Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Við hin

Ég er að hugsa um að segja ykkur sögu úr raunveruleikanum. Jón A og Jón B keyptu sér hús á sama tíma. Jón A hafði aðgang að aðila úr fjármálageiranum, fékk ráðleggingar frá óháðum aðila. Hann tók því gengistryggt lán til 15 ára til að borga húsið sitt. Jón B hafði ekki þennan aðgang. Hann fór í bankann sinn og spurði ráða. Á þeim bæ var honum sagt að ekkert vit væri að taka gengistryggt lán til 15 ára svo hann tók verðtryggt lán, til 40 ára. Þetta var árið 2005. Árið 2008 varð hrun á Íslandi. Líklega hefur einhver heyrt minnst á það.

Jónarnir okkar báðir lentu í erfiðri súpu. Jón A sá lánið sitt rjúka upp úr öllu valdi, tók andköf og átti svefnlausar nætur. Jón B lenti í sömu súpu. Jón A var hins vegar heppari en nafninn því hans lán var gengistryggt og kannski meira að segja ólölegt. Hann getur því átt von á endurgreiðslu, niðurfellingu og ýmsu öðru. Þeim nóttum hefur því fljögað að nýju þar sem hann nýtur hvíldar. Því er ekki þannig háttað um aumingjan hann Jón B.

Verðtryggð lán eru eins og óhreinu börnin hennar Evu. Það vill enginn kannast við þau.  Samt eru þetta lánin sem flest heimili landsins bera. Þau hafa þann stóra ókost að þau lækka ALDREI eftir verðlagi, gengi eða verðbólgustigi, eins og gerist með gengistryggðu lánin. Höfustóll verðtryggðra lána hækkaði og hækkaði í verðbólguskotinu og hann verður áfram hár. Höfuðstóll gengistryggðu lánanna mun lækka þegar gengið lækkar og vaxtakjörin eru öðruvísi. 

Af hverju talar enginn um það sem brennur á flestum? Af hverju tekur enginn á þeim stóra vanda sem þessi verðtryggðu lán eru? Bara sett í nefnd til að svæfa málið? Er það af því að verkefnið er svo yfirþyrmandi að enginn treystir sér til að byrja á því eða er það af því að viljann vantar?

Landsbyggðin líður þegar fyrir ótrúlegt verð á eldsneyti. Við höfum ekki möguleika á því að sinna erindum okkar nema á bíl, þó við gætum tekið þarfasta þjóninn í meiri og aukna notkun, þarf slíkt nokkuð langan aðdraganda. Verð á rafmagni hefur hækkað gífurlega. Ég var að taka saman tölur fyrir eitt hús fyrir skömmu. Árið 2009 kotaði rafmagnið þar kr 74 þúsund rúm. Árið 2010 var það 243 þúsund rúm. Tekið skal fram að þetta hús er með rafmagnskyndingu, ekki hitaveitu. Kalda vatnið hjá Orkuveitu Reykjavíkur hefur einnig hækkað umtalsvert. Verð á nauðsynjavörum hefur einnig hækkað mikið. Að ekki sé talað um lánin. Það eina sem ekki hefur hækkað er kaupið. Og svo segja menn, við erum á uppleið. Við erum sannarlega á uppleið, með verðið. 

Ég er ein af þeim mörgu Íslendingum sem hef gerst sek um einn hlut. Ég hef verið að borga og borga, alla mína ævi og einfaldlega viljað standa í skilum. Ég á ekki nýjan bíl, hef ekki keypt mér nýtt hús eða húsgögn eða flatskjá eða eða eða eða. Ég er alin upp við að standa við mín loforð og það er í raun það eina sem ég hef gerst sek um. Lánin mín urðu að skrímsli í verðbólgunni, ekki í fyrsta sinn sem ég lendi í því, heldur í þriðja sinn. Ég held áfram að reyna að borga og borga og borga, en í ljósi staðreynda, þá er greiðslugeta mín orðin of lítil. Á meðan afskrifaðar hafa verið hundruðir milljarða fyrir ýmsa á ég bara að borga og borga og borga, ekkert er hægt að fella niður hjá mér. Ég sukkaði ekki nóg. Er þetta réttlæti? Við hin sem bara höfum gert okkur sek um að vilja standa okkar plikt, eigum við alltaf að borga brúsann? Er endalaust hægt að níðast á minni máttar?

Mig langar ekki að lifa í samræmi við mínar lægri hvatir, þótt ég eigi það til að lenda þar á stundum Fyrir nokkru sendi ég góðri konu póst Þar setti ég inn eftirfarandi setningar, af því að ég vil trúa því að réttlætið nái fram að ganga og mig langar að ná mér upp úr neikvæðninni.

Ég trúi því að til sé fólk sem vill fegurra mannlíf. Ég trúi því að til sé fólk sem vill að heilindi ríki. Ég trúi því að ef við tölum og framkvæmum frá hjartanu mun gott af hljótast. Ég trúi því einnig að trú á gömul og góð kristin gildi sé enn til í samfélaginu og verði okkur öllum til hagsbóta. Síðast en ekki síst, trúi ég því, ef við öll vinnum saman, af heilindum, muni réttlætið sigra að lokum. Að við sem höfum staðið okkar plikt, verið samviskusamir verkamenn í víngarðinum, munum uppskera ríkulega, en það þarf að gerast fljótt, áður en búið er að lýsa okkur öll gjaldþrota.  Blush


Spólað um á Kódjak munstri

Vitur manneskja sagði eitt sinn að ekki ætti að skrifa pistla eða neitt sem kæmi fyrir sjónir almennings, út frá sínum lægri hvötum. En stundum brýtur nauðsyn lög og í dag ætla ég að skrifa út frá mínum lægri hvötum.

Einu sinni var sagt að slétt dekk undir bílum væru með Kódjak munstur, þ.e. ekkert munstur. Nú eru komin tvö ár, rúmlega, síðan Guð blessi Ísland, ræðan var flutt í sjónvarpinu. Og hvað svo? Já hvað svo? Lítið hefur breyst að því er virðist. Okkur er þó sagt að svo sé, fyrirtækið Ísland sé á rétta úr kútnum. Það getur vel verið bókhaldslega séð buddan mín er ekki sammála því. 

Á síðasta ári, meðan áfallið var enn í fersku minni ól ég þá von að við, Íslendingar, myndum læra af þessu öllu. Henda fyrringunni, huga að okkur sjálfum, ræktun lands og lýðs. Sjá að fleira er í lífinu heldur en brask og eyðsla.

Fyrir jólin 2009 fannst mér áberandi minna af auglýsingum í fjölmiðlum.  Það er sannarlega ekki svo lengur. Þegar hafa auglýsingatimar ljósvakamiðlanna lengst að nýju. Ferðir seljast til útlanda sem aldrei fyrr og fyrir jólin síðustu var aftur farið að auglýsa jólagjafirnar hennar og hans upp á mörg hundruð þúsund.

Eftri að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út gladdist ég. Renndi yfir hana þá og síðar og hugsaði, hér eru leiðbeiningar fyrir okkur til að læra af. Gerum aldrei aftur sömu mistökin og hér er greint frá. En mér hefur sýnilega ekki orðið að ósk minni. Skýrslunni er veifað sem refsivendi mun frekar en leiðbeinandi riti. Ég er farin að halda að Íslendingar almennt vilji bara spóla áfram á Kódkjak munstrinu. 

Þegar haldið var upp á eins árs afmæli skýrslunnar góðu var Sigrún Davíðsdóttir með ágætan pistil í Speglinum, fréttaskýringarþætti RÚV. Þar nefndi hún meðal annars að Seðlabankinn ætlaði að fara að láta vinna skýrslu. Af hverju eru þeir að láta vinna skýrslu? Þeir hafa haldgóða, vel unna og ígrundaða skýrslu til að fara eftir. Hins vegar hafa þeir ekkert nýtt sér hana eða leiðbeiningarnar sem þar komu fram, að því er viðrist. Þeir hafa heldur ekki markað  neina peningastefnu sem ég hef heyrt um. Af hverju ekki? Vilja þeir slá ryki í augu almennings með því að láta vinna eina skýrsluna enn í stað þess að taka til í eigin ranni? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.

Og hvað með afkomu og greiðslugetu fólks? Vitað er að sumir eiga sand af seðlum, það sést á ýmsu. Einnig er vitað að sumir eiga minna en ekkert. Sá hópur býr ekki við mannréttindi því mismununin er sannarlega enn virk. Það virðist nefnilega vera svo að margir þeir sem bröskuðu og þöndust út, hrundu svo saman sem stungin blaðra, séu komnir aftur í gang og sumir hverjir á nákvæmlega sama  stað og þeir voru fyrir tveimur árum.

Ef það er okkar val að læra ekkert af mistökunum, þá höldum við áfram að spóla um á Kódkjak munstri. Maður spyr sig þá hvort nokkuð sé undarlegt að stjórnvöld geri það líka og að fátækir verði enn fátækari og ríku enn ríkari.

Aftur getur runnið upp sá tími, sem foreldar okkar, afar og ömmur börðust gegn að eldra fólk og öryrkjar hafi varla til hnífs og skeiðar því að fyrringin er svo mikil að hver spólar bara um í sínu hjólfari og er skít sama um hina. Kannski ég ætti að fara að öngla saman fyrir útförinni, svo öruggt sé að ekki þurfi að hola manni niður á kostnað ríkisins, þegar þar að kemur. 


Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband