem honum fylgja oft. Hann tekur enda. Menn eygðu og eygja von í vorinu. Mun það einnig gerast hjá þorra landsmanna? Mörgum finnst að þeir hafi þreytt þorrann nógu lengi, að mál sé að linni. 


Hefðum átt að hlusta á karlinn

Þótt að ég hefi nú víst aldrei kosið Framsóknarflokkinn og það angrar mig svo sem ekkert þá hef ég um nokkra hríð verið hrifin af málflutningi Sigmundar Davíðs um endurreisnina eftir að bólan sprakk.

Ég tel nokkuð einsýnt að ef við hefðum farið niðurfærsluleið í einhverri myndi, strax, þá værum við almennt mikið betur stödd en reyndin er í dag. Og það sem meira er, almenningi hefði fundist að eitthvað væri verið að gera til að bæta haginn.

Í stað reiði og vonbrigða væri kannski komið bullandi uppbyggingarstarf. Fólk hefði fundið að tekið væri tillit til stöðu þeirra, hvort sem um væri að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Þá væru kannski ekki þúsundir Íslendinga enn í stríði við bankanna því að enn hefur einungis verið tekið á erlendu lánunum sem í mörgum tilfellum voru neyslulán, tekin til að kaupa bíl eða eitthvað slíkt.

Hinn stóri óleysti vandi eru íslensku lánin. Þau verðtryggðu sem urðu að skrímslum og fólk getur ekki borgað. Þar stendur allt fast og verra en óbreytt. Ef strax hefði verið tekin sneið af lánunum, væri annað hljóð í strokknum. Ef neytendur hefðu notið afskriftanna, alla vega að einhverju leiti, sem bankarnir hlutu þegar þeir tóku yfir skuldasöfn gömlu bankanna, þá væri allt önnur staða hjá flestum. Það er auðvitað ekki í lagi að nýr banki geti fengið skuldir Jóns Jónssonar með 50% afföllum hjá gamla bankanum en auminginn hann Jón borgar fullan skammt. Þetta er kannski löglegt, en alls ekki siðlegt. 

 


mbl.is Glötuð tækifæri í endurreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt

það var einu sinni kona sem datt á bólakaf í stóran drullupoll. Allir nærstaddir hlógu. Konan stóð upp og sagði að þetta hefði verið með vilja gert. Að leggjast flatur í drullu væri eitt besta fegrunarmeðal sem til væri. Það væri svo gott fyrir húðina. Slíkur var sannfæringarkrafturinn að áður en við var litið var fjöldi manns farin að baða sig upp úr drullupollum, hvar sem til þeirra náðist. Það var ekki fyrr en ein saklaus sál nefndi að baða sig upp úr drullu hefði ekkert annað í för með sér en auka þvott, sem í sjálfu sér er gott fyrir húðina, að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.

það var einu sinni keisari sem réði til sín klæðskera sem áttu að sauma á hann ný föt. Þótt ekkert væri efnið var sannfæringarkrafturinn slíkur að þeim tókst að telja keisara og hirðinni allri trú um að um fegursta silki væri að ræða.  Keisarinn ákvað að klæðast hinum nýju fötum við hátíðlegt tækifæri. Það var ekki fyrr en saklaust barn nefndi að hann væri klæðalaus að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.

Það voru einu sinni fjármálamenn sem ákváðu að verða ríkir. Þeir uxu og döfnuðu, eins og púki á fjósbita. Veldi þeirra var mikið, eða svo héldu allir og þjóðin var afar stolt af þeim. Margir urðu til að vara við að ekki væri allt þetta veldi byggt á bjargi, fremur væri það byggt á sandi. Sannfæringarkraftur fjármálamannanna var slíkur að fólk tók svona gagnrýni ekki vel. Það væru bara öfundssjúkir aðilar sem svona létu. Það var ekki fyrr en allt fór í norður og niðurfallið, með miklu brauki og bramli að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt. 

Það var einu sinni land sem bjó yfir besta vatni í heimi. Þjóðin í landinu var ekki meðvituð um þá auðlind sína og hafði kannski ekki trú á hún væri merkileg. Þrátt fyrir að reynt væri að selja vatnið til landa þar sem skortur var á slíkum gæðum, tókst ekki sem skyldi. Þar vantaði sannfæringarkrafinn til að losa álögin af fólki. Ótrúlegt.

Það var einu sinni þjóð sem ræktaði ómenguðust afurðir í heimi. Náttúran var hrein, ekki þurfti að úða eiturefnum á allt sem óx og vatnið var í háum gæðum. Þjóðin reyndi að selja kjöt til útlanda en hafði ekki árangur sem erfiði að neinu viti, var kannski með minnimáttarkennd. Þar vantaði sannfæringarkraftinn til að koma gæðavöru á markað og álögin enn virk. Ótrúlegt. 

Það var einu sinni að fólk sem lenti í hremmingum.  Það varð að stokka allt upp, skoða og meta lífið og gæði þess upp á nýtt. Svo liðu árin. Einn dag kom maður fram í fjölmiðli landsins og greindi frá því að nú væri rosalega sniðugt að fara að rækta erfðabreytt matvæli. Það væri bara allt í lagi þótt ekki væri búið að rannsaka það mikið hvaða afleiðingar það hefði fyrir fólk og dýr að borða afurðirnar. Þetta væri stærsta skref sem mannkynið hefði stigið í árþúsundir. Þótt alls ekki væri heldur fyrirséð hvaða áhrif svona aðskotaplöntur hefðu á móður jörð. Málið væri að erfðabreytt korn gæfi svo mikið meira af sér, menn myndu græða svo mikið meira á því að rækta þessar plöntur. Sagan minnir mjög á söguna um fjármálamennina. Spurning hvort fólkið sé enn í dróma og muni gera sömu mistök aftur. Lætur það einhvern með mikinn sannfæringarkarft segja sér hvað er í lagi og hvað ekki. Hverju eigi að trúa og hverju ekki. Vonandi hafa menn lært af reynslunni og beita heilbrigðri skynsemi til að meta hvað er rétt en gleypa ekki hráar yfirlýsingar þeirra sem vilja selja. Annað væri Ótrúlegt. 


Kerfið í kerfi

Af hverju erum við svona mikið kerfisfólk? Hér búa ríflega þrjúhunduð þúsund manneskjur sem einkar lagið virðist vera að gera einföld mál flókin. Þrátt fyrir alla vinavæðingu fámennisins þá eru þeir sem minna mega sín alltaf að lenda í brasi með "kerfið" Einföld mistök í útfyllingu á eyðublöðum verður að stórmáli þótt allir samþykki að um mistök séu að ræða. Bara eins og maðurinn sem sótti um fæðingarorlof. Upplýsingarnar voru eitthvað loðnar, hann gerði sitt besta en fyllti rangt út.

Á leið hans um þennan dimma skóg kom einnig í ljós að endurskoðandi fyrirtækis þess sem hann vann hjá, hafði gert einhver mistök. Atvinnurekandinn sendi yfirlýsingu, ásamt endurskoðandanum að um mistök væri að ræða. En nei, þá fær viðkomandi bara ekkert fæðingarorlof og ef hann er ekki sáttur, getur hann bara kært. Kerfið sagði nei, fór í kerfi og við það situr. Er minnimáttarkenndin svo mikil að við þurfum að sýna mátt okkar og megin á þennan hátt? Helst flögrar það að mér.


Kærar þakkir

Ágætu lesendur!

Inn á þessa síðu hefur ótrúlegur fjöldi fólks kíkt, síðustu daga.  Hér hef ég einkum skrifað það sem leggið hefur á hjarta varðandi kosningar til Stjórnlagaþings. Ég vil því nota þessa síðu og þetta tækifæri til að þakka fyrir. Bæði fyrir lesturinn hér inni og eins vil ég þakka ykkur sem fóruð á kjörstað. Ég hef brennandi áhuga á því að vinna að endurbótum á stjórnarskránni. Hvort ég fæ tækifæri til þess kemur í ljós á næstu dögum.

Ég hef einnig þá trú að þessi tilraun, að kjósa í persónukjöri, hafi verið afar mikilvæg fyrir okkur. Því miður varð þátttakan ekki sem skyldi en við erum þó reynslunni ríkari. Mér finnst einnig athyglisvert hversu fáir eyddu miklu fé í auglýsingar. Ég fékk einungis einn "kjóstu mig" miða í póstkassann hjá mér. Það finnst mér gott. 

Enn og aftur endurtek ég þakkir mínar, ekki síst til ykkar sem kusuð mig. 


Næsta síða »

Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband