Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
Sunnudagur, 5. febrúar 2012
Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
Það er ekki boðlegt á 21. öld að heilt byggðarlag á Íslandi sé án vegasamgangna. Í sögum er sagt frá afskekktum byggðum landsins þar sem ekki var hægt að komast. Menn reyndu þó, þótt fararskjótar væru kannski þarfasti þjónninn eða tveir jafnfljótir.
Þegar það hentar okkur notum við höfðatölu sem skrautfjöður. Það á ekki við hér. Það er greinilegt að röng spil hafa verið valin úr stokknum eða vitlaust gefið þegar kemur að ákvarðanatöku um vegamál. Spurningin er ekki einungis um það að íbúarnir komist í burtu, fólk verður líka að komast á staðinn, vitja eigna sinna og geta ferðast.
Hvað ef slys hendir eða kona lendir í barnsnauð? Landsbyggðarfólk þarf að standa saman og brjótast undan þessu misrétti. Það eiga ekki að vera réttindi fárra að komast leiðar sinnar, alla jafna. Samgöngur hvort sem um er að ræða vegi, síma eða nettengingar eiga vera sjálfsagður hluti af grunnþjónustunni, jafnt skipt á alla landsmenn
Krefjast aðgerða strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 5. febrúar 2012
Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
Ég hef stundum verið að skoða ættir mínar að gamni mínu, alltaf fróðlegt að sjá og finna út hverjum maður er skyldur. Í því samhengi hef ég ögn verið að hugsa um snobb og hvernig það er tilkomið hjá fólki. Af hverju verður fólk snobbað og hvað er það sem gefur því rétt til að vera það? Við þessu er ekkert einhlýtt svar og margt sem hangir á þeirri spýtu.
Ég hef einfalda skoðun á fólki, það er einfaldlega fólk. Sumir eru góðar og ærlegar manneskjur aðrir ekki. Að mínu viti á að snobba fyrir þeim fyrrnefndu, en láta hina eiga sig. En svona einföld skilgreining er ekki endilega viðtekin venja og því síður rétt eða sönn.
Sem dæmi var í gamla daga oft snobbað fyrir prestinum. Hann gegndi merkilegra embætti en sauðsvartur almúginn, eins og stundum var sagt. Hann hafði menntun sem flestir í hans umhverfi voru án. En var hann eitthvað merkilegri manneskja? Það er ekkert víst. Við höfum flest heyrt sögur af prestum sem voru mestu fúlmenni og misnotuðu aðstöðu sína. Mér finnst að svona manneskjur séu nú ekki verið mikið til að snobba fyrir.
Síðan var snobbað fyrir hreppsstjóranum eða oddvitanum. Oft af því að þeir voru fulltrúar hins veraldlega valds og höfðu afkomu og líðan marga í hendi sinni. Það var kannski óttasnobb. Margir þeirra voru hinu sama marki brenndir og prestarnir og sömu sögu má segja um sýslumenn. En samt er það talið flott að hafa þennan flokk manna í ættum sínum.
Hér áður fyrr var það svo að ekkert var sjálfgefið að sá gáfaðisti í hverri sveit færi til mennta. Það fór eftir peningaeign hverrar fjölskyldu. Þeir sem höfðu ráð á að mennta sig, fengu líka oft embætti sem ómenntaðir fengu ekki. Fóruutan, urðu sigldir, tóku upp ættarnafn-dal,-sen eða -son. Urðu ekkert endilega betri manneskjur en fengu embætti, öðluðust völd.
Eins og áður segir hafði það ekkert að gera með gáfur viðkomandi hvort hann komst til embættist eða ekki. Margir hafa lesið frásagnir um gáfaða alþýðumenn er aldrei höfðu tök á því að ganga menntaveginn en lærðu tungumál, grasafræði og eitt og annað, bara af bókum, án þess að taka próf. Margt af þessu fólki var fátækt og reyndi aldrei neitt annað. Mátti þá ekki alveg eins snobba fyrir því?
Eftir þessar hugleiðingar kemst ég að sömu niðurstöðu, enn og aftur. Ef þarf að snobba eða vera snobbaður, verður að vera inneign fyrir því, óháð menntun. Ekki lifa á fornri frægð, jafnvel vafasamri. Vera snobbaður af því að langalangalangafi var hreppstjóri eða Sen.
Það eru þeir ættingjar sem hafa gengið sannleikans veg, verið góðar og gegnar manneskjur sem maður á að vera hreyknastur af. Hina sem eru undirförulir, lævísir og svikulir, en hafa kannski gífurlega menntun, á maður bara að láta liggja milli hluta. Maður velur sér jú bara vini, ekki ættingja.
Með snobb kveðjum úr Borgarfirðinum
Sunnudagur, 5. febrúar 2012
Danir eru snjallir markaðsmenn
Það sagði maður einn við mig í dag að ef ég þyrfti að selja eitthvað skyldi ég ráða Dani í sölustörfin, þeir gætu selt allt. Skoðun sína byggði hann á persónulegri reynslu sem hann varð fyrir síðasta sumar. Ákveðið var í fjölskyldu hans að bregða sér í heimsókn til þess lands er réð yfir Fróni í ótal aldir, sem sagt Danmerkur.
Eitt og annað var sett á skoðunarlistann meðal annars hið fræga fjall Dana Himmelbjerget sem við köllum hól. Viðmælandi minn vissi ekki að ef stoppað er á ákveðnum stað við rætur hólsins, virkar hann hærri en ella. Hann er hins vegar dæmigerður Íslendingur og gengur ekki lengra en hann þarf. Því keyrði hann hinu megin og fann aldrei fjallið, en kom að sjoppuröð á stað einum. Taldi hann sig hafa villst og fór því að spurði í einum söluskálanum hvar Himmelbjerget væri. Undrun hans varð mikil þegar honum var tjáð að staddur væri hann á toppi þess, án þess að hafa gjört sér nokkra grein fyrir því. Jafnframt var hann leiddur í allan sannleikan um villu sína og sýnt fram á að ekki væri sama hvar aðkoman væri.
En úr því að búið var að brjóta ísinn og menn höfðu tekið tal saman spurði þessi kunningi minn hvað margir ferðamenn kæmu á bungu þessa, ár hver. Ein milljón var svarið. Ein milljón!!!!!????? Kunningi minn varð eins og húsbóndinn í vísunni góðu að einu upphrópunarmerki. Já og fer vaxandi var hin nánari skýring sem hann fékk. Og nú varð sögumaður virkilega hugsi. Til Íslands koma kannski í ár, um 700 þús. ferðamanna. Þeir eru að heimsækja heilt land, sem þar á ofan er mikið stærra en Danmörk öll. En á mishæð þessa koma milljón manns, ár hvert. Bara þangað.
Niðurstaða kunningja míns var því, eins og í upphafi var getið sú, að við þyrftum að fá Dani til að markaðssetja Ísland. Það væri greinilegt að við kynnum ekkert til þessara fræða, alla vega benti árangurinn ekki til þess. Þeir eru kannski ekki með þvottabretti á færibandi, og kannski eru aðstæður og aðbúnaður fyrir ferðamenn betri hjá þeim en fyrrum nýlenduþjóðinni. En hvað sem því líður, Danir geta greinilega selt allt. Annað hvort hafa þeir lært það nýlega eða vildu ekki kenna okkur á meðan við vorum undir þeirra hatti. Nema þeir hafi verið svo klárir að passa sig á því að kenna okkur fátt og lítið í þessum fræðum, því þeir sáu að við hefðum mikið meira úrval að bjóða, ef við kynnum að markaðssetja það rétt. Alla vega eigum við hærri fjöll en hið danska Himmelbjerget eða Himnabjarg eins og má útleggja það á íslensku.
Með markaðskveðjum úr Borgarfirðinum
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru