Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Fimmtudagur, 28. apríl 2011
Ótrúlegt
það var einu sinni kona sem datt á bólakaf í stóran drullupoll. Allir nærstaddir hlógu. Konan stóð upp og sagði að þetta hefði verið með vilja gert. Að leggjast flatur í drullu væri eitt besta fegrunarmeðal sem til væri. Það væri svo gott fyrir húðina. Slíkur var sannfæringarkrafturinn að áður en við var litið var fjöldi manns farin að baða sig upp úr drullupollum, hvar sem til þeirra náðist. Það var ekki fyrr en ein saklaus sál nefndi að baða sig upp úr drullu hefði ekkert annað í för með sér en auka þvott, sem í sjálfu sér er gott fyrir húðina, að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.
það var einu sinni keisari sem réði til sín klæðskera sem áttu að sauma á hann ný föt. Þótt ekkert væri efnið var sannfæringarkrafturinn slíkur að þeim tókst að telja keisara og hirðinni allri trú um að um fegursta silki væri að ræða. Keisarinn ákvað að klæðast hinum nýju fötum við hátíðlegt tækifæri. Það var ekki fyrr en saklaust barn nefndi að hann væri klæðalaus að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.
Það voru einu sinni fjármálamenn sem ákváðu að verða ríkir. Þeir uxu og döfnuðu, eins og púki á fjósbita. Veldi þeirra var mikið, eða svo héldu allir og þjóðin var afar stolt af þeim. Margir urðu til að vara við að ekki væri allt þetta veldi byggt á bjargi, fremur væri það byggt á sandi. Sannfæringarkraftur fjármálamannanna var slíkur að fólk tók svona gagnrýni ekki vel. Það væru bara öfundssjúkir aðilar sem svona létu. Það var ekki fyrr en allt fór í norður og niðurfallið, með miklu brauki og bramli að álögin runnu af fólki. Ótrúlegt.
Það var einu sinni land sem bjó yfir besta vatni í heimi. Þjóðin í landinu var ekki meðvituð um þá auðlind sína og hafði kannski ekki trú á hún væri merkileg. Þrátt fyrir að reynt væri að selja vatnið til landa þar sem skortur var á slíkum gæðum, tókst ekki sem skyldi. Þar vantaði sannfæringarkrafinn til að losa álögin af fólki. Ótrúlegt.
Það var einu sinni þjóð sem ræktaði ómenguðust afurðir í heimi. Náttúran var hrein, ekki þurfti að úða eiturefnum á allt sem óx og vatnið var í háum gæðum. Þjóðin reyndi að selja kjöt til útlanda en hafði ekki árangur sem erfiði að neinu viti, var kannski með minnimáttarkennd. Þar vantaði sannfæringarkraftinn til að koma gæðavöru á markað og álögin enn virk. Ótrúlegt.
Það var einu sinni að fólk sem lenti í hremmingum. Það varð að stokka allt upp, skoða og meta lífið og gæði þess upp á nýtt. Svo liðu árin. Einn dag kom maður fram í fjölmiðli landsins og greindi frá því að nú væri rosalega sniðugt að fara að rækta erfðabreytt matvæli. Það væri bara allt í lagi þótt ekki væri búið að rannsaka það mikið hvaða afleiðingar það hefði fyrir fólk og dýr að borða afurðirnar. Þetta væri stærsta skref sem mannkynið hefði stigið í árþúsundir. Þótt alls ekki væri heldur fyrirséð hvaða áhrif svona aðskotaplöntur hefðu á móður jörð. Málið væri að erfðabreytt korn gæfi svo mikið meira af sér, menn myndu græða svo mikið meira á því að rækta þessar plöntur. Sagan minnir mjög á söguna um fjármálamennina. Spurning hvort fólkið sé enn í dróma og muni gera sömu mistök aftur. Lætur það einhvern með mikinn sannfæringarkarft segja sér hvað er í lagi og hvað ekki. Hverju eigi að trúa og hverju ekki. Vonandi hafa menn lært af reynslunni og beita heilbrigðri skynsemi til að meta hvað er rétt en gleypa ekki hráar yfirlýsingar þeirra sem vilja selja. Annað væri Ótrúlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. apríl 2011
Spólað um á Kódjak munstri
Vitur manneskja sagði eitt sinn að ekki ætti að skrifa pistla eða neitt sem kæmi fyrir sjónir almennings, út frá sínum lægri hvötum. En stundum brýtur nauðsyn lög og í dag ætla ég að skrifa út frá mínum lægri hvötum.
Einu sinni var sagt að slétt dekk undir bílum væru með Kódjak munstur, þ.e. ekkert munstur. Nú eru komin tvö ár, rúmlega, síðan Guð blessi Ísland, ræðan var flutt í sjónvarpinu. Og hvað svo? Já hvað svo? Lítið hefur breyst að því er virðist. Okkur er þó sagt að svo sé, fyrirtækið Ísland sé á rétta úr kútnum. Það getur vel verið bókhaldslega séð buddan mín er ekki sammála því.
Á síðasta ári, meðan áfallið var enn í fersku minni ól ég þá von að við, Íslendingar, myndum læra af þessu öllu. Henda fyrringunni, huga að okkur sjálfum, ræktun lands og lýðs. Sjá að fleira er í lífinu heldur en brask og eyðsla.
Fyrir jólin 2009 fannst mér áberandi minna af auglýsingum í fjölmiðlum. Það er sannarlega ekki svo lengur. Þegar hafa auglýsingatimar ljósvakamiðlanna lengst að nýju. Ferðir seljast til útlanda sem aldrei fyrr og fyrir jólin síðustu var aftur farið að auglýsa jólagjafirnar hennar og hans upp á mörg hundruð þúsund.
Eftri að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út gladdist ég. Renndi yfir hana þá og síðar og hugsaði, hér eru leiðbeiningar fyrir okkur til að læra af. Gerum aldrei aftur sömu mistökin og hér er greint frá. En mér hefur sýnilega ekki orðið að ósk minni. Skýrslunni er veifað sem refsivendi mun frekar en leiðbeinandi riti. Ég er farin að halda að Íslendingar almennt vilji bara spóla áfram á Kódkjak munstrinu.
Þegar haldið var upp á eins árs afmæli skýrslunnar góðu var Sigrún Davíðsdóttir með ágætan pistil í Speglinum, fréttaskýringarþætti RÚV. Þar nefndi hún meðal annars að Seðlabankinn ætlaði að fara að láta vinna skýrslu. Af hverju eru þeir að láta vinna skýrslu? Þeir hafa haldgóða, vel unna og ígrundaða skýrslu til að fara eftir. Hins vegar hafa þeir ekkert nýtt sér hana eða leiðbeiningarnar sem þar komu fram, að því er viðrist. Þeir hafa heldur ekki markað neina peningastefnu sem ég hef heyrt um. Af hverju ekki? Vilja þeir slá ryki í augu almennings með því að láta vinna eina skýrsluna enn í stað þess að taka til í eigin ranni? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.
Og hvað með afkomu og greiðslugetu fólks? Vitað er að sumir eiga sand af seðlum, það sést á ýmsu. Einnig er vitað að sumir eiga minna en ekkert. Sá hópur býr ekki við mannréttindi því mismununin er sannarlega enn virk. Það virðist nefnilega vera svo að margir þeir sem bröskuðu og þöndust út, hrundu svo saman sem stungin blaðra, séu komnir aftur í gang og sumir hverjir á nákvæmlega sama stað og þeir voru fyrir tveimur árum.
Ef það er okkar val að læra ekkert af mistökunum, þá höldum við áfram að spóla um á Kódkjak munstri. Maður spyr sig þá hvort nokkuð sé undarlegt að stjórnvöld geri það líka og að fátækir verði enn fátækari og ríku enn ríkari.
Aftur getur runnið upp sá tími, sem foreldar okkar, afar og ömmur börðust gegn að eldra fólk og öryrkjar hafi varla til hnífs og skeiðar því að fyrringin er svo mikil að hver spólar bara um í sínu hjólfari og er skít sama um hina. Kannski ég ætti að fara að öngla saman fyrir útförinni, svo öruggt sé að ekki þurfi að hola manni niður á kostnað ríkisins, þegar þar að kemur.
Nýjustu færslur
- Kjósum rétt!
- Af hverju leyfir meirihlutinn, minnihlutanum að kúga sig?
- Auðugusta þjóð í heimi sem veit ekki af því
- Minnisvarði Landsbankans
- Ferðamenn og hagsýni
- Hvað má borða og hvað ekki
- Samgöngur eiga vera sjálfsögð grunnþjónusta
- Að vera eða vera ekki---SNOBBAÐUR
- Danir eru snjallir markaðsmenn
- Landsbyggðin í lykilhlutverki í biskupskosningum
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Mínir tenglar
- Borgarfjörður blómstrar Að Borgum er gott að búa-sumarbústaðalóðir til leigu/sölu
- Stafholtskirkja Borgarfirði
Margir góðir
- Trausti Jónsson, veðurfræðingur Borgnesingur eins og fleiri góðir
- Besta héraðsfréttablaðið
- Nanna Rögnvaldar
- Snara orðabók með meiru