Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Kærar þakkir

Ágætu lesendur!

Inn á þessa síðu hefur ótrúlegur fjöldi fólks kíkt, síðustu daga.  Hér hef ég einkum skrifað það sem leggið hefur á hjarta varðandi kosningar til Stjórnlagaþings. Ég vil því nota þessa síðu og þetta tækifæri til að þakka fyrir. Bæði fyrir lesturinn hér inni og eins vil ég þakka ykkur sem fóruð á kjörstað. Ég hef brennandi áhuga á því að vinna að endurbótum á stjórnarskránni. Hvort ég fæ tækifæri til þess kemur í ljós á næstu dögum.

Ég hef einnig þá trú að þessi tilraun, að kjósa í persónukjöri, hafi verið afar mikilvæg fyrir okkur. Því miður varð þátttakan ekki sem skyldi en við erum þó reynslunni ríkari. Mér finnst einnig athyglisvert hversu fáir eyddu miklu fé í auglýsingar. Ég fékk einungis einn "kjóstu mig" miða í póstkassann hjá mér. Það finnst mér gott. 

Enn og aftur endurtek ég þakkir mínar, ekki síst til ykkar sem kusuð mig. 


Sætin skipta máli

Smá misskilnings hefur gætt meðal kjósenda sem sumir hverjir halda að það skipti ekki máli í hvaða sæti þeir setja þá sem þeir vilja kjósa, allir fái sama vægi. Þetta er ekki rétt. Sá sem þú vilt helst að komist inn, þarf að vera efstur á listanum þínum. Það skiptir máli. Hins vegar til að nota atkvæðið þitt sem best er ekki verra að skrifa niður fleiri númer. Sá sem er efstur er kannski þegar öruggur inn, þegar kemur að þínum seðli í talningunni, þá færist atkvæðið þitt á næsta númer fyrir neðan og síðan koll af kolli. Verið gæti líka að sá sem er efstur hjá þér, eigi enga von, þá færist atkvæðið þitt líka á þann næsta.

Gæta verður að því að skrifa í hverja línu. Ef ein línan er auð eru þau númer þar á eftir ógild. Ef fólk er í vafa er best að setja bara eitt númer og bendi ég í því sambandi á mitt, 4195. Það er nokkuð gott. 

Hvernig sem allt veltist er nauðsynlegt að fólk mæti á kjörstað og kjósi. 


Hver er Birna Guðrún Konráðsdóttir?

Fullt nafn mitt er Birna Guðrún og ég er Konráðsdóttir. Skírð í höfuðið á móðurforeldrum mínum, Birni Bjarnasyni og Guðrúnu Lilju Þjóðbjörnsdóttur. Hann var alin upp á Rangárvöllunum en hún í Borgarfirði. Foreldar mínir eru Margrét Björnsdóttir völundur og húsmóðir og Konráð Jóhann Andrésson stjórnarformaður og stofnandi Loftorku í Borgarnesi. Við systkinin erum fimm og ég er elst. Í Borgarnesi ólumst við upp í faðmi fjölskyldu og vina en þá var bærinn í raun bara þorp. Menn héldu enn kindur, hross og hænsni. 

Eftir landspróf í Borgarnesi fór ég í Menntaskólann á Akureyri. Ástin og letin urðu þess valdandi að ég lauk ekki stúdentsprófi en maki minn til ríflega þrjátíu ára er Brynjar Halldór Sæmundsson. Saman eigum við fjögur börn og fimm barnabörn. Letin hefur sem betur fer nokkuð runnið af mér en ástin blómstrar enn. 

Eftir að hafa útvegað þjóðfélaginu nokkra úrvals, mannvænlega þegna settist ég aftur á skólabekk. Fyrst var farið í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Þaðan lá leiðin í Frumgreinadeild Háskólans á Bifröst. Tók mér síðan frí frá námi í nokkur ár en flutti síðan til Kanada þar sem ég lauk diploma í sjúkranuddi árið 1997.  Hef ég starfað við fagið síðan, fram að síðustu áramótum er ég lokaði nuddstofunni. Önnur störf voru orðin svo fyrirferðarmikil að nauðsyn var að breyta til. 

Ég er alin upp í Guðsótta og góðum siðum, eins og þar stendur. Sem barni voru mér kenndar bænir og látin vinna þau störf er til féllu á heimilinu. Öll verk voru jafn rétthá þótt móður minni gengi ekki vel að láta mig vera röska við uppvaskið þá gafst hún ekki upp, sem betur fer. Við systkinin vorum hvött til að taka þátt í félagsmálum og í Borgarnesi bernsku minnar var úr nógu að velja. Það var einnig okkar lán að móðirin var heimavinnandi, sífellt til staðar til að taka á móti ungviðinu og ræða málefni dagsins. 

Við hjónin keyptum okkur jörð í Ystu Tungu Stafholtstungna árið 1999. Þar höfum við síðan blómstrað, eins og blómi í eggi. Haldið nokkrar kindur, hross og hund og liðið vel. Tungnamenn tóku vel á móti okkur, þannig að okkur hefur ætíð fundist við vera innfædd hér. Börnunum fannst ótækt að flytja allt draslið á haugana þegar við fluttum, en bærinn hét áður Haugar. Okkur til happs var til sögn um eldra nafn og breyttum við bæjarnafninu strax árið 1999 í Borgir. Sumum til ama, öðrum til gleði. 

Ég hef víða komið við í leik og starfi. Á meðan búið var í Borgarnesi var ég m.a. framkvæmdastjóri í verslun sem hagleiksfólk í héraði stóð að, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Borgfirðings og kennari án réttinda við Grunnskólann í Borgarnesi. Eftir að námi í sjúkranuddi lauk, starfaði ég við það en þörfin til að skrifa blundaði ætíð undir. Ég réðst til starfa á héraðsfréttablaðinu Skessuhorni og vann þar um skeið en er nú lausráðinn blaðamaður.

Félagsmálin hafa alltaf verið órjúfanlegur hluti af lífinu, ekki síst eftir að sveitalífið tók við. Þó hef ég ekki verið í pólitík og ekki gefið mig út fyrir það eða verið í neinum stjórnmálaflokki. Í gamla daga tók ég þó þátt í starfsemi Kvennalistans án þess að vera þar á lista. Í dag er ég formaður í Veiðifélagi Norðurár og Gljúfurár. Einnig stjórnarmaður í Veiðifélagi Borgarfjarðar. Ég sit í sóknarnefnd Stafholtskirkju sem formaður og einnig í fjallskilanefnd, ásamt því að vera kirkjuþingsmaður og varamaður í kirkjuráði. Þess á milli reyni ég að skrifa fyrir Skessuhornið, Morgunblaðið, Bændablaðið og aðra þá miðla er vilja njóta starfskrafta minna. En fyrst og fremst er ég landsbyggðarmanneskja sem vill hvergi annars staðar búa. 

Ég hef búið í höfuðborg lýðveldisins um nokkurra ára skeið, á Norðurlandi og í Borgarfirði.  Fyrir mig hefur valið aldrei verið erfitt. Landsbyggðin lokkar og laðar. Henni vil ég helga starfskrafta mína, til heilla fyrir land og lýð. Ég hef brennandi áhuga á að taka þátt í að búa til betri veröld fyrir þær kynslóðir sem ganga munu um Íslands grundir um alla framtíð. Því býð ég mig fram til Stjórnlagaþings. 


Af hverju ætti ég eiginlega að kjósa?

Þetta er sú spurning sem margir hafa spurt mig að undanförnu. Svar mitt við því er í nokkrum liðum.

Það tók okkur langan tíma að öðlast kosningarétt að nýju. Í langan tíma réðu Íslendingar engu um það hverjir færu hér með völd. Hvað þeir gerðu eða hvernig umhverfi okkur var boðið upp á. Við urðum bara að kyngja því sem aðrir þröngvuðu upp á okkur. Það var mikill sigur að öðlast þennan dýrmæta rétt að fá að segja skoðun sína með atkvæði sínu. Við eigum því að kjósa.

Nú er verið að prufukeyra persónukosningar. Það væri slæmt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, ef þátttaka yrði svo lítil að enginn reynsla kæmi á þessa framkvæmd. Þegar við sem landsbyggðina byggjum segjum svo síðar að frekar en að landið verði eitt kjördæmi eða kjördæmin stækkuð enn frekar, viljum við persónukosningar, þá munu stjórnvöld nota dræma þátttöku nú til að blása það af. Mætum því á kjörstað.

Reyndar er ég örlítið smeik við persónukjör, almennt, nema reglur séu strangar um auglýsingar. Persónukjör getur nefnilega boðið upp á þær aðstæður að sá sem hefur mest fé, handa á milli, komi sér best á framfæri. Það væri mjög óréttlát gagnvart öðrum. Með ákvæðum um hámarks upphæð í auglýsingar væri hins vegar hægt að reyna að setja fyrir þann leka. Í dag er hægt að auglýsa sig án mikils tilkostnaðar. Það tekur frekar tíma en fé. 

Margir frambjóðendur tala um að landið eigi að vera eitt kjördæmi. Eins og það er sett upp hjá flestum hugnast mér sú hugmynd ekki. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá hvernig landsbyggðin kæmi út úr því. Við fengjum engan mann kjörinn, það er ekki flókið. 

Landsmenn góðir. Notum þennan dýrmæta rétt sem við höfum. Mætum á kjörstað, þótt fólk skili auðu er það betra en að sitja heima. Þetta er verðmætasti réttur hverrar sjálfstæðar þjóðar. Hann á að nota. 


Breyting á stjórnarskránni núna

Hvort þetta er endilega rétti tíminn til að breyta stjórnarskránni skal ég ekki um segja og því síður að ég hafi einhverja töfraformúlu á því hvenær æskilegt er að endurskoðun fari fram. Margir telja að besti tíminn sé einmitt núna vegna hrunsins og þess ástands sem hefur ríkt í þjóðfélaginu. Að mínu viti þarf það ekki að vera svo. Ástandið gæti meira að segja truflað sýn fólks þannig að skammtímahagsmunir verði yfirgnæfandi og það væri mjög slæmt ef slíkt ætti sér stað.

Hins vegar er búið að eyða töluverðu fjármagni í allan þennan undirbúning. Það væri afar heimskulegt að láta þá peninga fara í súginn með því að hætta við núna. Sú hagsýni sem mér var innrætt í foreldrahúsum segir mér að betra sé að halda áfram en hætta við, þó ekki væri nema vegna peningana.

Breytingar eiga ekki að verða breytinganna vegna. Það verður að vera ástæða fyrir þeim og þær að leiða til einhvers betra. Sumu vil ég ekki breyta, annað er vert að endurskoða, eins og sjá má í öðrum pistlum. Stjórnarskráin á að vera gangorð og á auðskildu máli. Ekki plagg upp á fimm þúsund blaðsíður, sem enginn skilur nema lögfróðir aðilar. Hún þarf að vera hryggjarstykki löggjafarinnar, handhæg öllum og eins tímalaus og auðið er.

 


Framsala á valdi

Margir hafa áhyggjur af undirbúningsvinnu stjórnvalda vegna inngöngu í ESB eða Evrópusambandið. Það er alveg skiljanlegt, sérstaklega er að sjá að slík innganga myndi ekki gera landsbyggðinni og landbúnaðarframleiðslu neinn greiða. Verst er að þótt allir telji sig vera víðsýna og gera það sem best er fyrir komandi kynslóðir, eða við trúum því að svo sé, þá er erfitt að vera spámaður. Auðveldast er að vera vitur eftir á.

Árið 1262 undirrituðu Íslendingar samning við Noregskonung um framsölu á valdi til hans.  Sú undirritun átti sér nokkra forsögu. Reikna má með að landinn hafi verið orðinn langþreyttur á eilífum erjum, eignarupptöku, stríðum og manndrápum. Yfirgangi valdastéttar og fégráðugra manna sem sölsuðu til sín eignir og völd. Öldin á undan, Sturlungaöldin, bauð sannarlega upp á allt þetta. Einnig var þjóðfélagið í raun að liðast í sundur þar sem enginn einn valdhafi hélt þjóðinni saman. Kannski var því von að menn gripu til þessa ráðs. 

Margt er sammerkt þessu í nútímanum. Við höfum búið við langvarandi styrjaldir þótt á annan veg sé. Engir hausar hafa flogið í eiginlegri merkingu, en menn hafa verið að sölsa til sín eignir og völd. Segja má að skiljanlegt sé að einhverjir horfi annað í von um betri tíð með blóm í haga. 

En rétt eins og forðum er hægt að spyrja. Hversu vel mun það reynast að framselja valdið til annarra? Hversu vel mun það koma okkur, eyþjóð langt norður í höfum, að treysta öðrum fyrir okkar málum. Einhverjum sem ekki hefur búið og lifað hér og reynt það á eigin skinni? Ég held að best fari á því að við sjáum um okkur sjálf. Til að tryggja að svo verði er nauðsynlegt að setja varnagla í næstu stjórnarskrá þess eðlis að framsala valds sé óheimil nema það sé borið undir þjóðaratkvæði og jafnvel að aukin meirihluti þjóðarinnar þurfi að samþykkja. Á þann hátt væri sem best tryggt að engar fljótfærnislegar ákvarðanir yrðu teknar. 

Við höfum reynsluna, söguna til að læra af. Gerum ekki sömu mistökin og áttu sér stað 1262 og voru staðfest með einveldisyfirlýsingunni í Kópavogi 1662. Sagan er til að læra af henni. 


Stöndum vörð um þjóðkirkjuna og höfum jafnframt trúfrelsi

Ég er kristin og vil því hafa þjóðkirkju og standa vörð um hana. Staðreynd máls er sú, sem líta ber á, að við höfum verið kristin í þúsund ár og búið við kristin gildi. Allt okkar samfélag byggir á því, uppbygging, siðir og venjur. Mér er til efs að við gætum breytt þeirri byggingu þótt einhver vildi. 

Hins vegar finnst mér jafn sjálfsagt að fólk fái að vera í hverju því trúfélagi sem það kýs eða engu ef svo ber undir. Það er hluti af mannréttindum hvers einstaklings. Ég vil því að félagsgjöldin eða sóknargjöldin, eins og þau heita, renni til hvers trúfélags, eins og það er í dag, en einnig að félagsgjöld þeirra sem eru utan trúfélaga, renni til Háskóla Íslands, eins og gert var ráð fyrir í stjórnarskránni en er ekki lengur. 

Það er nokkuð sláandi að hlusta á rök þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju en hafa ekki kynnt sér málin. Þjóðkirkja og ríkiskirkja er alls ekki það sama. Ríkiskirkja er stofnun sem alfarið lítur vilja ríkisins á hverjum tíma og þarf e.t.v. að dansa eftir höfði misviturra stjórnmálamanna. Við höfum mörg dæmi um slíkt úti í hinum stóra heimi. Þjóðkirkja er sú trúarstofnun sem meirihluti þjóðar tilheyrir og hefur valið að tilheyra. Þannig er það á Íslandi og það er styrkur þjóðkirkjunnar.


Ákvæði um náttúruna, flóru og fánu

Að mínu mati þarf að setja í stjórnarskrá ákvæði um náttúruna, flóru og fánu. Umgengni og umgengnisrétt við hana og hvernig við ætlum að skila henni til komandi kynslóða. Það er ekki réttlætanlegt að við vöðum yfir móður jörð á skítugum skónum.

Hér eins og annarsstaðar þurfum við að hugsa áður en við framkvæmum. Þá er ég ekki einungis að hugsa um einhverjar stórframkvæmdir heldur alveg eins umgengni okkar, almennings. Við þurfum að huga á hálendinu, votlendinu, dýralífi og hvernig við göngum um. Við þurfum að huga að því að fólk fái að skoða landið sitt á skynsamlegan hátt. Það er sjálfsagt, að mínu mati, að almenningur fái að fara sem víðast, skoða sem mest, en það þarf að hafa skynsemina við stýrið, þar sem annarsstaðar.

Flestir ganga vel um, virða allar reglur og skemma ekkert. Njóta bara og upplifa. Þeir, hinir sömu, eru auðfúsugestir. Það er hins vegar alltaf þetta litla hlutfall, hinir svörtu sauðir, sem eyðileggja fyrir meirihlutanum. Það er ekki síst þeirra vegna sem þarf að setja reglurnar. 

 


Í upphafi skyldi endinn skoða

það er gaman að því hversu margir andans menn og konur eru meðal frambjóenda til Stjórnlagaþings. Greinum af ýmsum toga er skutlað fram á völlinn, sem ekkert sé. Nokkuð er ljóst að mörgum liggur mikið á hjarta og þurfa að deila því með okkur hinum. Það er af hinu góða. Ég hef jafnframt verið nokkuð hugsi yfir ýmsu því sem ég hef lesið. Þar hef ég dottið um ýmis sjónarmið sem hafa víkkað sjóndeildarhring minn. Því fagna ég. Hins vegar verð ég að segja að það hefur líka orðið þess valdandi að mér finnst enn meira áríðandi en fyrr að breyta ekki breytinganna vegna. Að í upphafi skyldi maður endinn skoða. Þeir sem kjörnir verða til stjórnlagaþings verða að reyna að vera víðsýnir í skoðannamyndun sinni og ákvarðanatöku. Gleyma sér ekki alveg í núinu og gera sér grein fyrir því, sem kostur er, hvaða afleiðingar einstakar breytingar kunna að hafa í bráð og lengd. Annars er verr af stað farið en heima setið.

Hlunnindi, auðlindir, eignarréttur

Í tengslum við komandi Stjórnlagaþing hefur orðið auðlindir oft borið á góma. Áður en lengra er haldið í þeirri umræðu er nauðsynlegt að skilgreina orðið auðlind og hvað fellur undir þá skilgreiningu. Jafnframt að velta því fyrir sér hvað séu hlunnindi. Er heita laugin í túnfæti bóndans hlunnindi eða auðlind? Er laxveiðiáin hlunnindi eða auðlind?

Gjarnan hefur Íslendingum þótt lítið merkilegt að eiga nóg af hreinu, köldu vatni og margir umgengist það sem óþrjótandi auðlind. En er það svo? Þegar hitastig heimsins rís og mengunarvöldum fjölgar gæti  sú staða komið upp og er víða komin, að dýrmætasta auðlindin sé ómengað vatn. Vatn sem rennur um eignarlönd, hver á það? Af þessum fátæklegu dæmum sést að nauðsynlegt er að skilgreina þessi hugtök. 

Nauðsynlegt er að eignarrétturinn sé friðhelgur. Hann er undirstaða velferðar og þess samfélags sem við nú lifum í og mun að líkindum verða áfram.  Því er einnig nauðsyn að skilgreina hugtakið þjóðareign og hver getur verið handhafi hennar. Að því loknu er hægt að ákvarða hvaða auðlindir falla undir þjóðareign og hverjar ekki. 


Næsta síða »

Höfundur

Birna Guðrún Konráðsdóttir
Birna Guðrún Konráðsdóttir

Sjúkranuddari að mennt. Hef starfað sem blaðamaður, bæði fast- og lausráðinn. Lauk BA-gráðu við Háskólann á Akureyri í vor, 2015, og mun stunda meistaranám við sama skóla næstu misserin 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

270 dagar til jóla

Eldri færslur

2015

2012

2011

2010

2008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband