Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hver er Birna Guðrún Konráðsdóttir?

Fullt nafn mitt er Birna Guðrún og ég er Konráðsdóttir. Skírð í höfuðið á móðurforeldrum mínum, Birni Bjarnasyni og Guðrúnu Lilju Þjóðbjörnsdóttur. Hann var alin upp á Rangárvöllunum en hún í Borgarfirði. Foreldar mínir eru Margrét Björnsdóttir völundur og húsmóðir og Konráð Jóhann Andrésson stjórnarformaður og stofnandi Loftorku í Borgarnesi. Við systkinin erum fimm og ég er elst. Í Borgarnesi ólumst við upp í faðmi fjölskyldu og vina en þá var bærinn í raun bara þorp. Menn héldu enn kindur, hross og hænsni. 

Eftir landspróf í Borgarnesi fór ég í Menntaskólann á Akureyri. Ástin og letin urðu þess valdandi að ég lauk ekki stúdentsprófi en maki minn til ríflega þrjátíu ára er Brynjar Halldór Sæmundsson. Saman eigum við fjögur börn og fimm barnabörn. Letin hefur sem betur fer nokkuð runnið af mér en ástin blómstrar enn. 

Eftir að hafa útvegað þjóðfélaginu nokkra úrvals, mannvænlega þegna settist ég aftur á skólabekk. Fyrst var farið í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Þaðan lá leiðin í Frumgreinadeild Háskólans á Bifröst. Tók mér síðan frí frá námi í nokkur ár en flutti síðan til Kanada þar sem ég lauk diploma í sjúkranuddi árið 1997.  Hef ég starfað við fagið síðan, fram að síðustu áramótum er ég lokaði nuddstofunni. Önnur störf voru orðin svo fyrirferðarmikil að nauðsyn var að breyta til. 

Ég er alin upp í Guðsótta og góðum siðum, eins og þar stendur. Sem barni voru mér kenndar bænir og látin vinna þau störf er til féllu á heimilinu. Öll verk voru jafn rétthá þótt móður minni gengi ekki vel að láta mig vera röska við uppvaskið þá gafst hún ekki upp, sem betur fer. Við systkinin vorum hvött til að taka þátt í félagsmálum og í Borgarnesi bernsku minnar var úr nógu að velja. Það var einnig okkar lán að móðirin var heimavinnandi, sífellt til staðar til að taka á móti ungviðinu og ræða málefni dagsins. 

Við hjónin keyptum okkur jörð í Ystu Tungu Stafholtstungna árið 1999. Þar höfum við síðan blómstrað, eins og blómi í eggi. Haldið nokkrar kindur, hross og hund og liðið vel. Tungnamenn tóku vel á móti okkur, þannig að okkur hefur ætíð fundist við vera innfædd hér. Börnunum fannst ótækt að flytja allt draslið á haugana þegar við fluttum, en bærinn hét áður Haugar. Okkur til happs var til sögn um eldra nafn og breyttum við bæjarnafninu strax árið 1999 í Borgir. Sumum til ama, öðrum til gleði. 

Ég hef víða komið við í leik og starfi. Á meðan búið var í Borgarnesi var ég m.a. framkvæmdastjóri í verslun sem hagleiksfólk í héraði stóð að, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Borgfirðings og kennari án réttinda við Grunnskólann í Borgarnesi. Eftir að námi í sjúkranuddi lauk, starfaði ég við það en þörfin til að skrifa blundaði ætíð undir. Ég réðst til starfa á héraðsfréttablaðinu Skessuhorni og vann þar um skeið en er nú lausráðinn blaðamaður.

Félagsmálin hafa alltaf verið órjúfanlegur hluti af lífinu, ekki síst eftir að sveitalífið tók við. Þó hef ég ekki verið í pólitík og ekki gefið mig út fyrir það eða verið í neinum stjórnmálaflokki. Í gamla daga tók ég þó þátt í starfsemi Kvennalistans án þess að vera þar á lista. Í dag er ég formaður í Veiðifélagi Norðurár og Gljúfurár. Einnig stjórnarmaður í Veiðifélagi Borgarfjarðar. Ég sit í sóknarnefnd Stafholtskirkju sem formaður og einnig í fjallskilanefnd, ásamt því að vera kirkjuþingsmaður og varamaður í kirkjuráði. Þess á milli reyni ég að skrifa fyrir Skessuhornið, Morgunblaðið, Bændablaðið og aðra þá miðla er vilja njóta starfskrafta minna. En fyrst og fremst er ég landsbyggðarmanneskja sem vill hvergi annars staðar búa. 

Ég hef búið í höfuðborg lýðveldisins um nokkurra ára skeið, á Norðurlandi og í Borgarfirði.  Fyrir mig hefur valið aldrei verið erfitt. Landsbyggðin lokkar og laðar. Henni vil ég helga starfskrafta mína, til heilla fyrir land og lýð. Ég hef brennandi áhuga á að taka þátt í að búa til betri veröld fyrir þær kynslóðir sem ganga munu um Íslands grundir um alla framtíð. Því býð ég mig fram til Stjórnlagaþings. 


Höfundur

Birna G. Konráðsdóttir
Birna G. Konráðsdóttir

Lauk MA gráðu í félagsvísindum og BA gráðu í Nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Þar áður námi í sjúkranuddi frá CCMH í Kanada.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

33 dagar til jóla

Eldri færslur

2024

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband