Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 28. janúar 2012
Af hverju?
Eitt sinn sagði frómur maður, héraðshöfðingi, að honum findist flokkspólitík þvælast fyrir framfaramálum í héraði. Þar gerði hún einungis ógagn. Yrði til þess að menn ynnu ekki saman að vexti og viðgangi síns heimaranns.
Í núinu þarf að stuðla að vexti og viðgangi Íslands. Vert er að velta fyrir sér hvort flokkspólitík sé að þvælast fyrir þeim uppgangi sem nauðsynlegur er. Myndu þeir 63 fulltrúar sem kjósendur völdu á Alþingi vinna betur og öðruvísi saman ef eingin flokkspólitík væri í spilinu? Væri ekki hægt að leggja henni alla vega á meðan rétt er úr kútnum?
Ef hlustað er á umræður í þinginu virðist oft að fólk sé sammála en flokkspólitíkin þvælist fyrir. Ekki er hægt að styðja gott mál af því að frummælandi er úr öðrum flokki. Ef staðan er heimfærð á fyrirtæki er þetta næstum eins og að segja að fjármálastjórinn og bókarinn geti ekki verið sammála því annar er í rauðri skyrtu en hinn blárri.
Í raunveruleikanum tala menn sig niður á lausnir. Ef virkilegur áhugi er fyrir því að vinna vel, horfa vítt yfir sviðið, taka inn alla möguleika sem mannlegur hugur getur látið sér detta í hug, þá finnst lausn. Litur skyrtunnar skiptir þá engu máli.
Laugardagur, 28. janúar 2012
Úr vöndu að ráða
Umræða hefur verið um mannkosti þeirra einstaklinga er sitja á Alþingi. Þá vaknar spurningin um hver valdi fólkið sem þar situr? Jú, það voru kjósendur. Þeir höfðu val. Eru þeir þá sekir um að hafa valið gjörónýtt fólk? Eru þá kjósendur ekki í stakk búnir til að velja? þetta er ekki alveg svona einfalt. Til að hafa val verður að vera eitthvert úrval til að velja úr.
Skorað er á einstakling að stíga á stokk, bjóða sig fram til ábyrgðarstöðu. Eða þá að hann ákveður sjálfur að hann vilji gefa sig til starfans. Oft fer fram forval áður en endalegur listi er ákveðinn. Aftur koma kjósendur við sögu. Eru þeir þá sekir um að hafa valið vitlaust? Enn er svarið ekki einfalt. Til að vekja á sér athygli þarf oft mikið að peningum. Sá næst besti, eða þriðji besti hefur kannski betra aðgengi að fjármagni en sá besti. Í upplýsinga- og auglýsingasamfélaginu skiptir það lykilmáli. Stundum vita kjósendur ekki af þeim besta því hann er ekki eins loðinn um lófana og sá er aftar er. Ekki gott.
Í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur verið, þá mega kjósendur ekki gera sig seka um að nota sitt gullfiskaminni þegar kemur að næstu kosningum. Ef almenningur er óánægður, verður hann að muna það, þegar kosið verður næst. Ekki hugsa, "ÉG kýs bara það sem ég er vön/vanur, það er ekkert skárra í boði."
Það er hins vegar grátlegt að erfitt virðist að kjósa fólk eftir mannkostum. Það er kosið eftir flokkslínum. Það er líka grátlegt að þrátt fyrir að allir segist vilja landinu vel, þá stendur flokkspólitík í veginum fyrir því að fólk vinni saman. Það er auðvitað ekkert vit.
Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Þetta með traustið
Mikið hefur verið rætt um að fólk treysti ekki lengur. Treysti ekki Alþingi, ekki stjórnmálamönnum, ekki stjórnendum almennt. Kannski eru það réttmætar vangaveltur. Lítum ögn til baka. Á Íslandi varð hrun. Við áttum útblásna banka sem duttu með andlitið á kaf í drullupoll. Ríkið tók þá yfir, seldi suma aftur, í orði kveðnu. Hverjir eiga hvað, er ekki alveg vitað.
Ef rétt hefði verið haldið á málum hefðu allir sem einhverja ábyrgð báru í peningastofnun, átt fá pokann sinn. Þá hefðum við e.t.v. haft raust á bönkunum. Fengið á tilfinninguna að yfirmönnum samfélagsins væri í mun að endurreisa tiltrú á bankakerfið. Svo einfalt er það. Á meðan var lag var ekkert gert til að hreinsa til. Það voru þeir sem valdið hafa, stjórnmálamenn, sem pissuðu í skóinn sinn. Þeir brugðust okkur. Þar af leiðandi er þeim ekki heldur treystandi og þeir virðast ekki skilja að við eigum í býsna miklu basli.
Fullt af fólki hefur ekkert gert annað af sér en að borga, borga og borga með það að mottói að standa í skilum. Því hefur verið stillt upp fyrir framan aftökusveitina. Allur meirihluti fólks vil standa sína plikt, vill greiða til baka það sem það fékk lánað. Það vill líka semja þegar útlit er fyrir vandræði og minni greiðslugetu. En slíkt virðist ekki vera í boði á sumum bæjum. Valið virðist vera, borga eða tapa, jafnvel því sem alla ævi hefur verið stritað fyrir að eignast. Er það réttlæti?
Laugardagur, 27. nóvember 2010
Sætin skipta máli
Smá misskilnings hefur gætt meðal kjósenda sem sumir hverjir halda að það skipti ekki máli í hvaða sæti þeir setja þá sem þeir vilja kjósa, allir fái sama vægi. Þetta er ekki rétt. Sá sem þú vilt helst að komist inn, þarf að vera efstur á listanum þínum. Það skiptir máli. Hins vegar til að nota atkvæðið þitt sem best er ekki verra að skrifa niður fleiri númer. Sá sem er efstur er kannski þegar öruggur inn, þegar kemur að þínum seðli í talningunni, þá færist atkvæðið þitt á næsta númer fyrir neðan og síðan koll af kolli. Verið gæti líka að sá sem er efstur hjá þér, eigi enga von, þá færist atkvæðið þitt líka á þann næsta.
Gæta verður að því að skrifa í hverja línu. Ef ein línan er auð eru þau númer þar á eftir ógild. Ef fólk er í vafa er best að setja bara eitt númer og bendi ég í því sambandi á mitt, 4195. Það er nokkuð gott.
Hvernig sem allt veltist er nauðsynlegt að fólk mæti á kjörstað og kjósi.
Fimmtudagur, 25. nóvember 2010
Af hverju ætti ég eiginlega að kjósa?
Þetta er sú spurning sem margir hafa spurt mig að undanförnu. Svar mitt við því er í nokkrum liðum.
Það tók okkur langan tíma að öðlast kosningarétt að nýju. Í langan tíma réðu Íslendingar engu um það hverjir færu hér með völd. Hvað þeir gerðu eða hvernig umhverfi okkur var boðið upp á. Við urðum bara að kyngja því sem aðrir þröngvuðu upp á okkur. Það var mikill sigur að öðlast þennan dýrmæta rétt að fá að segja skoðun sína með atkvæði sínu. Við eigum því að kjósa.
Nú er verið að prufukeyra persónukosningar. Það væri slæmt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, ef þátttaka yrði svo lítil að enginn reynsla kæmi á þessa framkvæmd. Þegar við sem landsbyggðina byggjum segjum svo síðar að frekar en að landið verði eitt kjördæmi eða kjördæmin stækkuð enn frekar, viljum við persónukosningar, þá munu stjórnvöld nota dræma þátttöku nú til að blása það af. Mætum því á kjörstað.
Reyndar er ég örlítið smeik við persónukjör, almennt, nema reglur séu strangar um auglýsingar. Persónukjör getur nefnilega boðið upp á þær aðstæður að sá sem hefur mest fé, handa á milli, komi sér best á framfæri. Það væri mjög óréttlát gagnvart öðrum. Með ákvæðum um hámarks upphæð í auglýsingar væri hins vegar hægt að reyna að setja fyrir þann leka. Í dag er hægt að auglýsa sig án mikils tilkostnaðar. Það tekur frekar tíma en fé.
Margir frambjóðendur tala um að landið eigi að vera eitt kjördæmi. Eins og það er sett upp hjá flestum hugnast mér sú hugmynd ekki. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvernig landsbyggðin kæmi út úr því. Við fengjum engan mann kjörinn, það er ekki flókið.
Landsmenn góðir. Notum þennan dýrmæta rétt sem við höfum. Mætum á kjörstað, þótt fólk skili auðu er það betra en að sitja heima. Þetta er verðmætasti réttur hverrar sjálfstæðar þjóðar. Hann á að nota.
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Breyting á stjórnarskránni núna
Hvort þetta er endilega rétti tíminn til að breyta stjórnarskránni skal ég ekki um segja og því síður að ég hafi einhverja töfraformúlu á því hvenær æskilegt er að endurskoðun fari fram. Margir telja að besti tíminn sé einmitt núna vegna hrunsins og þess ástands sem hefur ríkt í þjóðfélaginu. Að mínu viti þarf það ekki að vera svo. Ástandið gæti meira að segja truflað sýn fólks þannig að skammtímahagsmunir verði yfirgnæfandi og það væri mjög slæmt ef slíkt ætti sér stað.
Hins vegar er búið að eyða töluverðu fjármagni í allan þennan undirbúning. Það væri afar heimskulegt að láta þá peninga fara í súginn með því að hætta við núna. Sú hagsýni sem mér var innrætt í foreldrahúsum segir mér að betra sé að halda áfram en hætta við, þó ekki væri nema vegna peningana.
Breytingar eiga ekki að verða breytinganna vegna. Það verður að vera ástæða fyrir þeim og þær að leiða til einhvers betra. Sumu vil ég ekki breyta, annað er vert að endurskoða, eins og sjá má í öðrum pistlum. Stjórnarskráin á að vera gangorð og á auðskildu máli. Ekki plagg upp á fimm þúsund blaðsíður, sem enginn skilur nema lögfróðir aðilar. Hún þarf að vera hryggjarstykki löggjafarinnar, handhæg öllum og eins tímalaus og auðið er.
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Framsala á valdi
Margir hafa áhyggjur af undirbúningsvinnu stjórnvalda vegna inngöngu í ESB eða Evrópusambandið. Það er alveg skiljanlegt, sérstaklega er að sjá að slík innganga myndi ekki gera landsbyggðinni og landbúnaðarframleiðslu neinn greiða. Verst er að þótt allir telji sig vera víðsýna og gera það sem best er fyrir komandi kynslóðir, eða við trúum því að svo sé, þá er erfitt að vera spámaður. Auðveldast er að vera vitur eftir á.
Árið 1262 undirrituðu Íslendingar samning við Noregskonung um framsölu á valdi til hans. Sú undirritun átti sér nokkra forsögu. Reikna má með að landinn hafi verið orðinn langþreyttur á eilífum erjum, eignarupptöku, stríðum og manndrápum. Yfirgangi valdastéttar og fégráðugra manna sem sölsuðu til sín eignir og völd. Öldin á undan, Sturlungaöldin, bauð sannarlega upp á allt þetta. Einnig var þjóðfélagið í raun að liðast í sundur þar sem enginn einn valdhafi hélt þjóðinni saman. Kannski var því von að menn gripu til þessa ráðs.
Margt er sammerkt þessu í nútímanum. Við höfum búið við langvarandi styrjaldir þótt á annan veg sé. Engir hausar hafa flogið í eiginlegri merkingu, en menn hafa verið að sölsa til sín eignir og völd. Segja má að skiljanlegt sé að einhverjir horfi annað í von um betri tíð með blóm í haga.
En rétt eins og forðum er hægt að spyrja. Hversu vel mun það reynast að framselja valdið til annarra? Hversu vel mun það koma okkur, eyþjóð langt norður í höfum, að treysta öðrum fyrir okkar málum. Einhverjum sem ekki hefur búið og lifað hér og reynt það á eigin skinni? Ég held að best fari á því að við sjáum um okkur sjálf. Til að tryggja að svo verði er nauðsynlegt að setja varnagla í næstu stjórnarskrá þess eðlis að framsala valds sé óheimil nema það sé borið undir þjóðaratkvæði og jafnvel að aukin meirihluti þjóðarinnar þurfi að samþykkja. Á þann hátt væri sem best tryggt að engar fljótfærnislegar ákvarðanir yrðu teknar.
Við höfum reynsluna, söguna til að læra af. Gerum ekki sömu mistökin og áttu sér stað 1262 og voru staðfest með einveldisyfirlýsingunni í Kópavogi 1662. Sagan er til að læra af henni.
Miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Hlunnindi, auðlindir, eignarréttur
Í tengslum við komandi Stjórnlagaþing hefur orðið auðlindir oft borið á góma. Áður en lengra er haldið í þeirri umræðu er nauðsynlegt að skilgreina orðið auðlind og hvað fellur undir þá skilgreiningu. Jafnframt að velta því fyrir sér hvað séu hlunnindi. Er heita laugin í túnfæti bóndans hlunnindi eða auðlind? Er laxveiðiáin hlunnindi eða auðlind?
Gjarnan hefur Íslendingum þótt lítið merkilegt að eiga nóg af hreinu, köldu vatni og margir umgengist það sem óþrjótandi auðlind. En er það svo? Þegar hitastig heimsins rís og mengunarvöldum fjölgar gæti sú staða komið upp og er víða komin, að dýrmætasta auðlindin sé ómengað vatn. Vatn sem rennur um eignarlönd, hver á það? Af þessum fátæklegu dæmum sést að nauðsynlegt er að skilgreina þessi hugtök.
Nauðsynlegt er að eignarrétturinn sé friðhelgur. Hann er undirstaða velferðar og þess samfélags sem við nú lifum í og mun að líkindum verða áfram. Því er einnig nauðsyn að skilgreina hugtakið þjóðareign og hver getur verið handhafi hennar. Að því loknu er hægt að ákvarða hvaða auðlindir falla undir þjóðareign og hverjar ekki.
Miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Það vel skal vanda er lengi á að standa
Stjórnarskrá hvers ríkis er hryggjarstykki löggjafarinnar og þarf því að vera auðskilin og gagnorð en um leið leiðbeinandi fyrir alla, almenning jafnt sem löggjafa. Réttindi lands og lýðs þurfa að vera tryggð á óyggjandi hátt.
Er endurskoða skal stjórnarskrá er brýnt að til þess verkefnis séu kallaðir fulltrúar úr öllum landshlutum, starfsstéttum og þjóðfélagshópum, sé þess nokkur kostur. Stundarhagsmunir og aðstæður mega ekki stýra gjörðum manna í þeirri vinnu.
Stjórnarskrá þarf að tryggja öllum mönnum félagslegt öryggi, frelsi til orða og athafna og jafnrétti á öllum sviðum. Það er margt í núverandi stjórnarskrá sem staðist hefur tímans tönn en einnig ýmislegt sem þörf er á að endurskoða. Nauðsynlegt er að vera þess meðvitaður að missa sig ekki í að breyta, breytinganna vegna.
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru