Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spaugilegt

Svo mildum við þorra-með blóti

Árlegt þorrablót Tungnamanna var haldið í Þinghamri, félagsheimili heimamanna, í kvöld. Þátttaka var góð að venju. Passlega þröngt var í salnum eins og vant er, menn voru með plastpoka, kassa, kælibox og önnur ílát, undir guðaveigarnar. Hákarl, brennivín og kristall í boði í forrétt. Allt samkvæmt ritúalinu.

Til tíðinda bar helst að þorrablótsnefndin hóf fyrst af öllum innreiðina að girnilegu hlaðborðinu. Nokkuð sem fyrr hefur ekki tíðkaðst í Tungunum. Minnti helst á afmæli þar sem afmælisbarnið byrjar. Er biðröð lauk, strunsuðu menn í sæti sín með hraukaða diska af súrmat, svipakjömmum, rófustöppu og öðru góðmeti. Fyrsta vers í að blíðka hinn grimmlynda þorra. 

Annállinn var góður. Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns fór á kostum og það sem hann mælti heyrðist alveg inn í horn. Veislustjórinn hefur án efa verið góður einnig, minna heyrðist í honum.  Á milli spaugsyrða var sungið undir dyggum undirleik Þorvaldar í Brekkukoti. Þar var ekki í kot vísað. Söngvatn er nauðsynlegt með slíkum æfingum og var það óspart teygað. Enda fátt betra í vegferðinni að blíðkun þorra. 

Að horfa á fólk á dansgólfi er skemmtan, út af fyrir sig. Hinn kloflangi dansherra sem dregur á eftir sér klofstutta dömu sína, er óborganlegur. Hann glennir sig í risaskrefi á meðan hún hleypur sjö, til að hafa við. Svo er það hinn geysi-glaði. Sveiflar öllum skönkum, tekur ekkert eftir því að hann hittir fyrir mann og annan. Ef einhver væri með hárkollu á gólfinu er næsta víst að hún hrykki af er hún mætti skanka á förnum vegi. Sá umfangsmikli er einnig fyrirferðarmikill á gólfinu. Hann þarf og vill sitt rými. Er nokkuð saman þótt ein og ein tá líði fyrir. Allt gjört til að milda hinn skapmikla þorra.

Enda bregður svo við. Eftir æfingar strangar við át, drykkju og dill, er komin blíða. Hægt er að tendra ljós á kveikjara utan dyra. Vill einhver halda því fram að þorrablót geri ekki gagn? Hvort sem þorri man tilraunir Tungnamanna til að hylla hann þá er víst að árlega streyma menn úr uppsveitum Borgarfjarðar til að skemmta sér og öðrum á hátið kenndri við þorra. Góður siður. Takk fyrir kvöldið.


Venjulegar fjölskyldur

Einn af ráðamönnum þjóðarinnar mun hafa haft á orði að engar "venjulegar" fjölskyldur hefðu komið illa út úr hruninu. Þessi ummæli eru athyglisverð og kalla auðvitað á skilgreiningu á orðinu venjulegur. Hvernig er venjuleg fjölskylda samsett? Er það vístitölufjölskylda, tveir fullorðnir og tvö börn, eitt barn og einn fullorðinn, hundur eða köttur og fullorðinn, eða skiptir stærðin og/eða samsetning engu máli?

Samkvæmt orðabók þýðir orðið venjulegur, vanalegur, almennur, hversdagslegur. Orðið almennur er það sem hnotið er um. Þessi orð mætti þá túlka svo að engar almennar fjölskyldur hefðu orðið illa fyrir barðinu á títtnefndu hruni. 

Mörgum finnst eftirstóttarvert að vera venjulegur og heyrist oft að viðkomandi sé bara venjulegur. Sú persóna er greinilega heppnari en hinir, hrunið hefur ekkert hitt hana fyrir. 

Öðrum finnst mest spennandi að vera óvenjulegur. Þeir einstaklingar eiga alla samúð. Þeir bera uppi afleiðingar hrunsins, samkvæmt ofansögðu. 

Í ljósi alls sem sagt hefur verið eftir HRUN læðist að sá grunur að fáar venjulegar fjölskyldur búi á Íslandi. Að sönnu var vitað að þjóðin væri fremur óvenjuleg en að það væri svona almennt, kemur á óvart.

 


Nú blæs Kári

Það gerist stundum að ég þarf að skunda til höfuðborgar lýðveldisins. Sem betur fer hef ég hraðskreiðari farkost en tvo jafnfljóta og get því sinnt nokkrum erindum í sömu ferð. Í dag var ein slík ferð og Kári var í essinu sínu. Í versluninni Fjarðarkaup var ekki mikið að gera þegar mig bar þar að fljótlega eftir hádegi, en þeim mun meira að skemmta sér yfir.

Þegar ég var búin að koma bílnum mínum vel fyrir á bílastæði var ég að hugsa að það sæist varla í hann fyrir laufi sem Kári hafði verið að leika sér að. Í sömu andrá horfi ég á bílana í kring til að athuga hvort svipað sé ástatt um þá. Tek þá eftir konu sem er að streða á móti vindinum. Hún hafði lagt töluvert í burtu frá verslunarhúsinu, sem í raun var nokkuð merkilegt. Hún var í kápu og með regnhlíf. Já regnhlíf á Íslandi í hífandi roki og rigningu. Fljótlega sá Kári gamli að þarna væri skemmtilegt fórnarlamb. 

Allt byrjaði á því að í einni hviðunni sérist regnhlífið við, hún varð sem sagt öfug. Nokkuð sem Íslendingar hafa séð áður. Konan stoppaði til að reyna að lappa eitthvað upp á hlífina sína, kannski loka henni. Þá tók ekki betra við, því Kári var alls ekki hættur. Hann fer að lyfta upp kápunni. Fyrst lyftist annað hornið á framan, fer niður, svo hitt. Þá tekur hann eftir því að kápan er með klauf á aftan. Gaman, gaman, hugsar Kári, belgir sig allan og lyftir kápunni vel upp á aftan, nærri upp á haus. Konan er enn að baxa við regnhlífina sína og því ekki alveg viðbúin þessari árás. Hún sleppir takinu á regnhlífinni, með annarri hendi og reynir að koma kápunni niður.  Það gengur í augnablik rétt á meðan Kári dregur andann, því næsta hviða er mun öflugri en sú fyrri. Kápan aftur upp, lengra en fyrr og úbbs, pilsið líka. Konan er komin í mesta basl. Með ósjálfráðum hreyfingum fálmar hún aftur fyrir sig til að koma flíkunum niður. Þá sleppir hún regnhlífinni sem Kári tekur fegins hendi.

Nú er konunni allri lokið. Blaut, úfin og hrakin rýkur hún í átt að skjólinu, verslunarhúsinu. Þar nær hún loks í var. Daman sem steig út úr bílnum sínum í skóm með háum hælum, hárið vandlega greitt, vendilega snyrt og í kjól og kápu, mætir nú vot, eins og reyttur hænurass í vindi, með blaut laufblöð klesst á andlitinu og með allt upp um sig, í búðina. Já það er greinilegt. Fyrsta haustlægðin er mætt og Kári gamli í essinu sínu.

 


Nú má hlægja

Það er svo gott að hlægja, ekki síst fyrir svefninn. Hvatinn að þessum skrifum er saga sem ég las á facebook hjá einni góðri konu. Ég trúði því alveg að viðkomandi hefði lent í þeim atburði sem hún var að lýsa. Svo reyndist ekki vera. Ég fékk að hnupla sögunni og setja hana hjá mér. Margir mínir vinir trúðu því einnig að ég hefði getað lent í svona atburði. Þá er best að láta söguna bara flakka.

Sko einu sinni var ég á einhverju heilsufæði sem samanstóð af alls konar baunum. Aukaverkanir voru þær að vindgangurinn var rosalegur og hefði nærri geta komið mér til tunglsins. Lyktin var einnig í samræmi við það og er lesendum látið eftir að ímynda sér framhaldið. En allt um það. Á laugardagsmorgni þurfti ég að bregða mér í Bónus. Karlinn keyrði mig en nennti ekki inn þar sem ég ætlaði ekki að versla mikið. En röðin við kassann var rosalega löng og ég þurfti að bíða, lengi, lengi og svo varð mér svo mál að leysa vind. En auðvitað gerir maður ekki slíkt og þvílíkt í röð í Bónus. Ég hélt því fast í mér og var orðin gjörsamlega viðþolslaus þegar loks var komið að mér við kassann. Hrúgaði vörunum í poka, nánast henti peningum í kassadömuna. Hljóp svo út eins hratt og ég komst. Hentist inn í bíl hjá karlinum mínum og prumpaði og prumpaði eins og enginn væri morgundagurinn. Gaf svo frá mér fegins andvarp og sagði hátt: AHHHHH ÞETTA VAR GOTT um leið og ég snéri mér að karlinum til að útskýra þrautagöngu mína inni í búðinni. 

Gott fólk. Ég hélt að það myndi líða yfir mig þegar ég leit á hann og sá að ég var í vitlausum bíl. Maðurinn sem sat við stýrið var alls ekki maðurinn minn heldur einhver allt annar karl sem greinilega var að kafna úr skítafýlu því hann hamaðist eins og óður við að skrúfa rúðuna niður, sín megin. 

Ég hélt ég myndi deyja. Tautaði einhver afsökunarorð og tróðst út úr bílnum. Aumingja maðurinn sagði ekki orð. Var ábyggilega í andnauð og greinilega skíthræddur við þennan prumpustamp. Pokanum gleymdi ég auðvitað í bílum og ætla sko EKKI að leita að honum. 

Svo mörg voru þau orð. Önnur saga svipuð átti sér stað. Kona nokkur skaust í búð til að versla. Hún ætlaði að vera eldsnögg, sem hún var. Rauk inn, verslaði, rauk út aftur og settist inn í bílinn sinn. Henni gengur eitthvað illa að koma lyklinum í svissinn og skilur ekkert í þessu. Þá heyrist allt í einu úr aftursætinu: "Ætlar þú að láta mömmu og pabba borga peninga til að fá okkur til baka þegar þú ert búin að  ræna okkur?" Konugarminum bregður illa við og lítur í aftursætið. Þar sitja tvö börn, ekki hennar eigin, enda voru þau heima. Hún tautar eitthvað, rýkur út úr bílnum. Finnur sinn bíl og ekur reykspólandi, á tveimur dekkjum, í burtu í þeirri von að aldrei þurfi hún að sjá þessi börn framar.

Árin líða. Nærri fimmtán árum síðar kemur heimasætan á bænum með ungan mann í heimsókn. "Mamma, mig langar að kynna þig fyrir honum Guðjóni." Ungi maðurinn stígur fram, heilsar og fer að brosa. "Þú er konan sem ætlaði að ræna mér og systur minni fyrir mörgum árum af bílastæði. Ég hef oft hugsað til þín síðan." Segið svo að heimurinn sé ekki smár. 


Ofurkonan á útopnu

Þótt krónan sé á floti og allt á floti alls staðar þarf hin íslenska ofurkona enn að standa sig. Ég er ein af þeim. Allt þarf að vera í lagi. Heimilið spikk og span, frúin flott dressuð, vel máluð, í mörgum vinnum og stærri félagsmálapakka. Auðvitað getur þetta verið ögn erfitt og oft snýst ofurkonan í hringi og veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Á dögunum var ofurkonan að fara á fund í veiðifélaginu. Hún var einnig að gera slátur, hakka kjöt og úrbeina skrokka. Tíminn flaug hratt. Shitt nú varð hún að rjúka til að gera sig klára fyrir fundinn. Enginn tími til að fara í sturtu, bara hrúga slatta af froðu í hárið, þvo af sér mesta slorið og fara í önnur föt. Meðan ofurkonan er að reyna að setja á sig einhverja augnmálningu kallar náttúran svo hún verður að setjast á postulínið. Rétt síðar, meðan athöfnin er enn í fullum gangi heyrir hún gengið upp tröppurnar. Gefur sér að það sé einhver heimamaðurinn svo hún kallar. "Komdu bara inn, ég sit á kamrinum."

Eitthvert uml heyrist við dyrnar sem opnast. Salernið er inn af forstofunni. Ofurkonan rífur upp buxnagarmana í snatri og vindur sér fram með annað augað málað, hitt fölleitt og baugarnir enn sýnilegir þeim megin. Rétt skolar af puttunum, það má aldrei gleyma hreinlætinu. Olnbogarnir út úr gömlu lopapeysunni, buxurnar nærri uppi og slummur af mör fastar í snjáðu joggingbuxunum. Hana rekur í rokastans þegar fram í forstofuna kemur.

"Ég ætlaði bara að sækja um stöðu organistans hér í sókninni," stamar aumingja maðurinn sem stendur frami í forstofunni og fitlar við stórt brún umslag í vandræðagangi sínum, "en kannski ég komi bara síðar, eða sleppi því að sækja um." það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera ofurkona.


Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband