Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?

Í flestum Vestrænum ríkjum er lýðræði stjórnarfyrirkomulagið. Það eru haldnar kosningar og sá sem flest atkvæði hlýtur, er sigurvegari. Það er allt gott og blessað. 

Svo kemur að því að taka ákvarðanir, þær sem e.t.v. mestu máli skipta í raun. Þar hefur því miður orðið reyndin sú að lýðræðið virkar ekki nógu vel. Minnihlutinn kúgar æði oft meirihlutann. 

Nokkur dæmi sem eru sláandi frá liðnum vikum. Umræðan um íslenskar vörur. Þeir sem ég hef talað við eru allir á því að við eigum að standa vörð um okkar eigin vörur og framleiðsu. Auðvitað ræður buddan því miður oft því sem við kaupum inn, svo stundum er ekki nóg að vilja kaupa íslenskt, en það breytir ekki þeirri staðreynd að Íslendingar vilja allflestir kaupa innlenda framleiðslu. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Mjólkin hækkaði um daginn. Allflestir hafa skilning á því að bændur þurfa líka að fá laun. Allflestir vilja líka vera þess umkomnir að kaupa innlendar landbúnaðarvörur. Ég myndi telja að aukin meirihluti vildi það. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Og af hverju mátti mjólkin ekki hækka? Fáir segja neitt ef vatnið, sem við getum fengið frítt úr krananum, hækkar um einhverjar krónur, við kaupum það samt. Er ekki eitthvað öfugsnúið við það? 

Þjóðkirkjan er annað dæmi. Hjá mjög mörgum er hún hluti af stóru stundum lífsins, bæði gleði og sorg. Oft er leitað til presta þegar einhver hefur misst ástvin eða þegar fjölskyldumeðlimur lendir í alvarlegu slysi. Einnig vilja margir láta skíra börnin sín og gifta sig í kirkju. En af hverju heyrist þá bara í hinum?

Ég held að svarið geti legið í því að fólk nennir ekki að taka slaginn eða eiga í þrasi við náungann. Öll umræðan minnir þó töluvert á þegar krakkar bera við að ALLIR segi eitthvað. Sem oft fyrr heyrist mest í fámennum, háværum hópi. Sem þýðir að enn og aftur er minnihlutinn að kúga meirihlutann og það er sannarlega ekki samkvæmt leikreglum lýðræðisins. Eigum við að hafa þetta svona áfram eða er tími til kominn fyrir meirihlutann að láta svona almennt í sér heyra? Ég held það, þess vegna varð þessi pistill til.  


Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því

Fyrir allnokkrum árum fór ég á ráðstefnu í Torino á Ítalíu. Einn fyrirlesturinn fjallaði um vatn og reyndar var þemað vatn. Sá fyrirlestur sem hafði mest áhrif á mig og situr enn í minningunni fjallaði um neysluvatn í Evrópu og ástandið í þeim málum. "Meira að segja fjallaþjóðirnar Austurríki og Sviss hefðu ekki lengur hreint vatn í lækjum og ám til að nota," sagði fyrirlesarinn, "heldur verða þessar þjóðir að treysta á hreinsað vatn. Mengunin er svo mikil." Þar sem ég var í hlutverki blaðamanns á þessari ráðstefnu langaði mig að vita meira, ekki síst vegna þess að ég var mjög slegin yfir þessum tíðindum um Alpalöndin sem ekki ættu lengur tæra fjallalæki sem hægt væri að dýfa lófa niður í og drekka vatnið. Því óskaði ég eftir að fá að ræða fyrir fyrirlesarann, eftir að hann hafði lokið erindi sínu.

Ég gekk að honum og spurði hvort hann ætti mínútu eða tvær því mig langaði til að spyrja hann aðeins. Hann svaraði með annarri spurningu. "Þessi hreimur.... hvaðan ertu?" Þegar ég sagðist vera frá Íslandi sagði hann: "Ísland, Ísland. Auðugasta land í heimi en veit ekki af því. Auðugusta land í heimi því enn geta Íslendingar lagst á magann úti í náttúrunni og drukkið hreint vatn úr næsta læk. Auðugasta land í heimi því enn geta Íslendingar rekið búfénað sinn í fjalllendi og þurfa ekki að vera með stíubúskap því skepnur eiga aðgang að hreinu, ómenguðu vatni. Auðugasta land í heimi, því allar afurðir byggja á vatni, allt líf byggir á vatni og það er að mínu mati, ómegaðast á Íslandi af öllum stöðum. Ennn þið, Íslendingar, þið vitið ekki af því og það er sorglegast. Hefur þú velt því fyrir þér af hverju coca cola smakkast öðruvísi á Íslandi en annarsstaðar? Það er út af vatninu."

Enn þann dag í dag, er ég hugsi yfir þessum orðum. Líklega mest vegna þess að ég, Íslendingurinn hafði ekkert gert mér grein fyrir þessu og tel að svo sé um fleiri.

Ég er einnig hugsi yfir þeirri orðræðu sem hefur gengið yfir að það þurfi að hætta stuðningi við landbúnað af því að það sé svo dýrt og að íslenskar afurðir séu dýrar. Eftir þeim fábreyttu athugnum sem ég hef gert er stuðingur við landbúnað á Íslandi, síst meiri en í öðrum löndum og ef dreifbýlið trúir á eigin tilvist, mátt og megin á þar sannarlega að geta þrifist þrifist blómlegt mannlíf. 

Er ekki tími til kominn að við hættum að rífa niður eigin framleiðslu, neytum þess sem við framleiðum sjálf með hinn frábæra liðsmann í okkar liði, hreina íslenska vatnið. Samkvæmt því sem fyrirlesarinn/prófessorinn sagði í Toríno 2008, erum við auðugasta þjóð í heimi, með gríðarlega möguleika og ég trúi því.  


Minnisvarði Landsbankans

Fyrir nokkru barst sú fregn að Landsbankinn eða forráðamenn hans hygðust byggja stórt og mikið hús, eiginlega glerhýsi, sagði sagan og ekki lýgur Gróa gamla á Leiti. Á sama tíma og raunar mikið fyrr og lengur er talað um vanda Landsspítalans, húsnæðisskort hans og í reynd skort á öllum sviðum. 

Almenningur brást fremur ókvæða við þessum fyrirætlunum Landsbankans, enda eins og nafnið ber með sér, banki landsins svo fólki finnst sér koma málið við. Nú er e.t.v. úr vöndu að ráða, eða hvað? Landsbankinn myndi reisa sér verðugan minnisvarða ef hann ákveddi að hætta við að byggja sér höll til dýrðar Mammoni en myndi venda sínu kvæði í kross og byggja fremur til dýrðar Demeter, gyðu heilbrigðis og þar með hentugt hús fyrir Landsspítalann. Þá myndi allir vilja Lilju kveðið hafa, lofa forráðamenn bankans í hástert fyrir framúrskarandi ákvörðun og ótrúlega skynsemi. 


Ferðamenn og hagsýni

Hvað gerir hin hagsýna húsmóðir er hún á von á gestum? Flestir vita svarið. Hún undirbýr gestakomuna eins og hún helst kýs og ef til vill eftir þeim hópi sem hún er að taka á móti.

Ef í gestahópnum eru börn er ekkert ólíklegt að húsmóðirin setji upp varnir til að aftra því að börnin fari sér á voða. Ef gestirnir eru fótafúnir er allt eins líklegt að hún reyni að sjá til þess að þeir komist samt þokkalega leiðar sinnar. Allt sem eitt vill hún stuðla að því að gestum hennar líði vel og þeir hafi áhuga á því að koma aftur. Ef henni hugnast þeir illa, gæti húsmóðirin freistast til að hugsa: "komdu sem oftast, það er svo gaman þegar þú ferð," sem er þó harla ólíklegt því alla jafna eru gestir velkomnir. Eða hvað?

Íslendingar hafa þótt gestristnir. Í gamla daga tók fólk gjarnan á móti gestum heima hjá sér og var ýmist að þeir gerðu boð á undan sér eða ekki. Enn tökum við á móti gestum heima hjá okkur, ekki síst í dreifbýlinu, hvort sem þeir gera boð á undan sér eða ekki, kannski af því að við eigum fá kaffihús í sveitinni til að hittast á.

Íslendingar hafa einnig verið hreyknir af landinu sínu og langað til að sýna það ÖLLUM. Endilega fá fleiri ferðamenn hingað, alveg endilega. Þá græðum við meira. Og svo gerðist undrið, heimurinn uppgötvaði Ísland. Eyju lengst norður í ballarhafi þar sem efnahagsástandið var þannig að ódýrt var að koma og dvelja. Ekki síst af því að eyjakeggjar eru sinnulausir svo þar er hægt að vaða yfir allt, án greiðslu. Hægt er að fara á salerni á öllum stöðum, án greiðslu, hægt er að skoða sum af merkustu undrum veraldar, án greiðslu, hægt er að taka með sér nesti, eldsneyti, gista utan skipulagðra svæða, bara allt án greiðslu. Er nema vona að fólk flykkist til Íslands!!!
Okkur fannst þetta allt í lagi. Við horfðum bara á tölurnar, tölur gesta. Okkur fannst allt í lagi þótt ferðamenn gæfu skít í okkur á leið sinni um landið, þar til...
þar til við fórum að sjá vörðuð tjaldstæði á óhefðbundnum stöðum. Brúna hrauka með hvítum kolli. Nú vöðum við í þeirra skít.

Þar til að svæðin umhverfis ýmsar náttúruperlur okkar urðu svo úttröðkuð að þar verður bara for í nánustu framtíð. Við gleymdum nefnilega einu. Við búum á eyju, norður undir heimskautsbaug þar sem allur gróður er lengi að ná sér á strik, verði hann eyðilagður og þar sem allt brotnar hægt niður, líka vörðurnar með hvítu kollunum.
Í langan tíma höfum við amast við sauðkindinni, sem við rekum þó sjálf á fjall og á beit og stýrum hvar henni er sleppt. Dásemdin ríður ekki við einteyming. Rollu-ræflinum er allt lagt til lasta en ferðamenn, sem ekki skila einu sinni eftir sig neitt nema úrgang, þeir eru lofaðir í hástert. Við eigum fáa okkar líka.

Sjálfir fara Íslendingar til útlanda. Þar borga þeir fyrir að komast á klósett, að horfa á fallega staði, að gista, að kaupa sér að borða og það sem meira er, finnst það alveg sjálfsagt. Athyglisvert.
Hin hagsýna húsmóðir undirbýr gestakomur sínar. Hún býr þannig um hnútana að gestunum líði vel og allir hafi eitthvað út úr samfundinum, bæði gestir og gestgjafar.
Hættum þessum tvískinnungi. Undirbúum komu gesta. Tökum leppana frá augunum og rukkum fyrir aðgang að salernum og náttúruperslum. Ég skora á vin minn Kristberg í Baulunni að taka upp klósettgjald, alla vega fyrir þá sem ekkert versla, og fleiri sem eru í svipaðri starfsemi.
Ég vona að satt sé að Snorri sé byrjaður að taka klósettgjald við Hraunfossa. Ég gleðst einnig yfir framkvæmdum við Deildartunguhver. Þangað hef ég í ótal ár farið með ferðamenn, einkum erlenda, og alltaf fundist dapurt að þar sé ekkert rukkað. Ég hef verið þar á sama tíma og annað hundrað manns, sem horfa á vatnsmesta hver í Evrópu og spyrja flestir, hvar á að borga???

Notum síðan aurana sem koma inn til að byggja upp í kringum þessi einstöku svæði okkar. Ráðum fólk til að sjá um salerni við Grábrók, við Paradísarlaut, við Surtshelli, við Bæjargilið í Húsafelli við við við. Og við þurfum ekkert sífellt að vera að byggja upp. Við þurfum í raun ekkert endilega strax jarðböð, eða eitthvað annað því Borgfirðingar eiga eitt fjölbreyttasta náttúruval á Íslandi. Við höfum fossa, hraun, laxveiðiár, hella, gróin tún og úfna sanda. Nú þegar eigum við nóg af fjölbreyttri náttúru sem selur sig sjálf, ef við höldum rétt á málum.

Ef við viljum bjóða gestum heim, fetum við í fótspor hinnar hagsýnu húsmóður og undirbúum gestakomur, ef við viljum það ekki, lokum við og förum að heiman.


Hvað má borða og hvað ekki

Fyrir ríflega tuttugu árum greindist kunningi minn með of háa blóðfitu. Viðkomandi var enn á léttasta skeiði svo við vandanum átti að bregðast með breyttu mataræði. Það var gert. Öll nýmjólk tekin úr fæðunni, smjör, rjómi, innmatur, eggjarauður, hert fita, majones, rækjur urðu fátíðar.......... og fleira og fleira. Húsmóðirin á bænum sá bara um þetta og viti menn, allt fór til betri vegar. Blóðfitan lækkaði og allir voru sáttir.

 Fátt segir af þessu um skeið. Svo aulast húsmóðirin til að fara í nám á heilbrigðissviði, einhverjum árum síðar. Þar var meðal annars kennd næringarfræði. Á þeirri vegferð kemur í ljós að ákveðin bætiefni séu betri en önnur fyrir þá sem eru með of háa blóðfitu og ekki síst þá sem eru í áhættu að fita safnist inn á slagæðar og þær harðni af þeim orsökum. En þetta bætiefni er einmitt algengast í þeim matvælum sem ekki má borða, hafi einhver of háa blóðfitu. Þetta var nokkuð merkilegt. 

Árin líða áfram. Ríflega tíu árum eftir fyrsta úrskurð um of háa blóðfitu eru sumar af þeim fæðutegundum sem í upphafi bannaðar allt í einu orðnar leyfilegar og jafnvel nauðsynlegar til eðlilegs viðhalds og þroska. Og það sem meira er. Nú er talið að ekkert sé öruggt um samhengi milli þess að borða kólesterol og þess að hafa of mikið af því. Frábært.

Á tímabili og er kannski enn var fita það óhollasta sem nokkur maður gat látið ofan í sig.  Enginn átti/mátti borða fitu. Hvorki í fiski, kjöti eða mjólkurafurðum. Feitur fiskur átti undir högg að sækja og hið sama gilti um kjöt. Ekki var lengur flott í bændastétt að eiga þyngsta dilkinn. Það þýddi einfaldlega að viðkomandi skrokkur var fitubolla sem yrði verðfelldur. Kjúklinga- og svínakjöt varð vinsælla því það er ekki eins fituríkt. Það var bara gott mál, fjölbreytni mátti alveg aukast. En út úr öllu þessu fituleysistali kemur það að nú vantar fólk fitu. Líkaminn vinnur ekki sem skyldi, án hennar. Það þarf að taka inn Omega fitusýrur, hörfræsolíu, aðra olíu og enn aðra olíu...... og og og.

Fáir taka orðið lýsi sem innihélt hér áður fyrr, áður en það varð of hreinsað mikið, nauðsynleg fituvitamín. Og svo er D-vítamínskortur orðin staðreynd. Bæði af því að við tökum það ekki inn í fæðunni, eins og var, með feitum fiski og lýsi og einnig hinu að allri bera á sig orðið svo mikið af sólarvörn, af illri nauðsyn, svo að sólin nær e.t.v. ekki að hjálpa húðinni við að vinna þetta lífsnauðsynlega vítamín. 

Í öllu fitutalinu var hins vegar lítið talað um annað hvítt efni, sem er líklega óhollast af öllu, hvíti sykurinn. Á meðan allir kepptust við að losa fituna úr öllu sem hægt var, bættist jafnmikið eða meira af sykri við. Árangurinn lét ekki á sér standa. Íslendingar eru að verða feitasta þjóð í heimi. 

Það er líka merkilegt að fólk vill frekar kaupa gos sem kostar ja líklega um 150-200 krónur líterinn heldur en mjólk sem kostar töluvert minna. Af þessu tvennu er mjólkin líklega hollari fyrir flesta. Hún má hins vegar ekkert kosta. 

Í dag er eitt óhollt á morgun er það hið besta sem hægt er láta ofan í sig. Næring í duftformi er orðin algeng. En til hvers vorum við þá útbúin með tennur, munnvatn, magasýrur, gall og fleiri meltingarvökva? Upp á ensku er stundum sagt, if you don't use it, you lose it. Ef við erum bara í söfum, dufti og mauki, hvað verður þá um tennur, meltingarvökva og þarma?

Það er ekki nema von að fólk sé ráðvillt. Sífellt verið að breyta því sem má og ekki má. Öfgarnir eru einnig miklir. Það er hoppað á milli enda með lítilli viðkomu í miðjunni. Annað hvort er eitthvað al-slæmt og rétt síðar al-gott.Ætli þetta sé hollt eða óhollt í dag?

Fyrir flesta er meðalhófið best. Notum eigið hyggjuvit. Það dugar yfirleitt best. 


Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

336 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband